Kóðinn fyrir EVE Online á netinu
Á Slashdot er fjallað um að kóðanum fyrir Eve Online clientinn hafi verið stolið og sé nú dreift á netinu. Í morgun sá ég að það var kominn þráður um málið á reddit. Samkvæmt þessum síðum er einhver pirraður spilari að reyna að kúga CCP til að laga villur í leiknum og dreifir því kóðanum að leiknum.
Þetta er reyndar dálítið villandi. Ég get ekki betur séð en að kóðinn sé bara decompile á python kóðanum sem fylgir leiknum. Python kóða er umbreytt í binary skrár (.pyc skrár) þegar hann er keyrður í fyrsta sinn og þær skrár fylgja með leiknum. Það er afar einfalt að varpa þessum skrám aftur í forritunarkóða og slatti af tólum sem hægt er að nota til þess.
Ég sótti kóðann í gær og skoðaði, spila ekki leikinn þannig að CCP getur ekki bannað mig*! Þarna er ekkert sem gagnast neinum til að hakka leikinn. EVE hefur aldrei verið með krítíska leikjalógík á client, þetta fer allt saman fram á servernum. Það er algjörlega dauðadæmt í þessum bransa að reyna að hafa einhverjar upplýsingar á client sem notandi/spilari má ekki sjá eða breyta. Önnur regla er að treysta aldrei neinu sem kemur frá client.
Ég sé því ekki betur en að þetta mál sé stormur í vatnsglasi.
*Samkvæmt umræðunni hefur CCP verið að banna þá spilara sem dreifa þessu torrenti. Mér finnst það óþarfa harka, flestir sækja þetta örugglega vegna forvitni.
Tryggvi R. Jónsson - 15/04/08 11:28 #
Þetta er harla góð samantekt á málinu held ég, PR áhrifin eru klárlega meiri en nokkurn tíma tæknilegu áhrifin...
Eggert - 15/04/08 15:16 #
Fyndið að eitt af því sem aðilarnir sem dreifa source kóðanum fara fram á, er að CCP setji inn tékk fyrir bottum á clientinn. Eins og það myndi hindra einhvern með source kóðann.
Matti - 15/04/08 16:15 #
Þessi frétt mbl.is sem Tryggvi bloggar um er skelfileg.
Erna Magnúsdóttir - 15/04/08 22:35 #
Það er eitthvað frískandi við að sjá samsett orð sem er að helmingi sletta og að restinni til léleg þýðing. Kjarnakódi? Krúttlegt.
ps. Er til "íslenskt" orð fyrir kóða?
Arngrímur Vídalín - 15/04/08 22:53 #
Já, kóði. Fyribærið heitir aðlögun og er ansi algengt í nýyrðasmíð. Hverjum dytti til dæmis í hug að kurteisi sé franska? Sömuleiðis er ekki víst að fólk geri sér grein fyrir orðsifjum kóði þegar fram líða stundir.
Erna Magnúsdóttir - 16/04/08 00:08 #
Ef þau hefðu sagt "kjarnakóði" hefði það verið OK, en "kjarnakódi" hljómar einhvern vegin allt öðruvísi. Ég er ekkert að gagnrýna neinn fyrir að nota ekki íslensku, ég er hræðilega léleg í íslensku sjálf. En það er bara eitthvað fáránlegt við að sjá þetta samansplæsta orð, sérstaklega af því að kóði var skrifað með d. Er kjarnakóði í alvörunni íslenska fyrir "source code"? Ekki það að ég sé með betri uppástungu....
Matti - 16/04/08 00:18 #
Ég man ekki eftir að hafa heyrt orðið kjarnakóði áður. Kódi með d finnst mér enska.
Auk þess er þetta orð frekar villandi í þessari frétt. Ef um væri að ræða kjarnakóða, þ.e.a.s. kjarnann í hugbúnaðinum, þá var það ekki hann sem fór í dreifingu í þessu tilviki.
Ég man ekki eftir öðru orði en kóði fyrir source coude.
Það er töluvert um aðlöguð orð í þessum bransa sem er skiljanlegt. Class varð að klasa, við tölum um rútínur og föll, stefja er almennt ekki notað þó það sé ansi flott orð að mínu mati. Ég man eftir því að hafa þurft að útskýra fyrir kollegum mínum hvað ég væri að tala um þegar ég minntist á fleytitölur :-)
Stundum er þetta blandað eins og í fréttinni, það er t.d. algengt að member function verði member fall sem er skelfileg samsetning, member breytur er notað yfir member variables. Svo er kompælað eða þýtt, línkað og installað :-)
Arngrímur Vídalín - 16/04/08 01:01 #
Samkvæmt íslensku tölvuorðasafni er íslenska orðið yfir source-code frumkóti. Sjá hér.
En það skiptir auðvitað ekki máli. Tungumálið er eins og fólk talar það. Menn eru þó alltaf að reyna, með mismiklum árangri. Mér þykir líklegt að á endanum finnist orð yfir þessi fyrirbæri.
Erlendur - 16/04/08 01:50 #
Þegar ég sá kjarnakódi hjá mbl.is þá datt mér í hug kernel source code, ekki source code. Ég hef nefnilega venjulega séð kóða notað fyrir source code, þó stundum frumkóði.