Örvitinn

Útaf Fréttablaðinu og Þjóðsöngnum

Ég útskýrði það vandlega fyrir Frey hjá Fréttablaðinu að það væri ekki á dagskrá hjá okkur að berjast fyrir því að skipt yrði um þjóðsöng.

Ég tók undir með honum að textinn væri ekki boðlegur, þetta væri trúarlegur sálmur. Allt er rétt eftir mér haft. Við ræddum líka að fyrst það mætti breyta laginu, sem nýlega var gert, hví mætti ekki breyta textanum.

Ég sagði honum einnig að svona umræða væri óheppileg fyrir trúleysingja þar sem hún myndi valda því að margt fólk færi að þusa útaf því hve mikið öfgafólk við erum, svipað og gerðist með Litlu jólin í síðustu viku.

Mér finnst Þjóðsöngurinn ótækur en ég er ekki að fara að gera stórmál útaf því á næstunni. Það er margt annað sem hefur forgang.

Þess má geta að þegar ég sendi þessa sjálfsmynd til blaðsins var það til að hún kæmi með grein eftir mig, ekki í þessari stærð með annari grein.

fjölmiðlar
Athugasemdir

Gummi - 04/12/07 13:50 #

Eins gott, plebbarnir myndu nefnilega örugglega velja "Ísland er land þitt" sem nýjan þjóðsöng, og þá held ég hreinlega að maður yrði að flytja úr landi...

Haukur Ísleifsson - 04/12/07 13:55 #

Finnst þér ekki afar óheppilegt að þetta sé tekið svona útúr samhengi og sett fram sem að þú sért að berjast fyrir breyttum þjóðsöng.

Matti - 04/12/07 13:57 #

Jú, ég er afskaplega ósáttur við það. Sérstaklega þar sem ég lagði mikla áherslu á það við Frey að við værum ekki á leiðinni í þennan slag og að svona umræða kæmi okkur illa.

Óli Gneisti - 04/12/07 14:07 #

Á maður ekki að gera ráð fyrir að Freyr muni hringja í þig í framtíðinni og fá álit þitt á öllum málum sem eru að gerjast í þjóðfélaginu? Og hlutum sem eru bara ekkert í umræðunni.

Eyvindur - 04/12/07 16:43 #

Stundum getur borgað sig að afþakka spjall við blaðamenn, því þeir eru oft búnir að ákveða framsetninguna áður en viðtöl eru tekin - svo er bara valið og hafnað eftir að ummæli liggja fyrir.

Annars gott að þú ætlar ekki að fara að berjast gegn þjóðsöngnum. Það væri svipað þarft verkefni og að berjast gegn bláum og bleikum fötum á fæðingardeildinni.

Már - 04/12/07 18:12 #

Matti, mér sýnist að hvort sem þér líkar það betur eða verr, þá séuð þið í Vantrú búnir að koma ykkur í svipaða stöðu og Sóley Tómasdóttir og femínistavinkonur hennar:

Þið hafið þokkalega greiða leið inn í fjölmiðla, en þá helst sem nokkurs konar absúrd skemmtiefni. Jafnframt eruð þið komnir með stóran hóp bloggara sem fylgist með öllu sem þið skrifið og bíða færis að rífa það í sig og básúna andstæðu sjónarhorni út um allt.

Matti - 04/12/07 18:22 #

Jamm, ég þarf að fara að spá í því hvaða blaðamenn ég ræði við og æfa mig í að segja "no comment" :-)

Þetta hefur kosti og galla, sum okkar málefna komast í umræðuna á sama tíma og okkur eru gerðar upp skoðanir. Eldheit umræða um trúboð í leik- og grunnskólum undanfarið hefur dregið marga mótmælendur skólatrúboðs úr skápnum - þó biskup sé með einhverjar dylgjur um leið.

Eyvindur - 04/12/07 21:18 #

Já, en um leið borgar sig að ræða ekkert þau mál sem þið eruð ekki sem mest að berjast fyrir, eins og margir aðrir hópar og þá sérstaklega femínistar mættu temja sér.

Okkur hefur margoft greint á, Matti, en um leið erum við sammála um mjög margt og alls ekki síst skólamálin. Mér fannst til dæmis mjög skemmtilegt að sjá þig í Silfrinu um daginn, en brá mjög þessi umræða í Fréttablaðinu og gladdist mjög þegar ég sá þennan pistil. En vandamálið er auðvitað að fæstir sem lásu viðtalið lesa þessa viðbót. Og þegar fólk sér viðtal þar sem látið er í veðri vaka að þið séuð að berjast gegn þjóðsöngnum gengisfellur skólaumræðan, eða í það minnsta ykkar hluti af henni. Sem er mjög svo miður, því þar hafið þið sannarlega margt til málanna að leggja.

