Ölvunarakstur eftir einn
Hlustaði á frétt um ölvunarakstur í útvarpinu í kvöld. Sýslumaður fyrir norðan hefur áhyggjur af því að það virðist algengara að ökumenn aki "eftir einn". Séu semsagt með áfengi í blóðinu en undir mörkum. Í lok fréttar var sagt frá því að þetta væri áhyggjuefni því í síðasta mánuði hefðu orðið tvö alvarleg slys þar sem áfengi og vímuefni hefðu komið við sögu.
Í fréttinni var ekkert sagt um það hversu mikið áfengi eða vímuefni kom við sögu í þeim tilvikum en ég ætla að giska á að það hafi verið yfir þeim mörkum sem tiltekin eru í lögum.
Fréttin var í raun óskaplegt þvaður því ekkert var rætt um það hvort það dragi úr getu ökumanna að vera með lítið áfengi (undir 0.5 prómill) í blóðinu. Eru ökumenn sem hafa fengið sér einn (bjór, rauðvínsglas) hættulegri í umferðinni en ökumenn sem ekkert hafa drukkið. Valda þeir mörgum slysum?
Þetta er lykilatriði málsins. Án slíkra upplýsinga er tómt rugl að flytja frétt um áhyggjur einhvers sýslumanns eða jafnvel Umferðarstofu.
Ég held að lækkun áfengismarka hafi þann eina tilgang að fjölga sektum fyrir ölvunarakstur á Íslandi, fjölga glæpamönnum. Tugþúsundir íslendinga þurfa þá alfarið að sleppa því að aka sólarhring eftir ölvun eða rúmlega það (ég vona að enginn keyri morguninn eftir fyllerí). Svosem ekkert rosalegt mál en gæti verið dálítið skítt fyrir fólk að missa bílprófið kvöldið eftir skemmtun vegna þess að 0.2 prómill af áfengi eru enn í blóðinu. Á sama tíma má 17 ára unglingspiltur keyra um göturnar alsgáður en stórhættulegur.
Ég vil einfaldlega fá að vita hversu mikil hætta stafar af fólki sem hefur fengið sér einn áður en ég nenni að hafa áhyggjur af slíku. Ég hef miklu meiri áhyggjur af því að reynt verði að þrýsta í gegn lögum til lækkunar á viðmiðunarmörkum án þess að raunveruleg rök verði færð fyrir því. Ef þessi rök eru til og sýna að ökumenn sem hafa fengið sér einn eru hættulegir í umferðinni styð ég breytingar hiklaust.
Sá sem keyrir blindfullur eða útúrdópaður er ekkert að stressa sig á því hvort lágmarkið er 0.5 prómill eða 0.2 prómill.
Set þetta í eiturlyfjaflokkinn því áfengi er tæknilega séð eiturlyf. Annars ætti flokkurinn að heita fíkniefni.
Er þetta kannski eitt af þessum málum sem eru of viðkvæm til að ræða? Þarf ég að taka sérstaklega fram að ég er ekki að verja ölvunarakstur? Ég vil bara meina að það sé ekki stigsmunur heldur eðlismunur á því að keyra klukkutíma eftir að hafa fengið sér vínglas með matnum og því að keyra ofurölvi eða útúrdópaður.
hildigunnur - 13/07/09 08:49 #
Og er maður líka hættulegur ef maður drekkur eina maltdós eða "óáfengan" pilsner? Verður það ekki líka yfir mörkum.
Tek heils hugar undir þennan pistil. Það verður að skoða svona hluti almennilega áður en slengt er fram lagabreytingu.
Helga Kristjánsdóttir - 13/07/09 10:00 #
Fólk þolir áfengi svo misjafnlega og þarf að drekka mismikið til að finna á sér. Einn bjór hefur ekki sömu áhrif smágerða 17 ára stelpu og á fullvaxinn eða ofvaxinn fullorðinn einstakling.
Prómílmælingin segir kannski ekki alla söguna. 17 ára stelpan hugsar kannski sem svo að af því hún hefur séð foreldra sína keyra heim úr veislum eftir 1-2 rauðvínsglös að þá sé í lagi að hún geri það líka.
Mér finnst áhyggjur sýslumannsins réttmætar vegna þess að það er algengt viðhorf að það sé í lagi að aka eftir einn og það er bara ekki í lagi fyrir marga þó það sé hugsanlega í lagi fyrir aðra.
Már - 13/07/09 16:53 #
Venjuleg þreyta (eða tilfinningalegt ójafnvægi) getur hæglega haft jafn mikil og eða verri áhrif en (væg) ölvun undir stýri. Viðbrögð verða hægari og dómgreind slakari.
Það er væntanlega erfiðleikum bundið fyrir lögguna að mæla þreytu (eða geðhrif) ökumanna - þannig að ölvunin er látin duga.
Arngrímur - 14/07/09 11:10 #
Sel það ekki dýrar en ég keypti það, en í fyrra hitti ég Kana sem sagði mér að í hans heimafylki væri bjór yfirleitt 3%. Drykki maður einn og væri stoppaður missti maður prófið, sæti inni og yrði sektaður - auk þess að þurfa að mæta í AA prógram.
Pilsner er 2.25%. Nú skal ég ekki segja til um hversu marga slíka maður þyrfti að drekka á einum klukkutíma svo það mældist á Íslandi, en hvað með þrjú prósentin? Í hverju liggur grundvallarmunurinn? Hvenær telst áfengi vera áfengi? Væri hægt að svipta mann prófinu í Bandaríkjunum fyrir að drekka tvo pilsnera?
Mummi - 28/07/09 12:33 #
Þetta gæti líka verið spurning um sálrænan þröskuld. Svipað eins og fólk sem keyrir alltaf aðeins yfir leyfilegum hraðamörkum.
Að þetta eigi því að minnka þann glugga sem "venjulegu" fólki finnst ok að keyra eftir drykkju - í stað t.d. 0-0.8 þá minnki glugginn niður í 0-0.5.
Þetta eru vitaskuld bara pælingar. Ekkert hef ég séð sem bendir til að ég hafi rétt fyrir mér - hvorki rök né tölfræði. Bara að hugsa upphátt.