Af dætrum og skóla
Fórum í foreldraviðtöl með Ingu Maríu og Kollu í gær. Þær eru báðar að standa sig afskaplega vel í skóla og ekkert nema gott um það að segja.
Kolla hefur tekið afar miklum framförum í lestri og er að vera alveg læs, fékk 7.5 af 8 í lestrarprófi. Kemur ekki á óvart að hún hafi bætt sig, sumarið fór í að lesa öll Galdrastelpublöðin og í haust hefur hún dundað sér við að lesa Harry Potter. Það kom mér skemmtilega á óvart að hún er að standa sig afskaplega vel í stærðfræðinni líka.
Inga María er á réttu róli. Við þurfum þó að vera duglegri við að láta hana lesa heima, hún stóð betur í lestri en systir hennar áður en hún byrjaði í skóla en nú stendur hún á sama stað og Kolla fyrir ári (Inga María er í 2. bekk, Kolla í þriðja).
Mér finnst áhugavert hvað kennarar eru misjafnir. Sumir eru stórkostlegir, lifa sig inn í starfið, hafa metnað og sýna börnunum mikinn áhuga. Aðrir virðast áhuga- og metnaðarlausir, muna ekki hvað börn heita og virðist standa á sama. Því miður getur maður ekki valið kennara og mér þykir jafnvel enn verra að laun þeirra fara eftir starfsaldri en ekki augljósum hæfileikamun.
Stelpurnar eru í vetrarfríi og eyða deginum með Gunnu ömmu sinni. Eflaust er hún að dekra hressilega við þær.