Miðvikudagar eru ágætir
Miðvikudagar eru ágætir.
Fótbolti í hádeginu, sem er ágætt. Reyndar drullutapaði ég í dag, en ágætt var það samt.
Ég hætti alltaf snemma í vinnunni á miðvikudögum. Það er líka ágætt. Sæki stelpurnar og skutla Ingu Maríu í fimleika hjá Gerplu. Sest inn í sal í smá stund og glápi á afturendann á kennurunum. Nei, ég meinti: Sit í smá stund og horfi á Ingu Maríu æfa sig.
Ég og Kolla kíkjum stundum í Smáralind meðan Inga María er á æfingu. Röltum í bókabúð og flettum blöðum eða bókum. Ég planta mér fyrir framan tímaritarekkann og Kolla sest í bókabílinn. Ég fletti ljósmyndagræjublöðum. Það er klámið mitt.
Í dag skutla ég Kollu í afmæli í Smáralind, þrefalt bekkjaafmæli. Fimm hundruð krónur í umslag handa hverjum gemling, höfum ekki tíma til að versla gjafir.
Skýst svo í póstafgreiðsluna í Nettó í Mjódd og sæki bókapakka frá Amazon. Pakkinn kom í síðustu viku, ég sá miðann rétt rúmlega sex á föstudag. Vann frameftir á mánudag og fór á sýningu í gær. Nú skulu bækur sóttar. Áróra fær sínar bækur samt ekki fyrr en á morgun, eftir samræmda prófið í stærðfræði.
Þegar ég sæki Ingu Maríu í fimleikana horfi ég stundum á síðustu mínútur tímans. Kolla fer inn í klefa með Ingu Maríu og ég sest við gosbrunninn við afgreiðsluna. Skelli ipod í gang og hlusta á tónlist meðan ég virði fyrir mér mannlífið.
Ég er með alltof mikið af bókum sem ég á eftir að klára að lesa. Næsta skref er að lesa eins og heila bók. Það væri ágætur árangur.
Jamm, þetta er allt saman alveg ágætt.
Óli Gneisti - 07/05/08 16:03 #
Hvenær ætli orðaforði Íslendinga breytist almennt þannig að þeir segi ekki lengur "þetta er biblían mín" heldur "þetta er klámið mitt" ?
Sirrý - 07/05/08 20:06 #
Það er líka tilvalið að skella sér í sund á meðan og synda nokkrar ferðir eða virða fyrir sér mannlífið í heitapottinum Salalauginn er fín í það.