Örvitinn

Eldgosið, fyrsta ferð

Eldgos
Hraun og gos

Ég kíkti með Palla á eldgosið eftir vinnu á miðvikudag, til að sjá það í ljósaskiptunum. Ég sótti hann í Grindavík, á leiðinni þangað var fjölbreytt veður, m.a. ansi hressandi hríð. Við ókum Suðurstrandaveg og lögðum nokkurn spöl frá gönguleiðinni.

Ganga var frekar þægileg, tvöfalda brekkan reynir örlítið á, en flestir ættu að komast þangað upp í rólegheitum.

Gönguleiðin á Garmin korti. Púlsinn hækkaði dálítið í brekkunum!

Eldgos
Það var magnað að sjá fjöldann á svæðinu, halarófa af fólki að koma og fara.

Við vorum komnir að gossvæðinu um hálf átta, enn í birtu en farið að rökkra. Röltum aðeins meðfram gosi og reyndum að finna gott sjónarhorn á dyngjurnar í ljósaskiptunum.

Eldgos
Ég vildi ná gosinu og hrauninu á mynd
Við sátum allgóða stund í brekkunni og tókum myndir og upplifðum kraftinn frá náttúrunni.
Eldgos
Svo fór að dimma og himininn að blána
Héldum heim á leið þegar klukkan var langt gengin í níu. Vorum ekki alveg einir á göngunni, runa af fólki með höfuðljós, flestir á bakaleið en einhverjir þó að mæta á staðinn.

Heimleið
Höfuðljós á heimleið
Heimleiðin gekk vel þó aðstæður væru aðeins erfiðari, dálítil hálka á köflum á gönguleiðinni. Við sáum nokkra renna á hausinn án þess að meiða sig en samkvæmt fréttum voru einhver slys útaf hálku þetta kvöld. Esjubroddarnir hefðu gert meira gagn undir fótunum á mér en í bakbokanum, þar sem þeir voru allan tímann! Bratta brekkan var einnig örlítið meira krefjandi á niðurleið og gott að geta stutt sig við kaðalinn.

Þetta var mögnuð upplifun og ég stefni á fleiri ferðir á gosstað. Það eina sem pirraði mig, og ég veit að það er kjánalegt að láta það pirra sig, var þessi þjóðhátíðarstemming á svæðinu. Fólk með kassagítar eða hátalar að spila tónlist og fá sér (líka í haus!). Er eldgos ekki nóg? Er þetta magnaða náttúrufyrirbæri í alvöru ekki nægilega merkilegt í sjálfu sér? Kannski ekki fyrir suma, hver er ég að dæma? Jú, ég dæmi fólki sem skilur eftir sig drasl harkalega!

Mannföldi
Mannfjöldi í brekkunni - og útsýnið okkkar

Ég tók slatta af myndum. Er ekkert sérlega ánægður með þær, en lærði ýmislegt og rifjaði annað upp. T.d. er ég sífellt að læra eina lexíu; það er gott að fara yfir allar stillingar á myndavélinni því stundum var ég að fikta eitthvað í síðustu myndatöku, t.d. í auto-iso í þessu tilviki sem olli því að lokunarhraði var minni á flestum myndun en ég ætlaði! Einnig er eiginlega nauðsynleg að nota gikksnúru og mirror lock up þegar maður er nota langa linsu á þrífæti. Næst er ég að spá í að nota bara 85mm linsuna!

dagbók myndir
Athugasemdir



ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)