Örvitinn

Fóstureyðingatölfræði Fréttablaðsins

Í Fréttablaði helgarinnar er lítil frétt um fóstureyðingar á blaðsíðu sex.

Næstum fimmta hverju fóstri á Íslandi er eytt, samkvæmt tölum sem birtust í Talnabrunni Landlæknis í gær. Samanborið við Norðurlönd eru fóstureyðingar þó tiltölulega fáar.

Tölurnar byggja á gögnum frá 2009. Það ár voru tæplega 81 þúsund fóstureyðingar gerðar á Norðurlöndum. Hlutfallslega flestar í Svíþjóð, eða 335 á hverja 1000 lifandi fædda, en fæstar í Finnlandi. Á Íslandi voru gerðar 193 fóstureyðingar á móti hverjum 1000 sem fæddust lifandi.

Ég vona að flestir sjái að hér hafa blaðamenn Fréttablaðsins klúðrað málum því tölurnar sem þeir vitna í benda ekki til þess að næstum fimmta hverju fóstri sé eytt heldur tæplega sjötta hverju. Það að 193 fóstri sé eytt á móti 1000 sem fæddust þýðir að um er að ræða 1193 fóstur en ekki þúsund. Af þeim er 193 eytt. Ef um væri að ræða 193 af hverjum þúsund fóstrum væri fullyrðing Fréttablaðsins rétt.

Hér er Talnabrunnur Landlæknis sem vitnað er til. Þar kemur hvergi fram að nær fimmta hverju fóstri sé eytt.

Skiptir þetta einhverju máli?

Já, umræðan um fóstureyðingar er eldfim og það skiptir máli að fara rétt með staðreyndir. Staðreyndin er að fóstureyðingum hefur fækkað á Íslandi eins og bent er á í Talnagrunni. Það er líka töluverður munur á fimmtung og einum sjötta þegar úrtakið er stórt (allar þunganir).

Sé tekið mið af 1.000 lifandi fæddum þá hefur fóstureyðingum fækkað nokkuð á Íslandi undanfarinn áratug, úr 228 árið 1999 í ríflega 193 árið 200

Í Talnagrunni er einnig komið inn á hlutfall kvenna sem farið hafa í fóstureyðingu og þar er tekið hlutfall af hverjum þúsund.

Fóstureyðingar miðað 1.000 konur á aldrinum 15–49 ára voru fæstar í Finnlandi (8,9) árið 2009 en flestar í Svíþjóð (17,8). Tölurnar fyrir Noreg eru hins vegar nálægt hinu norræna meðaltali (14,1) en aðeins lægri fyrir Danmörku (12,9) og Ísland (12,4).

Þannig að um 1.24% kvenna á aldrinum 15-49 ára fóru í fóstureyðingu. Miðað við að árið 2009 voru rétt rúmlega fimm þúsund lifandi fæddir á Íslandi eru þetta um 970 fóstureyðingar. Konur á þessum aldri voru 78.540 það ár, en 1.24% af því er einmitt.... 973.

fjölmiðlar
Athugasemdir

Erna Magnúsdóttir - 01/05/11 19:09 #

Það er heldur ekki rétt að fimmta hverja BARNI sé eytt.. Þetta eru FÓSTUReyðingar ekki BARNAeyðingar.

Svo má líka fara í hártoganir og benda á að eitthvað er um fóstulát líka þannig að það eflaust minna en einn sjötti þungana sem enda í fóstureyðingum.

Takk fyrir að benda á þetta.. mér leið í nokkrar mínútur eins og ég væri komin aftur til BNA þegar ég sá þessa útleggingu á málunum. Sá reyndar tölurnar á heimasíðu Landlæknis í gær og það sló mig hvað það er mikill munur á milli tíðni fóstureyðinga á Norðurlöndum...

Matti - 01/05/11 19:20 #

Ég ætlaði einmitt að nefna fósturlát líka.

Erna Magnúsdóttir - 01/05/11 19:38 #

Sjitt maður.. ég er hérna í kasti yfir engu! Ég sver það ég hélt að Fréttablaðið hafi talað um að börnum væri eytt... Og hvatvísin tók við... sorrý!

Matti - 01/05/11 21:42 #

Hehe, ég kannaðist ekki alveg við þetta og ætlaði að lesa fréttir betur þegar ég kæmist aftur í tölvu :-) Hélt þú hefðir bara séð aðrar fréttir en ég.

En þett er líka ágætur punktur með fósturlát. Auðvitað ætti að spá í hversu margar þunganir enda með fóstureyðingu. Ég hef heyrt að allt að 20% þungana endi með fósturláti.

Ómar Harðarson - 01/05/11 21:56 #

Svo má nefna andvana fædd börn líka (að vísu ekki mörg), þannig að enn minnkar hlutur fóstureyðinga af öllum fóstrum. Vandinn er náttúrlega að fjöldi fóstra er algerlega óþekktur og því til lítils að reikna þetta hlutfall.

Einar Jón - 07/05/11 10:57 #

Ég var einmitt að spá í þessu líka. Fósturlát eru víst 10%-20%, eða 111-250 fyrir hver 1000 fædd börn - svipuð stærðargráða og fóstureyðingar...

http://www.visindavefur.is/svar.php?id=6299