Örvitinn

Örviti dagsins

Þegar örvitinn kom heim eftir að hafa skutlað unglingnum í frönskupróf í MR var hann búinn að gleyma númerinu á öryggiskerfinu í Bakkaseli. Opnaði hurðina, hlustaði á pípið, horfði á talnaborðið og reyndi að rifja upp númerið en mundi ekki rununa. N.b. númer sem örvitinn valdi á sínum tíma.

Um leið og kerfið byrjaði að væla sló ég inn rétt númer. Hálfri mínútu síðar hringdi starfsmaður Securitas og fékk leyniorðið uppgefið. Ég var ekki búinn að gleyma því.

Ætli ég sé nokkuð að lesa yfir mig?

dagbók
Athugasemdir

Haukur - 08/12/10 23:15 #

Stundum bilar maður bara - kannski tengist það því hvað manneskjan geymir upplýsingar á fjölbreytilegan hátt (vöðvaminni, sjónminni o.s.frv.). Einn daginn mundi ég engan veginn öryggisnúmerið mitt í vinnunni, númer sem ég hafði stimplað inn nokkrum sinnum á dag á hverjum degi mánuðum saman. Ég var ekki á neinn hátt illa fyrir kallaður, veikur, þreyttur, stressaður né neitt slíkt.

Núna þegar ég hugsa um þetta númer man ég það ekki (ég hætti störfum á þessum stað fyrir 18 mánuðum) en þegar ég hugsa mér að ég standi fyrir framan dyrnar finn ég að hægri höndin mín vill gera ákveðna hreyfingarunu. Mér sýnist af því sem höndina rámar í að númerið hafi byrjað á 17.