Farlama
Á miðvikudag í síðustu viku meiddist ég á glænýjan hátt í hádegisboltanum. Í miðjum tíma fann ég skyndilega, án þess að nokkuð hefði gerst, fyrir verk í síðunni hægra megin. Verkurinn var mjög slæmur þegar ég skokkaði eða hljóp. Ég kláraði tímann en gat að sjálfsögðu ekki neitt.
Eftir boltann var ég slæmur og átti í erfiðleikum með að setjast í bílinn þegar ég fór heim úr vinnu. Þegar ég kom heim settist ég fyrir framan sjónvarpið en gat ekki staðið upp úr sófanum. Þurfti hjálp frá Gyðu til að komast á fætur. Fór á læknavaktina þar sem læknir potaði í mig og tók þvagsýni sem var tandurhreint og því ekki um neinar blæðingar að ræða. Heim fór ég og tók verkjatöflur.
Næstu dagar voru slæmir. Ég átti erfitt með að komast úr rúminu, gat ekki beygt mig og tekið hluti upp, fékk verki þegar ég hló, hóstaði og hnerraði. Það var verst að hnerra, alveg gríðarlega sárt, mér sortnaði fyrir augum. Hnerraði á leið í vinnuna en hélt sem betur fer stjórn á bílnum. Það var fáránlegt að hlæja, eitthvað öfugsnúið við það að hlæja með verkjum. Legg til að einhver rannsaki fyrirbærið.
Ég er allur að koma til. Finn ekki til lengur þegar ég sest í bílinn, get staðið upp úr sófanum, sótt hluti af gólfinu og finn næstum ekkert til þegar ég hlæ. Þori ekki að hnerra. Fór til heimilislæknis í gær til að vera viss og þetta er að öllum líkindum bara tognun í kviðvöðva. Rifbrot og kviðslit voru útilokuð.
Ég hvíli mig aðeins í fótboltanum, get vonandi hjólað aftur í næstu viku.
Óskaplega er ég miðaldra.
ArnarG - 15/08/13 11:09 #
Ég bið fyrir þér!