Örvitinn

Svarað með vísun

Vísanir eru kjarni veraldarvefsins. Án vísana er enginn vefur.

Vísanir tengja ekki bara skjöl heldur gera okkur kleyft að skrifa styttri texta. Í stað þess að endurtaka pælingar eða útskýra aukaefni í neðanmálsgrein getum við vísað lesendum áfram þegar þörf er á, ég þarf ekki að segja ykkur allt um Titanic þó ég nefni það til sögunnar.

Frekar en að skrifa sama svar trekk í trekk er hægt að gera það vandlega einu sinni og vísa á það þegar spurningin er borin fram enn eitt skiptið. Þetta sparar tíma og hefur einnig þann kost að umræður um tiltekið efni fara fram á viðeigandi stað.

Ef einhver spyr mig um Vantrú og Overton gluggann þarf ég ekki að skrifa ítarlegt svar, ég vísa einfaldlega á það sem ég hef þegar skrifað. Með því er ég ekki að koma mér hjá því að svara, ég er þvert á móti að nýta svar sem þegar hefur verið skrifað. Ef fólk hefur frekari spurningar um það efni er við hæfi að spyrja við þá grein.

Umræður eru sjaldan frumlegar. Það er jákvætt að geta vísað á það sem þegar hefur verið skrifað ef það svarar spurningunni.

Vissulega getur komið fyrir að sá sem spurði finnur ekki svar í því efni sem vísað var á. Mín reynsla er að oft er sá sem spurði ekki að leita eftir svari heldur að reyna að finna höggstað. Þá virkar illa að vísa á svar eða ítarefni því spyrjandinn hefur engan áhuga á svarinu í raun, mun jafnvel kvarta undan því að hafa ekki fengið svar, bara vísun. Hann mun ekki finna það sem hann vill ekki finna. Sama fólk sættir sig reyndar yfirleitt ekki heldur við ítarleg skrifleg svör af einhverjum ástæðum.

Kjarni málsins er þessi. Það er nákvæmlega ekkert að því að svara spurningu með vísun.

vefmál
Athugasemdir

Hjalti Rúnar Ómarsson - 01/06/12 15:56 #

Jamm, fólk sem er svona mikið á móti vísunum skilur einfaldlega ekki hvernig internetið virkar.

Svo er slappt hvað ýmsir fréttamiðlar eru lélegir að nota vísanir.

Matti - 03/06/12 10:35 #

Já, þetta er afar bagalegt með fréttamiðlana. Þegar sumir þeirra nota vísanir gera þeir það svo illa.

Ég skil ekki fólk sem eyðir miklum tíma á netinu en hefur engan á huga á að setja sig inn í þá menningu og þær hefðir sem þar gilda. Þetta er eins og að fara til útlanda en hegða sér alltaf eins og maður sé staddur á skerinu.

Hjalti Rúnar Ómarsson - 04/06/12 15:51 #

Fínt dæmi af mbl.is:

Haft er eftir Rose de Hepcé á fréttavefnum Thelocal.fr að hún hafi safnað upplýsingum um örlög föður síns....

Af hverju ekki að vísa bara á heimildina? :S

Ég skil ekki fólk sem eyðir miklum tíma á netinu en hefur engan á huga á að setja sig inn í þá menningu og þær hefðir sem þar gilda. Þetta er eins og að fara til útlanda en hegða sér alltaf eins og maður sé staddur á skerinu.

Ekki bara það, heldur hneykslast það svo á því að fólkið þarna tali ekki íslensku (svo ég noti tungumál sem dæmið). dæs

Matti - 08/06/12 21:12 #

Margar vefsíður klikka á miklivægu atriði. Hlekkir Þurfa að vera sjáanlegir. Hér vísar Smugan á bloggið mitt en það sér það enginn því það er engin leið að greina hlekki frá venjulegum texta nema með því að færa bendilinn yfir hlekkina. Í praxís afritaði Smugan því bloggfærsluna mína án vísana því fáir lesendur taka eftir vísunum og fjöldi heimsókna er í samræmi við það - sáralítill.