Klassísk frekja
Ummælin sem ég skoða í þetta skipti voru höfð um Bjarna Randver kennara við guðfræðideild Háskóla Íslands.
"Fræðimaðurinn" vitnar í skrif mín í greinargerð sinni.
Neðanmálsgrein 385 vísar í bloggfærsluna Virðing og hulin trúartákn frá nóvember 2009. Ég treysti því að þið skoðið færsluna og athugasemdir, þetta er ekki mikið lesefni. Þar sjáið þið að í athugasemd skrifa ég:
Ég held nefnilega að í rauninni sé þetta bara klassísk frekja í Bjarna og fleiri trúmönnum. Þeir vilja ekki deila dótinu sínu með öðrum.
Í greininni á Vantrú sem ég vísa á í athugasemd minni fjallaði ég um prest sem vildi ekki deila húsnæði með öðrum í Mosfellsbæ, þar sem voru uppi hugmyndir um að byggja eitt hús fyrir kirkju og menningarhús.
Klassísk frekja Bjarna Randvers var alls ekki sú að "fagna því að múslimar fái að biðja bænir í háskólakapellunni að því tilskyldu að þeir auðsýni helgihaldinu þar virðingu" heldur sú krafa Bjarna Randvers í næstu orðum þar á eftir að múslimarnir "hylji ekki trúartákn á borð við krossa". Ég vitnaði í þennan hluta í bloggfærslunni og fjallaði sérstaklega um hann. Bloggfærslan er í raun ekkert annað en pælingar um það af hverju ekki megi hylja trúartákn og hvernig hægt sé að telja slíkt vera óvirðingu. Það verður einnig að taka inn í myndina að skömmu áður hafði Siðmennt haldið borgaralega athöfn í Fríkirkjunni í Reykjavík og hulið trúartákn með fullu samþykki staðahaldara. Samt fór það fyrir brjóstið á ýmsum trúmönnum sem ekkert höfðu með málið að gera.
Þannig er eðlilegt að ætlast sé til að þeir múslimar sem kjósi að biðja til Guðs í kristinni kapellu auðsýni helgihaldinu þar tilhlýðilega virðingu og hylji t.d. ekki trúartákn á borð við krossa (feitletrun mín - MÁ)
Í bloggfærslunni skrifaði ég:
Nú spyr ég eins og örviti. Hvernig í ósköpunum getur það verið óvirðing við helgihald kristinna þó einhver hylji trúartákn eins og kross meðan hann notar herbergið?
Það er því afskaplega undarlegt hjá "fræðimanninum" að vitna einungis í fyrri hluta setningar Bjarna Randvers en ekki alla málsgreinina og það er afskaplega villandi að gefa í skyn að ég hafi kallað það klassískja frekju að því sé fagnað að múslimar fái að biðja bænir í háskólakapellunni ef þeir bara sýna helgihaldinu virðingu. Reyndar er þetta afskaplega algengt hjá "fræðimanninum" og var meðal annars tilefni til þess að Vantrú sendi erindi til Siðanefndar Háskóla Íslands til að kvarta undan vinnubrögðum, þar sem hann stundaði það meðal annars ítrekað að klippa setningar í sundur á vafasaman hátt.
Vinnubrögð "fræðimannsin" eru sérstaklega undarleg í þessu tilviki þar sem hann ætti að þekkja skrif Bjarna Randvers vel. Það er því furðulegt að hann klippi skrif Bjarna Randvers úr samhengi til að láta mig líta illa út. A.m.k. getur það tæplega talist afar vandað og staðist akademískar kröfur.
Reynir - 08/07/11 10:36 #
Þetta er "klassískur Bjarni Randver", hreinræktuð rangfærsla - brunnmiga. Óheiðarleiki virðist vera aðall margra "guðfræðinga".
Ásgeir - 08/07/11 11:23 #
Þetta er ekki villandi. Þetta er lygi.
Hafþór Örn - 08/07/11 12:17 #
Þetta er bara í nákvæmlega sama stíl og glærusýningin. Þessir sem sögðu greinargerðina afar vandaða og að hún standist akademískar kröfur ættu nú að athuga sinn gang, spurning hvort þeir hafi lesið greinargerðina.
Hvaða fólk var þetta?
Svavar Kjarrval - 08/07/11 13:04 #
Ég reyndi að skilja í hverju misskilningur Bjarna Randvers fólst en bara tókst það alls ekki. Og ég sem les hluti oft bókstaflega þegar það á ekki við.
Svavar Kjarrval - 11/07/11 18:35 #
Jámm, og ég sem reyndi að finna út hvernig honum ætti að hafa tekist það.
Matti - 11/07/11 18:38 #
Það er ljóst af því hvernig hann klippir ummæli sín í sundur að hann er viljandi að skrumskæla skrif mín.