Örvitinn

Covid og aðrar pestir

Fjölskyldumynd
Á góðri stundu á laugardegi, meðan allt lék í lyndi.
Lesandi, ég hef brugðist með því að upplýsa ekki um veikindi síðustu vikna! Best að gera bragarbót á því. Þó það væri ekki nema til að birta eitthvað á þessu blessaða bloggi.

Fyrir tveimur vikum fórum við hjónin út á lífið ásamt foreldrum mínum og systkinum. Byrjuðum á brunch á Public house, sötruðum Aperol spritz og fleiri drykki í sólinni fyrir framan Fjallkonuna, borðuðum pítsur í kvöldmat á Baka baka, fengum okkur drykki á svölunum á Petersen svítunni og enduðum á Kalda. Fínasta djamm semsagt!

Við flugum greinilega of nálægt sólinni og hröpuðum til jarðar í kjölfarið. Eftir sunnudagsþynnku og mánudagsslappleika, sem miðaldra fólki finnst nú bara eðilegt eftir djamm, komu þriðjudagsveikindi og jákvætt covid heimapróf hjá Gyðu. Hún flúði í útlegð, foreldrar hennar eru á Spáni og því gat hún flutt í íbúðina þeirra. Ég tók test henni til samlætis en var neikvæður, sem sumir myndu segja að væri við hæfi.

Á miðvikudagsmorgun fór Gyða í pcr próf, fékk jákvæða niðurstöðu um kvöldið. Ég fór í sjálfskipaða smitgát og vann heima á miðvikudag en var þá líka orðinn dálítið slappur og á fimmtudag veikur, með hálsbólgu og hósta, og tók þá veikindafrí. Bókaði tíma í pcr próf og hjólaði í Efstaleiti því Gyða var á jeppanum og dæturnar á litla bílnum. Einangraði mig í Bakkaseli til að smita dætur örugglega ekki í prófatörn, fór ekki framúr fyrr en þær yfirgáfu húsið og hélt mig í sjónvarpsstofunni. PCR prófið var neikvætt, eins og sál mín, myndu sumir segja.

Á meðan var Gyða greyið alein og slöpp í Efstaleiti (nafn á bók hennar um þessa sögu) en við reyndum að sendast til hennar með mat og fleira af og til. Dæturnar sáu eiginlega alfarið um mig, sóttu mat eða elduðu ofan í mig og færðu mér í sjónvarpsstofuna.

Ég gat lítið sofið fyrir hósta nema uppréttur og hef satt að segja aldrei hóstað jafn mikið á ævinni og síðustu viku. Leiddist þófið í gær, hringdi í heilsugæsluna og rakti raunir mínar. Var boðið að mæta þangað, hitti lækni sem hlustaði mig í bak og fyrir - heyrði ekkert merkilegt! Sá þó að ég var rauður í koki, enda búinn að hósta úr mér sálinni.

Eins og alltaf þegar ég fer loks til læknis eftir viku veikindi (sem gerist reyndar ekki oft) segir læknir að þetta muni líða hjá - og hingað til hafa þessari fjandar haft rétt fyrir sér. Ég er þó enn hóstandi en ekki smitandi samkvæmt lækninum. Honum þótti líklegast að ég hefði fengið inflúensu.

Gyða kom heim í gær, orðin hressari en þegar hún var verst en þó ekki hress og töluvert þreytt blessunin. Við fórum snemma saman í bælið í gær gömlu hjónin og sváfum ágætlega í nótt.

Ég tók covid heimapróf á hverjum degi fyrstu daga, jafnvel tvisvar á dag og alltaf voru þau neikvæð og nú ættu sumir að halda kjafti bara! Gyða fékk covid og ég sennilega flensu. Sem er auðvitað bara stórfurðulegt, finnst okkur að minnsta kosti.

Og þetta er veikindasaga síðustu daga. Við þurftum að afboða okkur úr fimmtugsafmæli í kvöld sem okkur hlakkaði mikið til að mæta í, treystum okkur ekki. Höfum ekki þrek og ég get ekki boðið fólki að umgangast mig síhóstandi. Ég óttast dálítið að gönguþrek sé farið í ruslflokk, ef ég losna við hósta prófa ég að ganga á einhvern hól á næstum dögum. Ætla að fara í mótefnapróf eftir mánuð til að vera alveg viss um að ég hafi ekki fengið covid.

dagbók heilsa
Athugasemdir

Matti - 09/05/22 14:15 #

Fór í ræktina í hádeginu og tók létta styrktaræfingu. Gekk bara nokkuð vel. Fann reyndar fyrir dálitlum svima eftir bakbfettur. Púlsinn fór svo ansi hátt upp í "léttri" ellpitical æfingu eftir lóðin.

Gyða byrjaði vinnudaginn heima en þurfti svo að hvíla sig, úrvinda.




ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)