Fóstureyðingar í sjónvarpinu
Við vöktum frameftir og horfðum á myndina um fóstureyðingar sem Ríksisjónvarpið sýndi í gærkvöldi/nótt.
Myndin var nokkuð góð. Ansi hrottalega á köflum en það hæfir efninu.
Aðdáendur fóstureyðinga
Ég veit ekki um neina sem eru sérstakir aðdáendur fóstureyðinga. Held að flestir sem styðja rétt kvenna til fóstureyðinga og telja að þær eigi að vera löglegar geri það vegna þess að það er (miklu) skárri kostur en bann. Bannið hefur verri afleiðingar. Fyrst og fremst þær að fjöldi kvenna deyr við að reyna fóstureyðingar við frumstæðar aðstæður. Einnig er ljóst að bannið nær í raun bara til fátækra kvenna. Ríkar konur geta einfaldlega leitað annað.
Það er kannski dálítið villandi fyrir umræðuna hér á landi að sýna fóstur sem voru a.m.k. sex mánaða. Slíkt gerist nær aldrei hér á landi enda fóstureyðingar ekki heimilar eftir 16. viku meðgöngu nema sérstakar ástæður komi til #.
Það var áberandi í þættinum að andstæðingar fóstureyðinga sem rætt var við voru upp til hópa karlmenn. Sömu karlmenn og telja uppeldi barna vera kvenna starfa. Þeir sem vörðu rétt kvenna voru upp til hópa konur.
Trúarnöttar
Þátturinn sýndi ansi vel að helstu andstæðingar fóstureyðinga í BNA er sturlað fólk. Sturlað fólk sem hlýtur skjól innan trúarsafnaða. Ágæt rök voru færð fyrir því að þetta fólk er allt annað en "pro life" enda hvetur það til ofbeldis og morða til að vinna málstað sínum gagn.
Það er í raun ótrúleg hræsni að fólkið sem hefur sig mest frammi gegn fóstureyðingum er það sama og berst gegn getnaðarvörnum. Það er vonlaust að skilja þankagang þessa liðs.
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að trúfélög séu versta umhverfi sem geðbilað fólk lendir í. Þar er það umkringt fólki sem ýtir undir óra þess. Í þættinum voru nokkur dæmi um slíkt fólk, morðóða geðsjúklinga sem voru hvattir áfram af trúarhópum. Þarna var líka afar gott dæmi um það hvernig költ virka. Norma McCorvey (Roe í Roe á móti Wade málinu fræga) var ofsótt af trúmönnum í mörg ár og endaði svo meðal þeirra. Var brotin niður og svo boðið skjól.
Það er í raun merkilegt hvað trúmenn komast upp með að boða mikið hatur án þess að þurfa að taka afleiðingum þess. Nýlægt dæmi frá Bandaríkjunum er gott dæmi um það, en læknirinn George Tiller var myrtur af andstæðingum fóstureyðinga. Sjónvarpsmaðurinn Bill O'Reilly fjallaði oft um hann og passaði sig á því að kalla hann alltaf barnamorðingja ("Tiller the baby killer"). Þetta mun engar afleiðingar hafa fyrir sjónvarpsmanninn.
Af hverju núna?
Ég skil ekki alveg af hverju Rúv sýndi þessa mynd núna. Ég hef ekki orðið var við umræðu um þetta mál og get þá ekki skilið það öðruvísi en að Rúv vilji koma slíkri umræðu af stað. Vandinn við það er að þá fá trúarnöttararnir sitt pláss, það þarf alltaf að vera "jafnvægi" í slíkum umræðum og þá þarf JVJ að fá að tjá sig jafn mikið og hugsandi fólk.
Ég er ekki að mótmæla því að myndin sé sýnd yfir höfuð. Skil bara ekki alveg tilefnið. Sérstaklega vegna þess að erfitt hefur verið að fá sjónvarpið til að sýna aðrar heimildamyndir þó mikil umræða sé um efni þeirra í samfélaginu.
Kristinn Theódórsson - 13/08/09 09:59 #
Góðar pælingar.
Mér hefur heyrst að undirliggjandi ástæður JVJ séu þær að hann vilji styrkja kristna "herinn" gegn uppgangi þess múslímska. Hver smokkanotkun og hver fórstureyðng þýðir færri boðbera kristni.
Sem er, eins og þú segir, sturlun.
Ásgeir - 13/08/09 12:31 #
Hvað er að tæknifrjóvgunum?
