Ný vika, nýtt námskeið
Hjólaði með stelpunum í Hólmasel klukkan níu. Þar verða á daginn næstu tvær vikur. Þær hjóla heim klukkan fjögur. Áróra Ósk verður væntanlega komin heim eftir vikudvöl í Brussel þar sem hún stundaði rannsóknir á ESB.
Hjólatúrinn gekk vel enda ferðin stutt. Kollu gengur ágætlega á gírahjólinu en ég þarf að hækka hnakkinn, hún situr frekar lágt. Næsta sumar fer hún á stærra hjól sem bíður í bílskúrnum og Inga María á hennar.
Læstum hjólin saman fyrir framan Hólmasel og settum lykilinn á kippuna hennar Kollu. Líkurnar á að hún tínist hafa því margfaldast.
Á heimleiðinni var ég að spá í að hjóla áfram í vinnuna en nennti ekki. Hefði þurft að skipta um föt. Fatta ekki þegar ég sé fólk hjóla í vinnuna í hversdagsfötum. Er þetta fólk ekki með svitakirtla?