Nunnur og nektardansarar
Þegar ég horfði á fréttamann ræða við nunnu gegnum rimla klaustur í Hafnafirði í sjónvarpinu í kvöld velti ég því fyrir mér af hverju í ósköpunum ekki er unnið að því að frelsa þessar konur úr ánauðinni. Ég get ekki séð annað en að verið sé að misnota þessar konur, þær fluttar milli landa, einangraðar félagslega og látnar vinna kauplaust fyrir alþjóðlega samsteypu. Ég vil meina að hér sé hreint og klárt mansal í gangi. Þessar konur eru ekki frjálsar.
Frelsum nunnurnar, þær eiga betra líf skilið. Þekkt er að fórnarlömb hænast að kvölurum sínum. Svo er líka í þessu tilviki. Sennilega tekur það þær langan tíma að jafna sig á vistinni og sjá að þær hafa verið misnotaðar.
Það er hreint ótrúlegt hverslags misnotkun er samþykkt ef hún fer fram í nafni trúarbragða.
Helgi Briem - 24/12/08 09:59 #
Þetta er stórmerkilegur punktur Matti.
Ætli ástæðurnar fyrir vændi og nunnulífi séu ekki mikið til þær sömu? Fátækt, heimilisofbeldi, skortur á atvinnutækifærum, þvinguð hjónabönd?
Grein?
Jón Magnús - 24/12/08 11:17 #
Ég minni nú að þáttinn sem var á RÚV fyrir ekki svo löngu síðan þar sem ung kona ákvað að fara í nunnuklaustur. Mér fannst það eins og hún væri að fara sjálfviljug í fangelsi en þetta var miklu verra en fangelsi. Mamma hennar grét á hverjum degi í tvö ár, skrítið miðað við að hún var sú sem var með einhverja draummóra að börnin sín færu í klaustur.
Er þetta klaustur hérna á Íslandi ekki Kamelíúreglan? Minnir að þessi unga stúlka hafi farið í hana þarna í Svíþjóð en þessi regla er víst sú strangasta nunnuregla sem til er. Allavega var það sagt í þessari mynd.
Óli - 25/12/08 01:26 #
Karmelreglan er með allra ströngustu reglum í heimi og nunnurnar eru í klaustrinu í mörg ár til reynslu til þess að þær taki ekki ákvörðunina um að dvelja þarna til æviloka að vanhugsuðu máli. Fyrir þá sem vilja kynna sér líf þeirra (sérstöku) karaktera sem ganga í þessar reglur mæli ég með heimildamyndinni Die grosse Stille.
En annars finnst mér þessi færsla vera ágætis vitnisburður um þinn málflutning eins og hann kemur mér yfirleitt fyrir sjónir: Það er nauðsynlegt að "frelsa" það fólk sem kýs að hugsa og lifa lífinu öðru vísi en þú sjálfur... jafnvel þótt það hafi valið lífshætti sína sjálft eftir margra ára umhugsun.
Sjálfum finnst mér gott að fólk og samfélög séu fjölbreytt og ég skil stundum ósköp vel það fólk sem kýs að lifa í kyrrð eins og nunnurnar í Hafnarfirði.
En ef þú vilt endilega "frelsa" þær úr "ánauðinni", þá skaltu bara fara til þeirra og reyna að sannfæra þær um að koma með þér út... það ætti ekki að vera flóknara. Hlakka til að sjá árangurinn.
Gleðileg jól!
Helgi Briem - 26/12/08 16:18 #
Óli, af hverju prófarðu ekki að fara heim til einhverrar konu sem er barin af manninum sínum og reynir að sannfæra hana um að koma með þér út... það ætti ekki að vera flóknara. Hlakka til að sjá árangurinn.