Kúgaðir karlar
Einhverjir karlar eru ósáttir við herferð VR þar sem fyrirtæki eru hvött til að veita konum 10% afslátt í nokkra daga til að vekja athygli á launamun kynjanna. Starfsmaður Hagkaups á Akureyri er búinn að kæra athæfið til kærunefndar jafnréttismála.
Hvernig fara karlar að því að láta eins og á sér sé brotið, eins og þeir séu kúgaðir?
Er ekki nær að nýta þetta tækifæri til að setja sig í spor kvenna og finna til samkenndar með þeim fyrir að fá í að meðaltali 10% lægri laun en karlar sem vinna sambærileg störf. Sjálfum finnst mér það miklu verra og kippi mér nákvæmlega ekkert upp við það þó athygli sé vakin á málinu með þessum hætti.
Mér finnst miklu áhugaverðari umræða að velta fyrir sér hve nákvæm gögn eru um þennan óútskýrða launamun kynjanna. Ég hlýt að treysta verkalýðsfélögum til að stunda áreiðanlegar rannsóknir en það geta allir klikkað á tölfræði eins og dæmin sýna. Það eru ekki nýjar fréttir að konur fái lægri laun en karlar að jafnaði, það væru nýjar og merkilegar fréttir ef sá launamunur væri úr sögunni.
En ég er náttúrulega bara kúgaður karl sem bý með fjórum konum. Ég er því bullandi vanhæfur til að fjalla um þetta mál.
Reynir - 21/09/11 16:21 #
Herferðin er til að vekja athygli á launamun kynjanna. Erindið til Kærunefndar jafnréttisráðs eykur vonandi athyglina og umræðuna.
Hildur Lilliendahl - 21/09/11 16:25 #
Ég verð ekki vör við að það séu karlar fremur en konur sem láta uppátækið fara í taugarnar á sér. Mér heyrast konur vera helvíti reiðar yfir því að VR noti ekki orkuna sína og auglýsingapeninga í að jafna kjörin frekar en að láta fyrirtæki pikka vandamálið upp og reyna að mæta því þar.
Matti - 21/09/11 16:28 #
Ég hef eiginlega bara orðið var við pirring hjá körlum en játa að ég hef ekki verið að elta umræðuna (hef ekkert kíkt á barnaland).
Er þetta ekki það sem VR getur gert til að jafna kjörin? Hvað annað ætti félagið að gera? Ég spyr vegna þess að ég vil heyra hugmyndir, ekki vegna þess að ég telji að það sé ekki hægt að gera nokkuð annað.
Eva - 21/09/11 16:41 #
Ég sé margt athugavert við þetta "framtak VR".
Í fyrsta lagi þá þurfa þessi andskotans stéttarfélög að fara að átta sig á hlutverki sínu. Það er ekki boðlegt að rukka fólk um félagsgjöld og nota þau svo til að búa til auglýsingar um að fólk megi semja um launin sín. Ef ég borga í stéttarfélag þá ætlast ég til þess að félagið sjái um að semja um sanngjörn laun. Það sama á við um launajafnrétti sbr. það sem Hildur Lilliendahl segir hér að ofan og þessa ömurlegu auglýsingu þar sem látið er að því liggja að launamunurinn sé illum álögum að kenna en ekki sofandahætti VR.
Í öðru lagi, ef vandamálið er það að konum séu greidd lægri laun en körlum fyrir sambærilegt starf, þá lagar það ekki neitt að gefa hálaunakonu 10% afslátt og láta einstæðan föður á skítalaunum borga fullt verð og sennilega taka á sig kostnaðinn við kvennaafsláttinn að auki.
Í þriðja lagi þá þekkist það fyrirkomulag að karl og kona búi saman og deili kostnaði við heimilisrekstur. Ef annað þeirra fær afslátt í búðum en hitt ekki, er rökrétt að það sem fær afsláttinn taki að sér að sjá um innkaup. Ég efast um að það sé góð hugmynd að stéttarfélög taki að sér að stýra verkaskiptingu á heimilum og búa til eða staðfesta ákveðin kynhlutverk.
Matti - 21/09/11 16:44 #
Ef ég borga í stéttarfélag þá ætlast ég til þess að félagið sjái um að semja um sanngjörn laun.
Stéttarfélög semja náttúrulega alltaf um lágmarkslaun. Annað er eftir launþegum komið.
Auðvitað lagar þessi 10% afsláttur ekki neitt, enda held ég að það sé varla hugmyndin.
