Leikskólatrúboð er ekkert val
Ég á grein í Fréttablaðinu í dag. Er afskaplega þakklátur þeim fyrir að birta hana strax en hún tengist náttúrulega umræðu sem er í gangi þessa dagana. Greinin fer á Vantrú á næstu dögum. Skelli henni líka hér fyrir neðan.
Ég vil leiðrétta smá misskilning sem virðist almennur. Hvorki ég, Vantrú né Siðmennt (sem ég tala ekki fyrir) vilja banna litlu jólin eða jólaskraut. Það var rangt haft eftir talsmanni Siðmenntar í 24 stundum í gær.
Það er undarlegt að þegar svona umræða kemur upp virðist ótrúlega stór hluti hennar fara í að segja ósatt. Spurning er hvort þetta sé viljandi smjörklípa að hætti Davíðs Oddssonar eða hvort fólk heldur virkilega að þeir sem andmæla kristniboði í leik- og grunnskólum vilji banna fólki að halda jól.
Ég mæli með grein dagsins á Vantrú. Í henni er fjallað um þennan duglega minnihlutahóp sem kúgar meirihlutann svona óskaplega hér á landi.
Leikskólatrúboð er ekkert val
Í fréttum Ríkissjónvarpsins 28. nóv. sl. var sagt frá því að prestar fengju ekki lengur að vitja barna í þremur af fimm leikskólum í Seljahverfi. Fram kom að leikskólastjórar teldu ekki rétt að mismuna börnum eftir trúarskoðunum, taka yrði tillit til þess að við byggjum í fjölmenningarsamfélagi og að trúarlegt uppeldi ætti að vera í verkahring foreldra en ekki leikskóla. Í fréttinni var rætt við fjóra foreldra fyrir utan leikskóla og það virtist samdóma álit þeirra að það væri miður að þessum heimsóknum væri hætt. Sumir sögðu að þeir sem ekki væru sáttir við þessar heimsóknir prests gætu valið að taka börn sín úr starfi skólans meðan á heimsókn stæði.
Þar til síðasta vor átti ég börn í leikskóla í Seljahverfi og þekki því vel til þessara mála. Eins og fjölmargir aðrir Íslendingar erum við hjónin trúlaus og því kusum við að dætur okkar færu ekki til prests þegar hann heimsótti Hálsaborg. En það runnu á okkur tvær grímur þegar dætur okkar komu heim af leikskólanum og sögðu að þær tvær og einn drengur af erlendum uppruna hefðu verið tekin til hliðar þann daginn meðan hin börnin áttu stund með presti. Ég fékk ónotatilfinningu í magann þegar þær lýstu þessum leikskóladegi. Það var átakanlegt að hugsa til barnanna þriggja sem tekin voru úr hópnum þennan dag vegna lífsskoðana foreldranna. Ef ekki hefði verið fyrir þennan eina dreng, sem þá hefði verið einn útundan, hefðum við hiklaust látið stelpurnar fara í kristniboðið hjá séra Bolla. Það var ekki fyrr en drengurinn hætti á leikskólanum og dætur okkar voru einar teknar til hliðar að við höfðum samband við leikskólann og báðum um að okkar börn yrðu ekki lengur skilin frá öðrum. Þrátt fyrir lífsskoðanir okkar, sem skipta okkur töluverðu máli, gátum við ekki hugsað okkur að láta skera dætur okkar svo frá öðrum börnum í leikskólanum. Raunin er að leikskólatrúboð er ekkert val.
Það er nefnilega ekkert val fyrir börn að þau séu tekin úr hópnum. Ekkert foreldri á að vera sett í þá stöðu að neyðast til að velja á milli trúboðs og þess að barnið sé tekið til hliðar. Leikskólar eiga ekki að vera trúboðsstofnanir.
Viðhorf þeirra foreldra sem rætt var við í frétt Ríkissjónvarps byggist hugsanlega á þeim misskilningi að ekki fari fram kristniboð í heimsóknum prestsins. Varla er samt hægt að túlka það á annan hátt þegar prestur kennir börnum meðal annars að tala við Guð.
