365 dagar
Í dag er ár liðið síðan ég byrjaði að halda matardagbók. Því er kominn tími á fjórðu bloggfærsluna um málið, fyrri færslur eru: [90 dagar, 180 dagar, 270 dagar]. Ég blogga ekki aftur um þetta eftir 90 daga, kannski eftir hálft ár, örugglega eftir ár.
Fyrir rétt rúmlega 90 dögum, þegar ég skrifaði síðustu færslu, var ég búinn að ná markmiðum mínum. Síðan hefur þetta verið nokkuð stabílt. Ég léttist frekar hratt meðan ég var að vinna í meistaraverkefninu, bætti aðeins á mig eftir að ég var búinn með það og hef sukkað örlítið í sumarfríinu - djammað aðeins meira en áður. Þyngdarþróunina er hægt að skoða betur á þyngdarsíðunni.
Samkvæmt myfitnesspal á ég að innbyrða um 2300 hitaeiningar til að vera á sléttu en mín reynsla er að við það bæti ég hægt og rólega á mig. Þar með er ekki sagt að viðmiðið sé rangt, ég held ég fari bara aðeins yfir það þegar ég borða svona "mikið". Þegar ég byrja að borða meira kallar líkaminn á enn meira! Glíma mín er því að finna jafnvægi og halda mig við það. Málið er að detta ekki í far þar sem ég bæti á mig nokkrum kílóum og missi svo aftur heldur að reyna að komast í stöðugt ástand þar sem þyngdin sveiflast ekki mikið og ég þarf ekki að gera regulegar breytingar á mataræði. Ég lækkaði viðmiðið aftur í rétt rúmlega 2000 hitaeiningar á dag og fylgist með þróuninni.
Svona lítur þyngdarþróun síðasta árs út. Grafið sýnir meðaltalstölur. Það sést hvað þetta ár er afgerandi ef þyngdarþróun síðustu fimm ára er skoðuð. Ég hef borðað töluvert meira síðustu þrjá mánuði en mánuðina þar á undan. Ég hækkaði viðmiðið en hef ég líka verið kærulausari á köflum, duglegri að "borða hreyfingu", þ.e.a.s. að leyfa mér meira þegar ég hreyfi mig. Nokkuð margir dagar á tímabilinu þar sem ég hef borðað meira en 3000 hitaeiningar yfir daginn. Til samanburðar eru hitaeiningarnar sem ég innbyrti fyrstu 90 dagana. Takið eftir að á efri myndinni er rauða línan fyrir viðmiðið rétt rúmlega 2000, berið það saman við gráu línuna fyrir 2000 á eldra grafinu. Sukkdagar, yfir 3000, eru líka miklu sjaldgæfari.
Ég hef verið nokkuð duglegur að hreyfa mig, spilað meiri fótbolta og er enn duglegur að mæta í ræktina. Brenni kannski aðeins minna í ræktinni, einbeiti mér frekar að því að lyfta. Hef notað púlsmæli og gps úr í fótboltanum og miða hitaeiningar við það - skrái því aðeins færri hitaeiningar á hreyfingu en áður - veit ekki hve nákvæmt þetta er. Í gær hjólaði ég í fótbolta, spilaði í 70 mínútur og hjólaði aftur heim. Það var brennsla á um 600 kaloríum samkvæmt Garmin, áður hefði ég örugglega skráð meira á þá hreyfingu. Hluti "vandans" er að ég brenni minna við sömu hreyfingu nú þegar ég er í betra formi, á móti kemur að ég hleyp miklu meira í fótboltanum en ég gerði áður. Ég minnkaði viðmiðið í myfitnesspal í rétt rúmlega 2000 og er nú einfaldlega að leita að jafnvæginu. Mun halda áfram að skrá næsta árið. Það er lítil fyrirhöfn fyrir mig, ég hef gaman að þessari tölfræði. Gerist kannski kærulausari með að vigta matinn, slumpa oftar á tölur en reyni að halda mig við að áætla matinn rúmlega og hreyfingu tæplega.
Markmiðin hjá mér snúast nú um hreyfingu. Ég er ekki enn byrjaður á upphífingum án stuðnings, ekki enn búinn að ná hundrað í bekknum en bætti árangurinn í 6km hlaupi á bretti (hef lítil hlaupið síðan, er fyrst og fremst í boltanum). Ef veður verður þokkalegt ætla ég að hjóla meira eftir sumarfrí.
Breytingin á þessu ári hefur verið ótrúleg. Mér líður auðvitað miklu betur, líkamlega og andlega. Fólk sem hefur ekki séð mig lengi er yfirleitt gáttað enda breyting ansi mikil. Ég hef þurft að endurnýja fataskápinn og haft gaman að því, orðinn áhugamaður um föt enda miklu skemmtilegra að kaupa sér small og medium í stað 2XL eins og áður. Ég geymdi eina skyrtu og buxur til minningar, tek kannski mynd af mér í þeim fötum bráðlega. Öll hreyfing er orðin léttari og skemmtilegri, mér gengur betur í boltanum og þegar ég hef hjólað undanfarið hef ég tekið eftir því að það er miklu léttara að hjóla upp í Seljahverfi en það var áður.
Það er aldrei of seint að byrja en auðvitað verður fólk að finna hvatann hjá sjálfu sér, ég byrjaði í rælni útaf bloggfærslu. Þessi aðferð, að halda matardagbók og vera afar samviskusamur í mataræði, hentaði mér mjög vel og ég er viss um að hún hentar mörgum öðrum. Engar töfralausnir, ekkert sérstakt mataræði, bara hitaeiningar inn og hitaeiningar út. Þó ég hafi náð mínum markmiðum mun ég halda áfram að skrá. Mér finnst það lítið mál og er hræddur um að ég myndi þyngjast hægt og rólega ef ég yrði kærulaus. Það er óskaplega auðvelt að borða of mikið.
Endum þetta á sjálfsmyndum teknum með ársbili sem ég birti í bloggfærslu um daginn.
Matti - 03/07/15 20:22 #
Ég nefndi hér að ég væri orðinn áhugasamur um föt. Eitt af því sem ég gerði, þegar ég var kominn í nokkuð gott form, var að ég keypti mér afskaplega vönduð og fín jakkaföt frá JÖR. Ég er í þeim á þessari mynd.
Málið er svo að máta fötin reglulega. Þau skulu alltaf passa.
Garpur - 16/07/15 12:57 #
Flottur.