Góður punktur með að þetta valdi því að konan sé send í búðina. Ég verslaði í matinn í gærkvöldi :-)
Daníel - 21/09/11 17:57 #
Það er náttúrulega ódýr lausn á launamun kynjana að gefa bara konum afslátt í búðum. Í mörgum stéttum, t.d. hjá hinu opinbera er ekki kynbundinn launamunur. Við vitum líka að neytendur enda svo alltaf á að borga þessa afslætti. Af hverju ætti opinberi starfsmaðurinn ég að borga niður afslátt fyrir konuna á næstu skrifstofu sem er á nákvæmlega sömu launum og ég? Þú leiðréttir ekki óréttlæti með meira óréttlæti, eða hvað? Mér sýnist þetta vera auglýsingatrikk sem átti að bæta ímyndina en hefur snúist við í spurninguna: Af hverju gerið þið þá ekkert í að jafna kynbundna launamuninn, vitleysingarnir ykkar?
Matti - 21/09/11 18:06 #
Það er náttúrulega ódýr lausn á launamun kynjana að gefa bara konum afslátt í búðum.
Enda held ég varla að það eigi að vera lausn á því.
Af hverju gerið þið þá ekkert í að jafna kynbundna launamuninn, vitleysingarnir ykkar?
Geta verkalýðsfélög gert eitthvað í því, annað en að reyna að vekja fólk til vitundar? Verkalýðsfélög gera kjarasamninga en fólki er frjálst að semja um hærri laun.
Er enginn kynbundinn launamunur hjá hinu opinbera?
Eva - 22/09/11 01:05 #
Matti það er út af fyrir sig ágætt að þú sjáir um matarinnkaup heima hjá þér og þar sem þetta er ekki varanlegt fyrirkomulag skiptir þetta litlu máli. Margar fjölskyldur versla þó alltaf þar sem verðið er lægst og ef það gæti sparað ykkur 10% í matarinnkaupum ef Gyða sæi bara um þau þá er ólíklegt að þið mynduð ekki hugleiða þann möguleika.
Stóra málið er samt náttúrulega það að óháð því hvort karlar telja á sér brotið eður ei, þá er mismunun á grundvelli kynferðis ekki varla góð aðferð til að sporna gegn mismunun á grundvelli kynferðis.
Matti - 22/09/11 08:42 #
Ég hélt það hefði verið ljóst að ég nefndi það í glettni að ég hefði verslað í fyrrakvöld.
Fólk sem verslar þar sem það er hagstæðast verslar ekki í Hagkaup þó það sé 10% afsláttur í boði, það fer í Bónus eða aðra lágvöruverslun.
Ég sé ekki betur en að afslátturinn í Hagkaup hafi staðið til boða í einn dag.
mismunun á grundvelli kynferðis ekki varla góð aðferð til að sporna gegn mismunun á grundvelli kynferðis.
Nei, en það getur hugsanlega verið afskaplega góð leið til að vekja fólk til vitundar um það. Ég vona a.m.k. að þeir karlmenn sem fengu sting fyrir hjartað útaf þessu máli reyni að heimfæra þá tilfinningu yfir á launamun kynjanna.
Annað var það nú ekki sem ég vildi segja í þessu máli.
Daníel - 22/09/11 09:20 #
Ég sagði náttúrulega: "Í mörgum stéttum, t.d. hjá hinu opinbera er ekki kynbundinn launamunur." Þetta er e.t.v. ekki nógu skýrt orðað en ég átti við í mörgum stéttum hjá hinu opinbera, ekki í öllum stéttum hjá hinu opinbera. Hjá kennurum er t.d. aldurstengdur launamunur og þar sem meðalaldur karla er hærri en kvenna í stéttinni (gengur eitthvað illa að fá unga karla inn) þá eru meðallaun þeirra hærri. Það er samt ekki kynbundinn launamunur.
Ég er verkefnisstjóri í háskóla og starfssystur mínar í sömu stöðu og með sambærilega menntun eru á nákvæmlega sömu launum.
Ég tek sem sagt ekki fyrir að það sé kynbundinn launamunur í einhverjum opinberum stéttum en það er undantekningin frekar en reglan.
Það er líka rétt að þetta hefur líklega ekki átt að vera lausn á vandanum en þetta lyktar svolítið af því að góðviljaðir en skilningslausir karlar hafi setið saman við borð og hugsað um það hvernig þeir gætu nú verið góðir við greyið konurnar. Vissulega vilji fyrir hendi en skilningsleysið á vandanum algert. Svolítið eins og að rétta manni með húðsjúkdóm meikdollu.
Þeir sem vinna af alvöru í svona málum hafa bent á margar leiðir í átt að lausn, s.s. virkt eftirlit og ákvæði um kynjahlutfall í stjórnum fyrirtækja.
