Öfug öfga-sönnunarbyrði
Er hugmyndin um að stjörnufeministar* vilji í raun öfuga sönnunarbyrði í nauðgunarmálum svipuð fullyrðingunni að stjörnutrúleysingjar vilji í raun afnema trúfrelsi?
Það skiptir litlu máli hve oft fólk í þessum hópum afneitar slíkum fullyrðingum.
Ég held það sé hægt að gagnrýna femínista sem tjá sig fyrir ýmislegt en öfuga sönnunarbyrðin er ekki á þeim lista vegna þess að þetta er svo mikill tittlingaskítur! Það er enginn að segja þetta í alvöru og þær tilvitnanir sem dregnar hafa verið fram eru ósköp skiljanlegar. Það að einhverjir andmæli fullyrðingunni, um að allir nema þeir sem dæmdir hafa verið fyrir nauðgun séu þar með saklausir um glæpinn, jafngildir ekki því að segja að dæma eigi þá sem sakaðir hafa verið um nauðgun án sannana. Þannig hef ég a.m.k. ekki getað skilið umræðuna og hef þó reynt að lesa flest af því sem vísað hefur verið á.
Auðvitað "má ræða þetta" en það er grundvallaratriði í samræðum að stilla fólki ekki upp við vegg og neyða til að verja skoðanir sem það hefur ekki. Það á að duga að fólk sverji af sér þær skoðanir. Þar á umræðan um það atriði að stoppa og fara yfir í eitthvað annað. N.b. hér er ég ekki að segja að umræða um öfuga sönnunarbyrði eigi að stoppa, heldur umræðan um það hvort hópur feminista vilji öfuga sönnunarbyrði í einhverjum málum.
Ég get andmælt trúboði í skólum og sambandi ríkis og kirkju án þess að vilja banna fólki að trúa. Ég get haldið því fram að kristin trú sé hindurvitni án þess að telja að kristnir séu hálfvitar. Einhverjir geta verið þeirra skoðunar að miklu fleiri en þeir sem dæmdir eru sekir um nauðgun séu sekir um að hafa nauðgað, án þess að vilja snúa við sönnunarbyrði í slíkum málum.
Ef þróunin er sú að fólk sem er ásakað um glæpi þurfi að sanna að það hafi ekki framið þá erum við komin út afar hættulega braut og það má og á að ræða. Ég er sjálfur algjörlega á móti því að sönnunarbyrði sé minnkuð í sakamálum, tel að ákæruvaldið þurfi alltaf að sýna fram á að hinn ákærði sé sekur um glæpinn. Er það virkilega þróunin að sönnunarbyrði sé að minnka? Er meiri hætta á að öfug sönnunarbyrði verði tekin upp í kynferðisbrotamálum en öðrum?
Vangaveltur út frá umræðum um pistil Evu, frekar en pistilinum sjálum. Greinin er umhugsunarverð og umræður ágætar.
* Öfgafeminsti og öfgatrúleysingi eru galin hugtök, fyrst og fremst notuð um fólk sem tjáir sig opinberlega um þessi málefni. Lögmenn sem tjá sig opinberlega eru stjörnulögmenn. Sá hugtökunum víxlað á Facebook.
Erna Magnúsdóttir - 11/03/12 13:36 #
Vel mælt Matti.
Ég held ekki að það sé verið að reyna að þrýsta á að minnka sönnunarbyrði í kynferðisbrotamálum. En það má breyta lagarammanum til dæmis þannig að það sé ekki þolanda í óhag að hafa ekki barist á móti, þar sem það er viðurkennt að algengustu viðbrögð við kynferðisofbeldi eru að frjósa. Það eru ýmsir vankantar á löggjöfinni eins og þessir, því að þeir sem sömdu hana höfðu ekki næga þekkingu á málaflokknum, og svo hefur þekking okkar aukist.
Þetta eru baráttumálin frekar en nokkurn tíman að ætla að snúa við sönnunarbyrðinni.
Einar - 11/03/12 14:05 #
Góð grein og er ég henni sammála.
Athyglisvert er að skoða tölur fórnarlamba kynferðisofbeldis sem leita sér aðstoðar og síðan fjölda þeirra sem dæmdir eru fyrir nauðganir og annað kynferðisofbeldi.
Þær tölur eru ekki í neinu samræmi.
Það þarf að gera eitthvað rótækt í því að breyta þessu hjá dómstólum. Saksóknarar sækja ekki mál vegna þess hve erfitt er að fá mennina dæmda. Orð fórnarlambsins eru bara ekki nóg. Eins ömurlegt og það er .... að þá er það staðreynd.Kveðja
Halla Sverrisdóttir - 11/03/12 19:22 #
Takk, takk, þetta er prýðileg samlíking hjá þér og gott innlegg í svolítið annarlega umræðu um vandamál sem er alls ekki til staðar. Þetta er einmitt nákvæmlega tilfinningin sem ég fæ svo oft þegar ég les greinar eða umræðu eða tek þátt í samræðum um trúleysi, einkum í tengslum við bann við trúboði í skólum. Að það sé allt í einu, fyrirvaralaust og af engri sjáanlegri ástæðu komin upp einhver krafa um bann við hinu og þessu, kúgun á hinu og þessu, afnámi þessa og hins - vegna þess að maður er sammála breytingum á einu tilteknu sviði trúariðkunar eins og hún hefur viðgengist í krafti hefðarinnar einnar áratugum saman. Þetta er afskaplega áþekkt vandanum sem femínistar lenda oft í - t.d. var haldið málþing um hugsanleg áhrif nýrrar gerðar Legókubba á börn og atferlismótun þeirra og kviss, bang! kommentakerfið á DV fylltist af fólki sem var einhvern veginn sannfært um að nú vildu femínistar banna Legó.
Semsagt: gott innlegg, takk fyrir það.
Matti - 15/03/12 12:50 #
Eva hefur skrifað fleiri pistla um efnið, sá nýjasti heitir Gefum nauðgaranum rödd.