Örvitinn

Virðing og hulin trúartákn

Kross í SeljakirkjuBjarni Randver skrifar um kapelluna í Háskóla Íslands og múslima. Ekki er hægt að gera athugasemdir við efni pistilsins þannig að ég geri það hér. Bjarni skrifar:

Auðvitað skiptir máli hvernig staðið er að þvertrúarlegum samskiptum og athöfnum og þarf m.a. að gæta þess að helgihaldi allra hlutaðeigandi sé auðsýnd gagnkvæm virðing. Þannig er eðlilegt að ætlast sé til að þeir múslimar sem kjósi að biðja til Guðs í kristinni kapellu auðsýni helgihaldinu þar tilhlýðilega virðingu og hylji t.d. ekki trúartákn á borð við krossa.

Þarna er Bjarni eflaust að vísa til þess þegar Siðmennt framkvæmdi borgaralega giftinu í Fríkirkjunni. Það fór fyrir brjóstið á mörgum trúmönnum sem kom málið ekkert við, forsvarsmenn og meðlimir Fríkirkjunnar voru fullkomlega sáttir við hvernig athöfnin fór fram að því ég best veit.

Nú spyr ég eins og örviti. Hvernig í ósköpunum getur það verið óvirðing við helgihald kristinna þó einhver hylji trúartákn eins og kross meðan hann notar herbergið?

Í alvöru talað, ég botna ekkert í svona tali. Hvaða máli getur það skipt Bjarna og annað kirkjufólk þó einhver sem notar salinn hylji helgimunina svo lengi sem hann skemmir þá ekki og skilar salnum jafn góðum og hann var fyrir? Halda menn að heilagleikinn hellist af ef krossinn er hulinn eða færður inn í kústaskáp?

kristni
Athugasemdir

Þórður Ingvarsson - 12/11/09 17:18 #

Gæti verið að hylja helga hluti sé hluti af afhelgunarritúalinu? :O

Ragnar - 12/11/09 23:37 #

Þetta er nú bara skýrt dæmi um skurðgoðadýrkun.

Eyja - 13/11/09 11:40 #

Í sumum trúarbrögðum er einmitt mikið lagt upp úr því að geyma ákveðna helgimuni afsíðis og taka þá ekki fram nema á hátíðlegum stundum, t.d. gera gyðingar þetta við Tóruna. Mikið er hægt að gera lífið flókið.

Matti - 13/11/09 13:36 #

Ég held nefnilega að í rauninni sé þetta bara klassísk frekja í Bjarna og fleiri trúmönnum. Þeir vilja ekki deila dótinu sínu með öðrum.

Egill - 13/11/09 19:21 #

Magnað hvað hinir akademísku fræðimenn guðfræðideildar eiga erfitt með að þola öðrum en sanntrúuðum að biðja í kapellunni sinni.

Ekki voru svona vandræði með sameiginlegu trúaraðstöðuna sem herinn notaði ef ég man rétt.

Kannski ágætt að guðfræðingarnir hafi ekki aðgang að vopnum.