Gamaldags punktablogg
- Sit í stofunni í jogging buxum og þykkri peysu, drekk te og hangi á netinu. Gyða er niðri að vinna á laugardegi. Þessir ríkisstarfsmenn! Ég skýst bráðlega að kaupa rjómabollu handa henni. Er ekkert voðalega hrifinn af rjómabollum þannig að ég fæ mér eitthvað annað.
- Ítalskar kjötbollur eru mínar bollur!
- Fórum á Fosshótel í Reykholti síðustu helgi með foreldrum mínum og systkinum. Jólagjöf okkar systkina til foreldrar okkar. Óskaplega huggulegt og kósý. Fullir prestar á sprellanum dálítið kómískir!
- Frosti vikunnar fylgdi stilla og úrkomuleysi og því hjólaði ég til og frá vinnu alla dagana. Hef hjólað í allan vetur en sleppt því í allra verstu veðrum. Finn yfirleitt ekki fyrir kulda enda nokkuð vel búinn, stundum aðeins frosinn á puttum. Það er dálítið kómískt að þetta hjólastúss stuðar frjálshyggjusamsærisgaura. Þeim finnst þetta örugglega dygðarskreyting en málið er að mér finnst þetta skemmtilegt og þetta gerir mér gott. Það er frábært að byrja og enda vinnudaginn á því að hjóla frekar en að sitja í umferð. Ég meina, við eigum tvo bíla, þar með talið Land Cruiser, og þeir eru báðir á nagladekkjum eins og er. Þó þeir flokki mig með „góða fólkinu“ þá er ég í alvöru ekkert rosalega góður!
- Ég er óskaplega ánægður með hjólið mitt því færðin hefur ekki verið mikið vandamál.
- Nasistaskrif ganga hægt vegna þess að ég er latur, frekar upptekinn og líka vegna þess að það er úr svo fáránlega miklu að moða. Það styttist í næsta kafla, ég lofa. Mér finnst enn dálítið hlægilegt að sumir láta eins og ég kalli alla sem eru ósammála mér nasista. Það er glórulaust rugl. Og jújú, það eru alveg þokkalega margir búnir að sjá færslurnar.
- Það munu aftur á móti óskaplega fáir sjá þessa!
- Ég óttast að Manchester City eigi ekki eftir að tapa stigi það sem eftir er leiktíðar. Svo verði liðið dæmt fyrir brot á reglum deildarinnar á næstu leiktíð, eftir að Klopp er farinn. Ég er enn að jafna mig á því að Klopp ætli að hætta. Samt ekkert mjög dramatískt, ég sver.
- Þetta myndband er bara fjórar mínútur en útskýrir vel vandann við stjórnmálaumræðuna í dag.
Athugasemdir