Eldað með Nönnu
Árshátíð Vantrúar var haldin í Friðarhúsi á laugardag. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum bar ég ábyrgð á því að elda. Við áttum fullt af humar og því var ákveðið að elda humarpasta. Ég treysti mér alveg í að elda humarpasta handa sex eða átta - en þegar gestirnir eru 25 verð ég dálítið stressaður.
Á föstudag sendi ég út neyðarkall og leitaði ráða hjá matargúrú Íslands, Nönnu Rögnvalds. Í einhverju ótrúlegu bjartsýniskasti ákvað ég að spyrja hvort hún gæti aðstoðað við þetta - haft yfirumsjón með matreiðslu í skiptum fyrir smá humar. Viti menn, hún var laus og til í að hjálpa. Væri ég trúaður hefði ég þakkað æðri máttarvöldum!
Þannig að á laugardag elduðum ég og Nanna tæplega ellefu kíló af humar. Níu kíló tekin úr skelinni og soðin í humarsoðinu sem Nanna útbjó, eitt og hálf kíló af humar klofið og grillað. Mitt hlutverk var aðallega að passa að Nanna væri með hvítvín í glasinu!
Þó ég segi sjálfur frá var þetta ansi vel heppnað. Lentum í smá vandræðum með pastapottinn stóra, eldavélin í Friðarhúsi mætti alveg vera öflugri, en Nanna reddaði málunum og við suðum pastað í minni (en samt stórum) potti, þurftum bara fleiri umferðir.
Þetta var upplifun fyrir mig, ég get ekki sagt annað.
Ég var ekkert að segja fólki frá því að Nanna kæmi þannig að sumum brá dálítið þegar þeir sáu hver var í eldhúsinu :-)
Siggi Óla - 26/10/09 13:15 #
Af öllum þeim áhugaverðu mat-gæðingum, gúrúum og meisturum sem maður hefur fylgst með væri Nanna klárlega mjög ofarlega á listanum ef maður mætti velja hvern sem er til að elda með.
Ekki ónýtt að fá að sitja við fótskör svoleiðis meistara og læra.
Gurrí - 26/10/09 15:51 #
Sniðugur varstu, Nanna Rögnvaldar er gúrúinn!
Jóhannes Proppé - 26/10/09 18:04 #
Ef til vill að maður sæki um í Vantrú. Gæti borgað félagsgjöldin með vinnuframlagi í eldhúsinu. :D
Matti - 26/10/09 19:55 #
Jóhannes, auðvitað áttu að koma í Vantrú. Við getum þá farið að skipuleggja næstu árshátíð :-) Svo áttu örugglega erindi í félagið alveg óháð eldamennsku!
Nanna, ég ætlaði ekki að dylgja um hvítvínsdrykkjuna :-P Frekar að lýsa mínu hlutverki í þessari matargerð. Aftur á móti rann áfengið vel ofan í fólk þegar leið á kvöldið og sumir urðu dálítið hífaðir eftir að þú yfirgafst samkvæmið :-)
Siggi Óla - 26/10/09 23:56 #
Hummm, held að það sé nú ansi ofmælt hjá þér Matti að ég hafi kostað þetta þó ég hafi lagt til hluta af hráefninu. Þarf nú mun meira en það til að gera góða veislu.
Vest fannst mér að hafa ekki getað verið í eldhúsliðinu með ykkur Nönnu, það hefði verið gaman :)
Siggi Óla - 27/10/09 01:55 #
Aah nú sé ég þetta allt í réttu samhengi ;)