Ég er ekki sérfræðingur á þessu sviði en einföld leit í Google scholar á "solving gender based discrimination in salaries" gaf 18.200 niðurstöður http://scholar.google.co.uk/scholar?q=solving+gender+based+discrimination+in+salaries&hl=en&btnG=Search&as_sdt=1%2C5&as_sdtp=on
Ég afsaka að ég gaf mér ekki tíma til að lesa í gegnum þær allar.
Ég vil líka vekja athygli þína á því að opinberir starfsmenn geta ekki samið á einstaklingsbasís um hærri laun. Þeir fá greitt skv. samningum og ekki krónu umfram það.
Afsaka að ég kann ekki html-tagið til að fá slóðina til að virka.
Matti - 22/09/11 09:26 #
...opinberir starfsmenn geta ekki samið á einstaklingsbasís um hærri laun. Þeir fá greitt skv. samningum og ekki krónu umfram það.
Sumir opinberir starfsmenn gátu samið um óunna yfirvinnu og bílastyrk, svo dæmi sé tekið. Eftir hrun hefur þó verið skorið ansi mikið á allt slíkt.
Hér eru niðurstöður launakönnunar SFR. Ef ég skil þetta rétt, þá eru einhverjir opinberir starfsmenn í SFR, aðallega ófaglærðir.
Þegar tekið hefur verið tillit til aldurs, vinnutíma, starfsaldurs, starfsstéttar, menntunar og vaktaálags stendur eftir 13,2% óútskýrður kynbundinn launamunur (vikmörk +/- 3,9%). Í fyrra mældist kynbundni launamunurinn 9,9% og árið 2009 var hann 11,8%
Hildur - 22/09/11 12:03 #
Auðvitað semja opinberir starfsmenn um laun. Þau felast bara í sporslum fremur en föstum mánaðarlaunum. Opinberir starfsmenn fá í gríðarlega mörgum tilfellum greidda óunna yfirvinnu sem er samið um prívat og persónulega inni á kontór hjá yfirmanni.
Hins vegar er það alveg rétt hjá Daníel að þetta lyktar af því að nokkrir kallar komi saman og reyni að finna leið til að gera konurnar glaðar. Tilfellið er að konur vilja laun en ekki afslátt.
Sigurlaug Hauksdóttir - 22/09/11 13:08 #
Fyrirgefið... en mér finnast svona "aðgerðir" fáránlegar. Ekkert nema "pöblissití stönt" Að fyrirtæki sem komast upp með að greiða konum 10% lægri laun en körlum geti slegið sjálf sig til riddara með að bjóða konum 10% "ölmusu" í alveg bara heila viku, er arfavitlaust.
Ég vil vera metin að jöfnu.. punktur.
Kristinn - 22/09/11 14:26 #
Það er ánægjulegt að sjá hvað mörgum konum virðist þykja þetta ódýrt hjá VR. Það er auðvitað mjög tvísýn hugmynd að leiðrétta mismunun með meiri mismunun, hvort sem hún er kölluð jákvæð mismunun eða eitthvað annað.
Á hinn boginn er bara verið að vekja athygli á mismununinni, en ekki verið að leggja þessa aðferð til sem varanlega leiðréttingu á henni, svo ég viti. Ég sé ekkert að því að það sé gert, enda tókst í raun nokkuð vel til þar sem mikil umræða hefur skapast.
Kristinn - 22/09/11 17:04 #
Þú varst eitthvað að spá í áreiðanleika tölfræðinnar. Um hana hefur mikið verið deilt erlendis og margir fjallað um að launamismununin sé raunverulega lítil sem engin, hér er t.d. umræða: http://www.bnet.com/blog/ceo/the-gender-pay-gap-is-a-complete-myth/6928
Hafi menn ofurtrú á markaðslögmálunum, sem ég hef ekki, þá geta þeir varla trúað öðru en að launamunurinn eigi sér "eðlilegar" skýringar.
Umræða um áreiðanleika svona uppplýsinga fer þó gjarnan í hund og kött...
Einar Jón - 26/09/11 09:24 #
Ég hef tekið eftir því í gegnum tíðina að konur eru almennt ekki eins frekar og karlar - það er hellingur af könnunum sem sýnir að ef konur og karlar eru fengin til að meta "eðlileg laun fyrir ákveðna vinnu" er upphæðin sem konurnar gefa upp lægri en hjá körlunum.
Væri ekki eðlilegt ef VR myndi gefa út markaðslaunatöflu (eins og sum stéttarfélög hafa gert árum saman)? Svo mætti beina þeim tilmælum til þeirra sem hafa lægri laun en það að heimta launavital - sem flestir eiga jú rétt á a.m.k. einu sinni á ári