Örvitinn

Misheppnuð bíóferð - góð bíómynd

Ég og Gyða gerðum heiðarlega tilraun til að fara í bíó í kvöld. Brunuðum út í bjartsýniskasti rétt fyrir átta og héldum í Smárabíó til að sjá myndina Stúlkan sem lék sér að eldinum. Þegar við komum að miðasölunni blasti við miði þar sem tilkynnt var að uppselt væri á stúlkuna.

Við gáfumst ekki upp, höfðum nægan tíma til að sjá myndina klukkan níu í Regnboganum og ókum beina leið niður í bæ þar sem við byrjuðum á því að kaupa miða. Tja, hefðum byrjað á því ef ekki hefði verið uppselt. Kannski spurning um að sýna þessa mynd í fleiri og stærri sölum! Stúlkan í miðasölunni sagði Gyðu að það væri laust á myndina klukkan 22:40 í Smárabíó og eftir dálitlar vangaveltur ákváðum við að skella okkur á myndina þá. Ókum því aftur í Smáralind og keyptum miða. Kíktum svo á Kringlukrána af öllum stöðum, Gyða fékk sér hvítvínsglas og ég fékk mér piparmyntute eins og menn gera þegar þeir eru með hálsbólgu.

Um tíu fórum við aftur í Smáralind, um að gera að mæta tímanlega í bíó. Settumst niður þar og slökuðum á, Gyða fékk sér annað hvítvínsglas og ég rölti afskaplega langa leið til að komast á salernið í stað þess að nota klósettaðstöðuna sem var tíu metra frá mér. Ég er nefnilega örviti.

Loks þegar klukkan var orðin rétt rúmlega hálf ellefu og við vorum komin með popp og sódavatn mætti starfsmaður kvikmyndahússins og tilkynnti okkur að ekkert yrði af sýningunni þar sem bilun hefði komið upp, eitthvað hefði klikkað á fyrri sýningu og enginn texti væri með myndinni. Þar sem hún er á sænsku var lítið vit í að bjóða fólki upp á að horfa á hana textalausa. Ég skilaði sódavatnsflöskunum og fékk fimm hundruð krónur til baka, við vorum ekki búin að opna þær. Poppið tókum við með heim eftir að hafa fengið miðana endurgreidda. Fengum engar sárabætur.

Þegar heim var komið skellti ég nýjustu Woody Allen myndinni, Whatever works í gang. Mér þótti hún stórskemmtileg og mæli með henni. Gyðu fannst hún hundleiðinleg og sofnaði.

dagbók kvikmyndir
Athugasemdir

hildigunnur - 31/10/09 17:23 #

Kaupa miða á midi.is maður! Ekkert vit í öðru...

Matti - 02/11/09 00:07 #

Fyrst þarf ég að redda mér prentara. Ætla að fara í það mál í vikunni.

Óli Gneisti - 02/11/09 00:28 #

Virkar ekki að fá myndskilaboð í gsm?

Matti - 02/11/09 00:32 #

Ég hafði ekki hugmynd um að sá möguleiki væri í boði, hélt þú værir að djóka í mér en sé á miði.is að þú ert ekki að því :-)

Freyr - 02/11/09 13:46 #

Ég hef fengið miða senda sem MMS í símann minn, en strikamerkjalesarinn náði ekki að lesa af skjánum mínum. Kannski virkar þetta fyrir aðrar tegundir, en persónulega hef ég frekar misheppnaða reynslu af þessu. Sennilega er skjárinn of lítill - Sony Ericsson k750i.

Óli Gneisti - 02/11/09 14:11 #

Ég hef einmitt lent í því að strikamerkjalesarinn gat ekki lesið af skjánum en mér var samt hleypt inn.