Örvitinn

Trúfélagsskráning barna og jafnréttislög

Á Íslandi eru börn skráð í trúfélag móður við fæðingu. Þetta fyrirkomulag er afskaplega furðulegt. Það má spyrja hvaða þörf sé á því yfir höfuð að skrá börn í trúfélag við fæðingu, ekki skráum við börn í stjórnmálaflokk við sama tilefni. Auk þess er afskaplega undarlegt að miðað sé við trúfélagsskráningu móður. Ef breyta á trúfélagsskráningu barns þurfa báðir foreldrar að skrifa undir eyðublaðið og því ljóst að móðir hefur alfarið á sínu valdi hvort barn sé í hennar trúfélagi eða ekki. Faðir getur engu breytt nema með samþykki móður.

Nú hefur Jafnréttisstofa úrskurðað að þetta fyrirkomulag sé „tæpast“ í samræmi við jafnréttislögin.

Mér þætti eðlilegast að enginn sé skráður í trúfélag fyrr en hann er orðinn 16 eða 18 ára og geri það þá einfaldlega sjálfur. Þetta gæti t.d. verið tengt skattframtalinu.

Í úrskurði Jafnréttisstofu segir m.a.:

Í öðru lagi er það sem Jafnréttisstofa telur mikilvægast í þessu máli sem er að ekki er að sjá að það séu neinir hagsmunir, hvorki fyrir nýfætt barn né aðra, að það sé sjálfkrafa skráð í trúfélag

Hagsmunirnir eru vissulega til staðar, það eru hagsmunir ríkiskirkjunnar sem hagnast gríðarlega á því að sem flestir séu skráðir sjálfkrafa í söfnuðinn og spái svo ekki meira í þeim málum.

Kerfið virðist beinlínis hannað til að fólk velti trúfélagsskráningu ekki fyrir sér. Fjölmargir halda til dæmis ranglega að trúfélagsskráning tengist skírn. Af hverju koma upplýsingar um trúfélagsskráningu ekki fram á skattframtali? Af hverju þarf að senda eyðublað til Þjóðskrár til að breyta þessari skráningu - í sumum nágrannalöndum okkar er hægt að breyta þessu í gegnum vefinn. Hér á landi væri t.d. hægt að tengja það einkabönkum. En nei, kerfið á Íslandi er hannað fyrir hagsmuni ríkiskirkjunnar og sú stofnum mun berjast gegn nokkrum breytingum á þessu fyrirkomulagi. Það verður því fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum ríkiskirkjunnar og þingmönnum hennar (sem eru flestir) við þessum úrskurði.

Svo má spyrja hvort það brjóti lög um persónuvernd að ríkið safni upplýsingum um trúfélagsskráningu allra landsmanna.

feminismi kristni
Athugasemdir

Esther - 09/12/08 15:12 #

Þetta þykir mér virkilega góður punktur og áhugavert að sjá, eins og þú segir, hvort og þá hver viðbrögð við þessu verða. Rökin fyrir því að skrá barn í trúfélag móður við fæðingur eru auðvitað engin.