Fíkniefni og prósentureikningur
Í morgun mætti ég á fínan kynningarfund í Ölduselsskóla þar sem farið var yfir ýmislegt með foreldrum. M.a. voru ný grunnskólalög kynnt og rætt um starf gegn einelti.
Farið var yfir niðurstöður kannana á fíkniefnanotkun nemenda. Þetta er rannsókn sem gerð er um allt land en við sáum niðurstöður Ölduselsskóla bornar saman við Reykjavík annars vegar og allt landið hins vegar. Ölduselsskóli kemur vel út í samanburði.
Á grafinu sást töluverð uppsveifla hjá þeim sem prófað hafa hass einu sinni eða oftar. Mig minnir að þetta hafi rokið úr 2% í 6% hjá elsta árgang milli áranna 2007 og 2008. Þarna er væntanlega kominn þessi kannabisfaraldur sem stundum er talað um þessa dagana.
En hvaða merkingu hefur prósentutalan? Ég spurði hvað árgangurinn er stór. Hann telur um 60 nemendur. 6% af því er 3.6, þannig að þrír eða fjórir nemendur hafa prófað hass einu sinni eða oftar. Það þarf ekki mikið til! Árið áður hefur það verið einn nemandi
Það er stundum varasamt að bera saman prósentur þegar tíðni er lítil. Betra væri þá að mínu mati að telja einfaldlega fjöldann.
Arnþór - 23/02/09 11:12 #
Þeir sem hafa notað kannabisefni vikulega eða oftar í eitt ár eða lengur uppfylla þau skilyrði að teljast stórneytendur kannabisefna á Sjúkrahúsinu Vogi. Þó þurfa þeir sem eru 19 ára eða yngri ekki að nota efnið vikulega lengur en í hálft ár til að teljast til stórneytenda.
Fjöldi stórneytenda kannabis hefur vaxið gríðarlega og rúmlega þrefaldast á síðustu 10 árum. Árið 2006 voru stórneytendur 683. Af þessum 683 stórneytendum kannabisefna voru 569 einstaklingar eða 83% daglegir neytendur efnisins. Meðalaldur þessara dagreykingamanna hass var 25,7 ár. 152 dagreykingamenn voru 19 ára eða yngri, 277 voru á milli 20 og 29 ára og 146 voru 30 ára eða eldri.
Athugaðu að þetta eru ekki skoðanakannanir heldur staðreyndir.
Matti - 23/02/09 11:17 #
Þeir sem hafa notað kannabisefni vikulega eða oftar í eitt ár eða lengur uppfylla þau skilyrði að teljast stórneytendur kannabisefna á Sjúkrahúsinu Vogi. Þó þurfa þeir sem eru 19 ára eða yngri ekki að nota efnið vikulega lengur en í hálft ár til að teljast til stórneytenda.
Mér finnst fáránlegt að telja þá sem hafa notað eitthvað efni vikulega sem stórneytendur. Ég er þá stórneytandi á áfengi.
Annars skil ég ekki hvernig athugasemdin tengist þessari bloggfærslu.
Arnþór - 23/02/09 11:35 #
"Mér finnst fáránlegt að telja þá sem hafa notað eitthvað efni vikulega sem stórneytendur."
Það er ekki gert. Um neyslu áfengis segir ameríska geðlæknasambandið.
Hófleg drykkja er skilgreind á eftirfarandi hátt:
Karlar (20-65 ára): Tveir drykkir eða minna á dag að jafnaði. Aldrei meira en fimm drykkir í hvert sinn. Samanlagt fjórtán drykkir á viku eða minna.
Konur (og karlar eldri en 65 ára):
Einn drykkur eða minna á dag að jafnaði. Aldrei meira en fjórir drykkir í senn. Samanlagt minna en sjö drykkir á viku.
Sjá nánar http://www.saa.is/islenski-vefurinn/leidbeiningar/hofleg-drykkja/
"Annars skil ég ekki hvernig athugasemdin tengist þessari bloggfærslu."
Jú hún tengist fullyrðingu þinni um að skoðanakönnun í barnaskóla gæfi rétta mynd af kannabisfaraldri sem stundum er talað um.
Arnþór - 23/02/09 11:45 #
"Gott og vel, sú setning átti að vera háð."
Háðið var hægt að skilja þannig að þér þætti vandinn minniháttar.
Arnþór - 23/02/09 11:53 #
Og fyrst þú ert að tala um kannabisneyslu og hlutfallstölur má segja þér að það er staðreynd að 5% af öllum íslenskum drengjum fæddum 1982 komu á Vog fyrir tvítugt. Næstum allir vegna kannabisneyslu.
Arnþór - 23/02/09 18:21 #
"Ég á bara erfitt með að trúa...
Svona er þetta nú ótrúlegt en satt. Reyndar var 82 árgangurinn sá versti í sögunni. Hann er sá árgangur sem talsmenn skoðanakannana miða stöðugt við þegar sagt hefur verið að ástandið sé að skána.
Arnþór - 23/02/09 22:49 #
"Það er dálítið magnað. Árið 1982 fæddust 2256 drengir hér á landi, þannig að um hundrað þeirra hafa farið í meðferð vegna kannabisneyslu."
Þú ert ekki alveg að ná þessu ennþá. 5% af þessum árgangi höfðu komið í meðferð á Vog fyrir tvítugt (ca 2002).
Arnþór - 23/02/09 23:05 #
Í dag má gera ráð fyrir að pósentan sé hærri. Drengirnir eru orðnir 27 ára. Fáir koma í meðferð fyrir tvítugt.