Þannig að ég vona sannarlega að þú náir góðum tökum á "no comment" listinni.

Óli Gneisti - 04/12/07 21:40 #

Virkilega indælt af þér að koma með þetta komment Eyvindur.

Dróttinn - 04/12/07 22:23 #

Freyr er drullusokkur. Var að vinna á veitingahúsi sem hann hótaði að rústa á síðum blaðs síns vegna smá yfirsjónar þjónustustúlkunnar. Hann missti gjörsamlega stjórn á sér og var við mörk froðufellingar af heimtufrekju...

Eyvindur - 04/12/07 22:31 #

Óli: Mér finnst bara ekkert sjálfsagðara en að hæla Matta og ykkur hinum fyrir það sem þið gerið vel. Enda vona ég að ég teljist ekki til stóra hópsins sem Már minntist á. Ég hef margoft bent á það sem mér finnst gott í ykkar skrifum, raunar mun oftar en það sem ég er ósammála held ég. Og ég ítreka það enn og aftur að í þau skipti sem ég hef gagnrýnt ykkur hefur það þrátt fyrir allt verið í jákvæðum tilgangi - að veita ykkur aðhald - því í langflestum grundvallaratriðum er ég ykkur sammála, þótt oft sé ég kannski ósammála einhverjum smáatriðum. Það væri hins vegar argasti barnaskapur og hroki að finna ykkur allt til foráttu þegar ég er ósammála en þegja svo þunnu hljóði þegar ég er sammála. Þá væri ég ekki samkvæmur sjálfum mér, og þótt mér takist ef til vill ekki alltaf vel upp reyni ég þó eftir fremsta megni að vera það.

Eins og ég sagði styð ég ykkur heilshugar í skólamálunum og fagna þessum áfanga með ykkur, þótt enn megi eflaust gera betur. Og fagna því sem ég veit, að þið munið halda ótrauðir áfram. Og ég mun styðja ykkur í því sem þið gerið vel og benda á það sem mér finnst þið gera illa, eins og vera ber. ;-)

Matti - 04/12/07 23:18 #

Dróttinn, ég hefði helst sleppa við svona athugasemdir í þessum þræði.

Takk fyrir þessar athugasemdir Eyvindur. Vandamálið er að ég hef ekki mjög mikla reynslu af samskiptum við fjölmiðla og er því dálítið naív í þeim efnum, en ég er vonandi að læra þetta dálítið hratt :-) Mér finnst auðveldara að fara í sjónvarp, það er hægt að undirbúa sig vandlega fyrir það. Erfiðara með símaviðtöl.

Nú hef ég tvisvar lent í svona tilvitnanagildru, ef það gerist í þriðja skipti get ég engum nema mér kennt um (bíð stressaður eftir DV á morgun)

Eyvindur - 04/12/07 23:30 #

Já, ég kannast sannarlega við þetta. Ég lærði af biturri reynslu að það borgar sig að veita ekki viðtöl af þessu tagi nema taka það fram sem skilyrði að fá að lesa viðtalið yfir áður en það er prentað. Og þó er það kannski engin trygging, því gæti vel verið breytt aftur eftir að maður kemur með athugasemdir og/eða breytingar.

Annars er engin ástæða til að kvíða DV. Það les það enginn. ;-)

Snorri Magnússon - 05/12/07 23:51 #

Er þetta ekki spurning um að vera "trúr" skoðunum sínum og rökfastur í því sem verið er að "boða"? Þá ættu allar leiðir að vera greiðar og útilokað að "afvegaleiða" menn í "trú" sinni og "boðun" nú eða snúa út úr "kennisetningunum".

Matti - 05/12/07 23:54 #

Óskaplegt rugl er þetta. Það er hægt að snúa út úr öllu með því að vitna bara í hluta samtals og minnast ekki á annað sem fram kemur í samtalinu. Það á við í þessu tilviki.

Snorri Magnússon - 06/12/07 00:13 #

Óskaplegt rugl er hvað?

Hér að ofan stendur "Mér finnst Þjóðsöngurinn ótækur en ég er ekki að fara að gera stórmál útaf því á næstunni."
Hvenær þá og hver ert þú að fara að gera stórmál út af því hvenær svo sem það þóknast þér?

Þjóðsöngur Íslendinga er sannarlega trúarlegur texti og verður að skoðast í ljósi þess tíma sem hann var saminn, sem og þeirrar staðreyndar að sá sem hann samdi var prestlærður maður. Hitt er svo annað mál að textinn skipar orðið miklu veigameiri og stærri sess í "þjóðarsálinni" og sögu lands og þjóðar en svo að hann sé hægt að skoða í dag, sem trúarlegt ljóð, hvort sem hann var saminn sem slíkur eða ei.

[ ég tók út heilmikinn texta sem var afritaður af þessari síðu - Matti]