Helgarskýrslan
Ég er latur að blogga, kominn með dálitla leið á blogginu.
Helgin var ágæt en erfið. Á föstudag var haldinn fámennur trúleysingjahittingur á Horninu enda boðað til hans með skömmum fyrirvara í tilefni þess að skipstjórinn var í bænum. Það var stórfínt eins og alltaf.
Jólahlaðborð vinnunnar var haldið á laugardag. Starfsmenn hafa haldið þetta jólahlaðborð síðustu ár, fáum lánaðan matsalinn á jarðhæðinni og skiptum með okkur verkum í matseld. Ég sá um að elda aðalréttina, kalkúna og hamborgarhryggi. Fuglinn var 10.3 kg og ég eldaði hann eins og ég geri um jólin, með aprikósufyllingu úr Veislubók Hagkaupa. Svona stór fugl ætti að vera 7-9 klst við 145° í venjulegum ofni en hann er tilbúinn á 2-3 klst í iðnaðarofninum niðri. Eftir einn og hálfan tíma lækkaði ég hitann í 100°, hækkaði hitann rétt í lokin til að brúna dýrið. Hamborgarhryggir voru einfaldir, keypti Hagkaupshryggi og henti í ofn í 90 mín eins og stendur á pakkanum. Bjó svo til sykurhúð úr púðursykri, sinnepi, hunangi og viskí. Starfsmenn komu með forrétti, meðlæti og eftirrétti. Hér var nóg af mat og góð stemming.
Ég var hryllilega þunnur og þreyttur í gær. Kom mér úr bælinu rétt fyrir þrjú og tók leigubíl í vinnuna til að þrífa eftir okkur. Tók svo afgangana af kalkúnanum heim og við borðuðum það í kvöldmatinn með kartöflugratín og sveppasósu dauðans, eigum ennþá eftir afganga sem verða borðaði í kvöld.
Jón Magnús - 08/12/08 10:22 #
jamm, þetta heppnaðist vel og maturinn var frábær. Óhætt að segja það að allir borðuðu á sig gat.
Mér fannst hálf furðulegt hve klukkan var orðin margt þegar við fórum heim.
Jóhannes Proppé - 09/12/08 02:34 #
Galdurinn við að elda heilan kalkún er að stöffa hann, helst með fyllingu með sætum ávöxtum og feitmeti. Þetta hægir á eldunarferlinu og kemur í veg fyrir að hann þorni innanfrá. Best er að nota kjarnhitamæli og hafa það að markmiði að ná 65°c í kjarnhita við sirka 90°c í ofnhita (þá er ég að miða við öflugan og nákvæman ofn)Gott er að snúa fuglinum við og við, svo ekki snúi alltaf sama hlið að viftunni, enda eiga stórir kalkúnar til að fylla rækilega í flesta heimilisofna. Þegar 65°c er náð í kjarnhita(mælir liggur við bringubein), er gott að kippa honum út, keyra ofninn up á grillinu, fullan blástur og pensla hænsnið með smjöri. En það eru ákveðin prótein í mjólkurvörum sem gefa fallegri, og fljótlegri brúnku en olía, eða einfaldlega fitan í hamnum á sjálfum kalkúninum. Svo er dýrið einfaldlega brúnað þangað til það er fallegt, en miklu máli skiptir að hvíla kjötið í 10 mínútur, hið minnsta, svo kjötsafinn fari ekki á flakk þegar hann er skorinn.
Sjálfsagt eitthvað sem allir vita sem hafa nokkurntíman eldað kalkún, en ég á erfitt með að stoppa matarrausið í mér þegar ég er svangur...