Níunda regla Jónasar
Allir þekkja reglur Jónasar um stíl. Þær fyrstu eru: skrifaðu eins og fólk, ekki fræðimenn (fræðimenn eru ljótir og leiðinlegir). Settu sem víðast punkt og stóran staf. Strikaðu út óþörf orð, helmingaðu textann. Reglurnar eru á forsíðunni hjá Jónasi.
Níunda reglan er aftur á móti leyndarmál. Nafnlaus heimildarmaður kom henni til mín. Níunda reglan er sú mikilvægasta og sú sem Jónas notar oftast.
Aldrei skrifa eina bloggfærslu þegar þú getur skrifað margar.
(sjá mynd, stærri stekkur upp ef smellt er á myndina hér til hliðar).
Sumir myndu segja að þriðja reglan ætti að ná yfir þetta. Strikaðu út óþarfa bloggfærslur, helmingaðu textann.
Að öllu gamni slepptu finnst mér að margir reyndir fjölmiðlamenn mættu reyna að skilja eðli bloggsins. Það er t.d. pínlegt að sjá hvað margir eiga erfitt með að vitna í efni eða vísa á aðrar bloggsíður. Sumir afrita t.d. heilu bloggfærslurnar reglulega á sitt blogg í stað þess að birta smá útdrátt og setja vísun.
Vísanamenningin virðist flutt á Facebook þar sem notendur vísa reglulega á greinar á netinu. Gallinn við það er að Facebook er lokað kerfi, þeir sem vísað er á sjá ekki hverjir vísa og hvað þeir hafa að segja.