Dagbókarbrot
Dró hjólið loks fram og hjólaði í dag. Fór ekki langt, hjólaði heiman frá mér yfir í Safamýri þar sem hádegisboltinn fór fram. Þar elti ég tuðru í áttatíu mínútur eða svo og hjólaði svo aðeins lengri leið til baka (fótboltinn og heimleiðin eru á þessu korti.
Stoppaði á heimleiðinni og hvíldi mig á bekk við hjólastíginn fyrir neðan Fossvogskirkjugarð. Tók sjálfsmynd (eins og fólk gerir) og mundi að ég hafði tekið hjólasjálfsmynd fyrir ári. Vinstri myndin er tekin 28. júní í fyrra, sú hægri í dag.
Keyptum bökunarkartöflur sem eru komnar á grillið. Útaf verkfalli eru þetta fyrstu bökunarkartöflur sumarsins. Það finnst mér dálítið merkilegt.
Útskrifaðist með meistaragráðu í tölvunarfræði á laugardag. Mætti í athöfnina eins og hinir krakkarnir. Það var ágætt. Hélt svo örlítið teiti um kvöld. Það var líka ágætt. "Ágætt" er ágætis orð. Þessi námstörn síðustu ára er búin að vera mjög skemmtileg. Stundum dálítið strembin, enda tekin með vinnu, en alltaf fróðleg. Held ég segi þetta gott í bili að minnsta kosti.
Við erum í sumarfríi. Höfum ekki gert mikið; aðstoðað tengdaforeldra mína aðeins við að flytja, unnið í garðinum og eitthvað tekið til í bílskúr. Kíkjum eflaust í bústað en ekki ljóst hvort og hvenær við komumst.
Eftir sumarfrí fer ég svo á Eistnaflug ásamt tveimur vinnufélögum. Ég hlakka mikið til, held það verði afskaplega skemmtileg ferð. Keyrum úr bænum eftir vinnu á miðvikudeginum. Hef hlustað meira en vanalega á þungarokk síðustu daga og "uppgötvað" hljómsveitir sem verða fyrir austan. Kolli vinnu- og ferðafélagi tók saman Spotify playlista sem ég hef verið að hlusta á: (fimmtudagur, föstudagur, laugardagur).
Endum þetta á Vintage Caravan sem ég hlakka til að sjá á sviði.