90 dagar
Fyrir 90 dögum byrjaði ég í heilsuátaki. Það hafði lítinn fyrirvara, ég hafði verið í ræktinni mánuðina á undan, hreyfði mig sæmilega, spilaði fótbolta og hjólaði, en léttist ekki neitt, mér til mikillar armæðu. Ég styrkti mig vafalítið og formið hafði eitthvað batnað.
Í byrjun júlí las ég bloggfærslu Tryggva og ákvað að prófa myfitnesspal. Gyða hafði áður reynt að fá mig til að halda almennilega matardagbók en ég var tregur til, hafði einhverja fordóma og var latur.
Þessir 90 dagar hafa gengið svona.
Ég hef skráð þyngd dagsins samviskusamlega síðustu ár og oft hef haldið losaralega matardagbók í Google dagatalinu. Myfitnesspal virkar vel fyrir mig, mér finnst þetta skemmtilegt - skráningarnar og tölfræðin höfða til nördsins í mér. Ég nota appið, skrái allt sem ég borða og drekk, vigta oftast mjög samviskusamlega en stundum reyni ég að áætla rúmlega. Sleppi ekki beinlínis neinu í mataræði, hef leyft mér hressilega svindldaga, en langflesta daga hef ég verið afskaplega samviskusamur. Þess má geta að ég byrjaði á þessu rétt fyrir sumarfrí og bjórdrykkjan í bústaðnum í sumarfríinu var ekki nema brot af því sem annars hefði verið. Þegar ég "sukka" skrái ég allt.
Þegar maður byrjar að halda nákvæmt bókahald yfir mataræði uppgötvar maður fljótt hvar maður innbyrðir of margar hitaeiningar. Ég breytti litlu í byrjun, skráði bara. Eitt það fyrsta sem ég breytti var morgunmaturinn, ég hélt áfram að borða nákvæmlega sama mat en í stað þess að fylla skálina næstum því af Just right morgunkorni og hella svo létt AB mjólk yfir mældi ég morgunkornið samviskusamlega, nákvæmlega 40 grömm, og fyllti svo með létt AB mjólk. Þar fækkaði kaloríum um meira en 200 á dag. Undanfarið fæ ég mér svo oftast hafragraut með léttmjólk.
Þegar ég elda vigta ég allt hráefni og skrái uppskriftina í kerfið. Þetta er ósköp lítið mál, yfirleitt næ ég að klára bókhaldið áður en maturinn er tilbúinn og vigta skammtinn minn við matarborðið.
KFC er ekki lengur á dagskrá hjá mér, pítsa með pepperoni er ekki á matseðlinum og djúpsteiktar franskar ekki heldur. Grænmetið hefur fengið meira pláss á disknum. Ég hef dregið verulega úr brauðáti enda ansi mikið af hitaeiningum í brauði og auðvelt að borða mikið af því. Pasta er samt enn á matseðlinum og ég ríf slatta af parmesan yfir - en fæ mér bara einu sinni á diskinn.
Matarlystin hefur minnkað mjög mikið á þessu tímabili og í dag er ég saddur eftir miklu minni skammta en áður.
Hér er graf yfir hitaeiningar sem ég hef innbyrt síðustu 90 daga, rauða línan er við 1740 sem er viðmiðið í dag en sú tala miðar við að ég léttist um 800 grömm á viku. Ég er yfirleitt undir því. Þegar ég byrjaði var viðmiðið rúmlega 1900 kaloríur á dag.
Fyrsti dagurinn er ekki dæmigerður fyrir dagana á undan, við fengum okkur að borða á American Style og mig langaði að prófa 300gr hamborgarann þeirra, hann var ágætur en ég efast um að ég geti torgað honum í dag. 22. ágúst fórum við hjónin út að borða í tilefni brúðkaupsafmælis, sjö réttir með vínum.
Ég skrái nær alla hreyfingu, allar æfingar en líka göngutúra og "alvöru" vinnu eins og garðvinnu. Eitthvað af þessu er kannski ofáætlað, myfitnesspal er með frekar há viðmið í hreyfingu og ég hef reynt að skrá lægri tölu frekar en hærri. Ég miða yfirleitt við töluna sem æfingatæki gefa upp í ræktinni en þegar kemur að lyftingum skráir maður frekar lítið.
Langstærsta súlan á þessari mynd var dagur þar sem ég hjólaði í vinnu, spilaði fótbolta í hádeginu og hjólaði svo langa leið heim.
Framhaldið er meira af því sama, síðustu 90 daga hef ég misst 15 kíló - ég verð ósköp sáttur ef ég missi 10 næstu 90 daga. Ég ætla að halda áfram að æfa stíft, skrá allt sem ég borða og koma mér í almennilegt form.
Eitt af því sem ég gerði þegar ég byrjaði að léttast var að taka til hliðar föt sem ég passaði næstum í og máta reglulega. Það var einkar ánægjulegt að passa í þau og mjög fín mælistika með þyngdartölunni. Í dag á ég reyndar lítið af fötum sem ég passa ekki í.
Áhugasamir (forvitnir) geta skoðað allar skráningar hér:
Lalli - 01/10/14 22:26 #
Þetta er bara töff og til fyrirmyndar.
Teitur Atlason - 02/10/14 11:23 #
Flott hjá þér. Ég er í svipuðum pakka en skrái niður mánaðarlega þyndina. Mesti munurinn var að breyta mataræðinu. Ég tók út kjöt og þá einhvernvegin verður þetta ekkert mál. Ég borða sennilega mikið hollari mat en áður. Mesta furðan við þetta, var hversu auðvelt það er að skipta út heilum matarflokki. Ég byrjaði á svínaketi, tók svo út kjúkling og fyrir nokkrum mánuðum tók ég sva allt ket út. Ekkert mál.