Pastavitleysa
Síðast þegar ég gerði ferskt pasta (eftir langt hlé) lenti ég í vandræðum með deigið. Þegar ég tók það úr matvinnsluvélinni var það of þurrt þrátt fyrir að ég hefði notað einu eggi meira en stóð í uppskriftinni. Ég þurfti því að bæta vatni við til að geta hnoðað, samt var það aldrei almennilega meðfærilegt. Ég bar svo saman við aðrar uppskriftir og var steinhissa á því hvað það var lítið af eggjum í uppskriftinni í La primavera bókinni.
Þegar ég kíkti í sömu bók í morgun tók ég eftir því að það átti ekki að nota tvö egg heldur fimm. Þetta gekk líka dálítið betur í þetta skipti og deigið var mjúkt og meðfærilegt.