Sakni foreldrar heimsókna prestsins geta þeir farið með börnin sín í sunnudagaskóla. Það er þeirra réttur og þar fá börnin líklega nóg af kristniboði. Það er engin ástæða til að fara með slíkt starf í leikskóla og mismuna þannig börnum eftir lífsskoðunum foreldra þeirra. Stjórnendum þessara þriggja leikskóla vil ég hrósa fyrir að hafa tekið heillavænlega, manneskjulega og vel ígrundaða ákvörðun. Ákvörðun sem ber sönnu umburðarlyndi, tillitssemi og víðsýni fagurt vitni.
Höfundur er foreldri í Seljahverfi.
Forvitin - 30/11/07 18:09 #
Sæll, Hvað með leikskólakennara sem lesa jólaguðspjallið með börnunum og börnin leika helgileikinn fyrir foreldra í leikskólanum? Jólalög, kirkjuheimsókn á vegum leikskólans og slíkt? Flokkast þetta ekki undir kristniboð af hálfu leikskólans? Hverju breytir það þá í raun þó presturinn komi ekki ef leikskólinn stendur fyrir þessu?
Matti - 30/11/07 18:14 #
Sumt af þessu flokkast undir kristniboð, sumu af þessu er ég mótfallinn en ég er hræddur um að erfitt sé að eiga við þetta.
Ég hef mætt með dætrum mínum í kirkjuna um jólin, til þess einmitt að þurfa ekki að taka þær úr hópnum (og skóla). Það er trúboð í gangi þarna og að mínu mati er það óviðeigandi.
Hverju breytir það þá í raun þó presturinn komi ekki ef leikskólinn stendur fyrir þessu?
Presturinn mætir mánaðarlega og boðar kristni í leikskólanum. Það er stigsmunur á því og starfinu í kringum jólin. Það breytir því samt ekki að leikskólar ættu að hafa í huga að ekki eru allir kristnir á Íslandi. Við getum vel haldið upp á jól án þess að vera trúuð. Ég skrifaði grein um Kristsmessu til að útskýra þetta. Jólin eins og afar margir íslendingar halda þau eru afar lítið tengd kristindómi.
Hrund - 30/11/07 21:31 #
Takk fyrir þetta. Ég las greinina þína um "Kristsmessu" og varð eiginlega fyrir vonbrigðum. Mér finnst tilfinnanlega skorta umburðarlyndi gagnvart kristnu fólki í þennan málflutning. Ég las niður alla greinina af því ég beið alltaf eftir umfjöllun um "Kristsmessu" en hún kom aldrei. Ég er mikið að velta þessum málum fyrir mér og þessi grein hjálpaði mér ekki neitt því mér finnst hún bara vera gagnrýni á það að kristnir menn ákveði að halda upp á jól á sínum forsendum en ekki þínum. Takk samt.
Matti - 30/11/07 21:58 #
ég beið alltaf eftir umfjöllun um "Kristsmessu" en hún kom aldrei
Varla þarf ég að útskýra fyrir fullorðnum íslendingum af hverjir kristnir halda þessa hátíð?
mér finnst hún bara vera gagnrýni á það að kristnir menn ákveði að halda upp á jól á sínum forsendum en ekki þínum
Jæja, það er þín túlkun. Mín ætlun var að útskýra af hverju við hin sem ekki eru kristin höldum hátið.
Það er jú sífellt verið að spyrja trúleysingja af hverju í ósköpunum þeir halda jól.
Gunnar J Briem - 30/11/07 22:23 #
Mig langar til að óska þér til hamingju með mjög góða grein. Það besta sem ég hef lesið eftir þig. Vésteinn var líka mjög góður í mogganum. Þið ofstækismennirnir létuð 83% minnihlutahópinn um hatrammar blammeringar. :-)
Hrund - 30/11/07 22:33 #
Ég beið einmitt líka eftir því að lesa af hverju trúleysingjar halda jól. Í greininni er eingöngu gagnrýni á það hvernig og hvers vegna kristnir halda upp á jól. Af hverju alla þessa gagnrýni? Af hverju ekki umburðarlyndi? Ok, kannski var ætlunin að skrifa grein með gagnrýni á hvernig kristnir menn haga sínum jólum, það tókst þá alla vega. Fann bara ekki svör við mínum spurningum. Mér finnst nefnilega erfitt að skilja af hverju halda eigi í suma trúarlega siði þegar maður er ekki trúaður. Eins þá með leikskólastarf í huga. Fór einnig að lesa aðrar færslur hér á þessari síðu og var mjög hissa að sjá málflutnig varðandi Sr. Bolla Bollason. Finnst mjög skrýtinn málflutningur að ráðast á þennan hátt á hans persónu. Var að vonast eftir að finna hér málefnalega umræðu en fann hana því miður ekki. Þakka samt aftur fyrir mig.
