Örvitinn

Besti flokkurinn stjórnar

Mér þótti Einar Örn sykurmoli Besta flokksins frekar hrokafullur í útvarpinu í morgun þegar rætt var við hann um laun varaborgarfulltrúa rétt eftir átta. Ég get skilið að það sé pirrandi að fást við það sem manni finnst einhliða umfjöllun fjölmiðla en Einar Örn er fulltrúi almennings í borgarstjórn Reykjavíkur og mætti hafa það í huga. Nema markmiðið hjá honum sé að vera eins og hver annar stjórnmálamaður.

Svo eru víst 200 manns á biðlista eftir að tala við borgarstjóra og enginn fær að vita hvenær hann kemst að. Borgarstjórinn er (skiljanlega) upptekinn við ýmislegt annað en að ræða við borgarbúa.

Æi, ég vona að þetta gangi vel. Við megum ekki við því að stjórn borgarinnar verði eitthvað klúður. Það þarf að gera eitthvað meira en að mála Hverfisgötuna græna eða bjóða góðan daginn. Þau ráða og þurfa að sætta sig við að um verk þeirra sé fjallað.

pólitík
Athugasemdir

Daði - 21/09/10 19:03 #

fyrst brá mér við að hlusta á Einar í morgun...

..svo fannst mér þetta helv. gott hjá honum...

leiðinleg árátta að flytja endalaust einhliða fréttir...

Matti - 21/09/10 19:15 #

Það er rétt, ég hef nú tuðað töluvert um þessa áráttu fjölmiðla á Íslandi.

Aftur á móti getur Besti flokkurinn tæplega kvartað undan því hvernig fjölmiðlar hafa fjallað um hann hingað til.

Freyr - 21/09/10 20:56 #

Hvernig í andskotanum var þetta einhliða fréttamennska? Staðreyndin er sú að það er ekkert annað en orðhengilsháttur í besta falli og í versta falli lygi að það sé ekki verið að hækka laun varaborgarfulltrúa.

Það var tekin ákvörðun um að skera fastar greiðslur til fyrstu varaborgarfulltrúa niður og að þeir fengju í staðinn eingöngu greitt fyrir sína nefndarsetu. Nú er ákveðið að þeir fái 70 prósent af launum borgarfulltrúa eins og var áður en skorið var niður. Hvað er það annað en launahækkun?

Einar Örn var eins og fífl þarna í morgun. Maður getur verið sammála eða ósammála gjörningnum, þ.e. launahækkuninni (því það er það sem þetta er) en að ljúga því að það sé ekki verið að hækka laun þeirra er siðleysi og heimska.

Matti - 21/09/10 21:32 #

Já, eða það. Einari tókst nú að flækja málið dálítið í þessu viðtali - eflaust margir sem hafa trúað honum þegar hann þvertók ítrekað að þetta væri ekki hækkun.

Margrét - 21/09/10 21:45 #

Mér fannst Einar Örn góður í morgun þegar hann tók ráðin af útvarpsmanninum og benti á lélega fréttamennsku og einhliða. Þetta með hækkun-ekki hækkun er náttúrulega hvaðan horft er á málið. Fólk á náttúrulega að fá greitt fyrir vinnu sína eða hvað?

Freyr - 21/09/10 23:02 #

Þetta snýst andskotann ekkert um það, Margrét, að fólk eigi að fá borgað fyrir vinnuna sína (fyrir utan að þau fengu borgað, bara ekki svona mikið).

Þetta snýst um að það er bara útúrsnúningur og þvættingur að þetta sé ekki launahækkun því það er það sannarlega og ekkert annað. Hvaðan horft er á málið? Ef ég fæ allt í einu 285.000 kall (eða hvað þetta er) í viðbót við það sem ég hef fengið greitt fram að þessu hvað er það þá? Launalækkun?

Þetta bull um að þetta sé eða hafi verið einhliða fréttamennska er strámaður sem að Einari tókst að planta í lokin á viðtalinu og svo lepur fólk þetta upp eftir honum. Rugl sem þetta er.