Týnd dóttir
Gyða hringdi í mig þegar ég var á heimleið úr vinnu rétt fyrir sex í gær. Inga María átti að ganga ein heim úr frístundastarfinu klukkan fimm en hafði ekki enn skilað sér. Gyða ætlaði að labba á móti henni en fann hana hvergi, var komin alla leið í skólann og búin að staðfesta að Inga María hefði gengið af stað klukkan fimm.
Það er óskaplega óþægileg tilfinning að vita ekki hvar barnið er. Maður reynir að vera rólegur en getur ekki annað en farið að spá í allskonar martraðarhugmyndum. Við vorum farin að ræða hvenær við ættum að hafa samband við lögregluna.
Við hringdum í vinkonur hennar sem hún er mest með og ég ók um allt hverfið en sá hvorki tangur né tetur af henni.
Korter yfir sex skilaði Inga María sér heim. Hún hafði þá rekið tána illilega í gangstétt þegar hún lagði af stað úr skólanum. Í stað þess að snúa við og fá að hringja í okkur foreldrana haltraði hún með vinkonum sínum heim til annarar. Þær studdu hana þangað og móðirin hugaði svo að Ingu Maríu og skutlaði svo heim.
Í dag verður fjárfest í gsm síma handa stelpunni svo foreldrar hennar geti komist að því hvar hún er þegar hún er lengi að skila sér heim. Það stóð líka alltaf til að hún fengi gemsa í ár fyrst Kolla fékk síma í fyrra.
Að hluta til held ég að skítapakkið hafi þessi áhrif.
Arnold - 04/09/09 17:33 #
Þetta hef ég prófað. Skelfileg tilfinning. Held ég hafi aldrei hlaupið eins mikið á eins stuttum tíma og þegar ég hljóp um hverfið í leit að stráknum. Hann hafði verið leiddur í burtu af eldri strák sem vildi sýna honum nálæga verslun.Þá var hann bara 5 ára. Virkilega vond tilfinning. Maður fer strax að hugsa um misyndismenn og annað eins.
hildigunnur - 04/09/09 19:57 #
úff, já, sama hér, litli gutti minn týndist með vini sínum einu sinni, þeir höfðu farið heim með einhverjum svolítið eldri strákum, þar var enginn heima (að við best fengum að vita), eitthvað vandræðaheimili víst, og svo slepptu strákarnir þeim ekki heim til sín né leyfðu að hringja - þeir voru sex ára. Skiluðu sér svo hundblautir og hágrátandi heim um hálftólf um kvöldið, við vorum auðvitað búin að hringja á lögregluna og leita úti um allt. Hef aldrei verið jafn hrædd á ævinni!
Sirrý - 05/09/09 18:59 #
Í Áslandsskóla er bannað að vera með GSM síma svo þetta virkar ekki hér. Kannski ekkert gert í því að barn sé með síman í töskunni ef hann helst þar.
Hér er regla að hringja og láta vita af sér og það virkar oft en ekki alltaf.
Annars er Tinna alltaf að ´"tínast" og foreldarnir hættir að kippa sér upp við það því miður, kannski einn daginn kemur að því að hún týnist og við bara róleg heima.