Örvitinn

Litlar krísur

Kolla að lesaÉg þurfti að bruna úr vinnu klukkan þrjú í dag til að sækja Kollu. Hún hafði misst af strætó vegna þess að pokinn með balletfötunum datt af skólatöskunni - hún uppgötvaði það þegar strætó var að koma og þurfti að rölta til baka í skólann, fann pokann á miðri leið. Þar sem hún missti af strætó þurfti hún að labba í Mjódd en hafði ekki gengið lengi þegar hún lenti smá "slysi". Óskaplega var ég feginn að hún er með gemsa þegar ég heyrði í henni.

Ég var ekki lengi í Breiðholtið þó mér þætti tíminn lengi að líða. Við skelltum okkur heim, hún skipti um föt og svo slakaði hún á, kláraði að lesa aðra bókina um Harry Potter. Næst byrjaði hún að lesa Manga bók sem hún hafði fengið í póstinum og var ekki lengi að klára hana. Þriðja bókin um Harry Potter er næst á dagskrá.

Þó krísurnar séu stundum ekkert óskaplega stórar verða pabbar iðulega afskaplega áhyggjufullir og að sama skapi fegnir þegar allt er komið í lag.

fjölskyldan