Helgi Þór - 13/08/09 12:32 #
Hrikalega áhugavert umræðuefni og virkilega góður pistill.
Birgir Baldursson - 13/08/09 14:40 #
En fara ekki mannslíf til spillis ef þeim er sleppt?
Matti - 13/08/09 14:47 #
Sko, JVJ er aðallega á móti því að einstæðar mæður fái tæknifrjóvgun því þá eigi barnið bara eitt foreldri. Einnig er hann voðalega hræddur við að lesbíur eignist börn með þessum hætti. Þannig að áhyggjur hans af fólksfjölda virðast frekar falskar. Um fósturvísa sagði hann:
Nýjustu lögin um tæknifrjóvganir, frá því í júní á þessu ári, fela vissulega í sér bæði óæskilega og mjög neikvæða hluti : dráp á fósturvísum, sem eru sjálfstætt, mannlegt líf.
Hættum að tala um JVJ, hann er bæði ljótur og leiðinlegur.
Halldór E - 13/08/09 15:59 #
Mér finnst mikilvægt að við látum þessa umræðu ekki snúast um trúaða annars vegar og hina hins vegar. Þannig var George Tiller, sá hugrakki maður sem fórnaði lífi sínu í baráttu fyrir réttindum kvenna, virkur trúmaður og var myrtur þar sem hann þjónaði í guðsþjónustu í kirkjunni sinni.
Á sama tíma eru margir hávaðaseggir í þessari umræðu sem hafa litla sem enga tengingu við kristna kirkju þrátt fyrir að þykjast tala fyrir hönd Guðs.
Ég vona að þú skiljir mig ekki sem svo að ég sé að verja kirkju og kristni og gefa í skin að hún sé saklaus, svo er alls ekki. En þar sem Mr. Tiller var nefndur, þá fannst mér rétt að þetta kæmi fram.
Matti - 13/08/09 16:02 #
Það er rétt hjá þér að þetta er ekki stríð á milli trúaðra og trúlausra. Fullt af trúuðu/kristnu fólki ver rétt kvenna til fóstureyðinga.
Það vill bara svo til að hópurinn sem berst gegn fóstureyðingum með ofbeldi, hótunum og þvingunum gerir það í nafni trúar. Í Bandaríkjunum fyrst og fremst kristni.
Á sama tíma eru margir hávaðaseggir í þessari umræðu sem hafa litla sem enga tengingu við kristna kirkju þrátt fyrir að þykjast tala fyrir hönd Guðs.
Þetta verður alltaf dálítið varasamt því það er svo stutt í að hinn eða þessi sé ekki sannur trúmaður (Skoti).
Aftur á móti nefni ég þetta einmitt í bloggfærslunni:
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að trúfélög séu versta umhverfi sem geðbilað fólk lendir í. Þar er það umkringt fólki sem ýtir undir óra þess. Í þættinum voru nokkur dæmi um slíkt fólk, morðóða geðsjúklinga sem voru hvattir áfram af trúarhópum.
Halldór E - 13/08/09 16:14 #
Ég er ekki að halda því fram að hávaðaseggirnir séu ekki trúmenn, hins vegar eiga þeir ekki alltaf samleið með öllum þeim sem trúa á einhvers konar guð.
Þannig þekki ég mjög fáa kristna Bandaríkjamenn sem eiga samleið með O'Reilly, Limbaugh eða Glenn Beck. Þó flestir Bandaríkjamenn sem ég þekki séu heittrúað fólk á alla íslenska mælikvarða.
Reyndar er ég fullviss um að flestir Bandarískir trúmenn sem ég þekki eigi meira sameiginlegt með þér, en ofangreindum, ef að sjálfsögðu frá er talið viðhorfið til Guðs.
Sindri Guðjónsson - 13/08/09 19:59 #
Þó að andstæðingar fóstureyðinga sem rætt hafi við í myndinni hafi upp til hópa verið karlmenn, og þó að þeir sem rætt var við í myndinni og vildu verja rétt kvenna til fóstureyðinga væru upp til hópa konur, hafa fjölda margar skoðannakannanir bent til þess, að konur séu líklegri en karlar til að vilja banna fóstureyðingar. Ég komst að þessu þegar ég vann smá heimildarvinnu í tengslum við grein sem ég skrifaði um fóstureyðingar á íhald.is.
Ég tel að ástæða þess að fleiri konur vilji banna fóstureyðingar en karlar, sé sú, að hærra hlutfall kvenna er trúað, og fjölda margir trúarhópar fordæma fóstureyðingar.