Matti - 30/11/07 22:36 #
Mér finnst nefnilega erfitt að skilja af hverju halda eigi í suma trúarlega siði þegar maður er ekki trúaður.
Hvaða trúarlegu siði held ég í?
Finnst mjög skrýtinn málflutningur að ráðast á þennan hátt á hans persónu
Uh, hann var persónulega að stunda trúboð gagnvart mínum börnum. Þetta var persónulegt mál. Færslurnar um leikskólaprest lýsa upplifun mína á þessum tíma. Ég var sár, stundum niðurbrotinn, útaf þessu m,áli.
Var að vonast eftir að finna hér málefnalega umræðu en fann hana því miður ekki.
Hef ég verið ómálefnalegur í svörum mínum?
Hrund - 30/11/07 23:05 #
Ég hef ekki hugmynd um hvaða trúarlegu siði þú heldur í, enda var ég ekki að tala um þig persónulega... Það sem ég er að reyna að fá botn í er þetta með leikskólann t.d., hvaða trúarlegu siði á að halda í og ég velti líka fyrir mér hvort starfsfólk eigi að lesa jólaguðspjallið og hver munurinn er á því að börnin fái þann lestur frá presti eða starfsfólki því lesturinn er sá sami. Bara pælingar hjá mér og ég fann þessa síðu af því að ég var að leita að málefnalegri umræðu um þessi mál þar sem ég er að reyna að dýpka skilning minn á því, en þegar ég les persónulegar árásir á prestinn misbýður mér bara. Hans heimsóknir hafa með starf hans að gera og ómálefnalegt að ráðast á persónu hans á þann hátt sem hér hefur verið gert. Það er t.d. það sem ég á við þegar ég tala um málefnalega umræðu. Þegar umræðan snýst ekki lengur um það að presturinn er að heimsækja og fyrir hvað þær heimsóknir standa heldur er farið að kalla hann fífl og gert lítið úr honum. Þá finnst mér umræðan bara komin á lágt plan. Eins fannst mér greinin um "kristsmessu" ómálefnaleg af því hún snýst bara um að gagnrýna kristna menn í stað þess að sýna virðingu gagnvart þeirra trú um leið og talað væri um hvernig trúleysingjar halda sín jól hátíðleg. Það sem skiptir máli í öllum málflutningi er að bera virðingu fyrir skoðunum annarra þó að maður haldi fast um sínar eigin. Annars verður málflutningurinn ótrúverðugur og fólk eins og ég leitar annað eftir málefnalegri umræðu og skoðanaskiptum :)
Daníel - 01/12/07 00:01 #
Í skólum eru lesnar ýmsar sögur, ævintýri, skáldsögur, Íslendingasögur, riddarasögur og goðsögur, bæði kristnar og úr norrænu trúnni. Ég get ekki litið svo á að það að lesa þessar sögur feli í sér áróður um að þær séu sannar og skiptir þá engu máli hvort það er sagan af fæðingu Jesús eða af för Þórs til Útgarða-Loka. Þegar prestur kemur hins vegar til að "fræða" börnin um af hverju við höldum Jól þá er það trúboð sem ekki á heima í skólum. Á það má hins vegar benda að af þessum sögum eru það Íslendingasögurnar einar þar sem sérstaklega er fjallað um hvort þær séu sannar eða ekki. Væntanlega vegna þess að hinar eru annað hvort stimplaðar sem skáldskapur eða svo ótrúlegar að það þarf ekki að taka fram að þær eru uppspuni.
Gunnlaugur Þ. Briem - 01/12/07 04:28 #
Ég tek undir það: þetta var alveg prýðileg grein, kudos!