Örvitinn

Prestalógík og kirkjusókn

Í einhverjum jólaprédikunum vildu spunameistarar Ríkiskirkjunnar meina að mæting í jólamessu væri óvenju góð þetta árið og þakka mætti það gagnrýnendum kirkjunnar.

Vel má vera að gagnrýni dragi einhverjar fram sem hingað til hafa haft hljótt um sig og ekki mætt í kirkju á aðfangadagskvöldi. Ég veit að margir mæta í jólamessu, sumir útaf trúarhita, aðrir útaf hefðinni og enn aðrir til að sjá aðstandendur flytja tónverk eða annan gjörning.

Mér finnst þetta samt dálítið undarlegt hjá prélátunum. Ég man nefnilega ekki eftir jólum þar sem prestar Ríkiskirkjunnar hafa haldið öðru fram en að kirkjurnar hafi allar verið troðfullar.

Varla er þetta ágæta fólk að ýkja eitthvað um jólin? Ég meina, hvað næst - heldur það því fram að jólaguðspjallið sé sagnfræðilega traust?

kristni
Athugasemdir

Eva - 27/12/07 09:57 #

Því hefur reyndar iðulega verið haldið fram að jólaguðspjallið sé sagnfræðilega traust. Það er með ólíkindum hvers konar þvælu kirkjunnar menn halda fram í nafni sagnfræðinnar. Mér er t.d. í fersku minni stórkostlegt brot úr jólamessu frá Dómkirkjunni nú á aðfangadagskvöld: "Mennirnir fundu ekki upp jólin þau eru komin frá guði. Jesús kom, þá breyttist allt, það er söguleg staðreynd." (http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4366985)Þetta er nú bara eitt þeirra atvika sem benda sterklega til þess að guðfræðideild Háskólans þyrfti að taka upp almenna sagnfræðikennslu því það virðist óhóflega algengt að prestar hafi enga hugmynd um að fylgjendur fornra trúarbragða hafi í gegnum tíðina haldið fæðingarhátíðir hinna ýmsu gvuða í kringum vetrarsólstöður. Aukinheldur bendir t.d. þetta svar; http://visindavefur.is/svar.php?id=1177, á vísindavef Háskóla Íslands til þess að full ástæða sé til að guðfræðingar verði látnir þreyta grunnskólapróf í sögu og sæta almennri geðrannsókn áður en þeir fá leyfi til að svara spurningum í nafni vísindavefsins.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson - 28/12/07 20:42 #

Sæll Matthías og gleðilega hátíð. Hvort þú vísar í viðtal við Örn Bárð í Neskirkju eða annað viðtal, þá heyrði ég a.m.k.viðtal við hann og fannst hann vísa í aðventuna líka um auknu kirkjusóknina, ekki bara jólin. Það sem mér fannst reyndar jákvætt við ummælin var að hann sneri umræðunni sér í vil - spann eins og þú orðar það - á jákvæðan hátt í staðinn fyrir hörku eða skítkast í garð okkar. Næstum viss um að ekki var þetta hárnákvæm mæling hjá honum - en fannst hann klókur að senda ekki tóninn. - Hvað merkir annars aukin kirkjusókn? Meiri pólariseringu um trú og trúleysi? Ég þekki trúlaust eða trúlítið fólk sem heldur því fram að þjóðkirkjan sé "bólusetning" gegn trúaröfgahópum. Kann að vera sannleikskorn í þessu en hjálpar lítt í þeirri mannréttindakröfu minni að hafa fullt frelsi og jafnræði til trúleysis sem er EKKI tryggt í stjórnarskrá eða löggjöf.

Matti - 30/12/07 04:36 #

Sæll Ingólfur.

Ég heyrði ekki viðtal við Örn Bárð, en ég hef heyrt af því að hann hafi sagt eitthvað í þá átt að aukna kirkjusókn mætti rekja til gagnrýni á kirkjuna. Biskup hefur sagt það sama.

Ég útiloka ekki þann möguleika.

Hitt finnst mér aftur á móti undarlegt að ávallt hefur verið talað um troðfullar kirkjur á jólum.

Annars eru prestar, og Örn Bárður þar meðtalinn, æ duglegri að neyða fermingarbörn til þess að mæta í kirkjuna og láta þau draga foreldrana með. Þannig að hugsanlega skýrir það einhverja aukningu.

Mínir heimildarmenn segja mér að á jóladag hafi verið óvenju fámennt í Seljakirkju.

Hvaða ályktun má draga af því? Er það svona líka glimrandi stuðningur við þá sem andmæla ásókn prestsins í þeirri sókn í leikskólana? :-)

Æi, mér leiðist þessi eilífi spuni kirkjunnar. Eins og þú bendir réttilega á, þá snýst þetta um grundvallaratriði.

Maggi mark - 31/12/07 00:10 #

Sæll Matti Siglfirðingur.

Hef svo oft kíkt á síðuna þína án þess að kvitta að mér fannst það vera orðið tímabært.

Ætla ekkert að spjalla um þráðinn, heldur bara að veifa þér, hef ekki náð því síðan þú hættir að spila með KS, því góða liði!

Leitt að heyra af innbroti og vatnsleiðindum.... Nýja árið vonandi bætir eitthvað skaðann.

kv., Maggi mark.

Matti - 31/12/07 00:14 #

Sæll Maggi og takk fyrir innlitið. Gaman að vita af þér hér.

Ég væri kátari ef Liverpool hefði náð að setja mark í leik dagsins :-)