Örvitinn

Móðursýkin í trúmálaumræðunni

Jæja, þá er hún hafin móðursýkin sem fer í gang þegar umræðan um trúmál byrjar í fjölmiðlum. Alltaf heyrist sami kórinn um öfgafulla háværa litla hópinn sem vill skemma allt fyrir góða fólkinu. Í bloggheimum er fullt af fólki að kenna litla hópnum um það sem nú gerist. Af hverju ekki að horfa á gerandann í málinu, risastóru Ríkiskirkjuna sem hefur undanfarin ár verið að teygja anga sína miklu víðar en áður. Kristniboð í leik- og grunnskólum er nýlegt fyrirbæri. Kristilegt siðgæði var ekki sett í lög um grunnskóla fyrr en á áttunda áratug síðustu aldar.

Vandamálið er að öfgafulli háværi litli hópurinn gerði ósköp lítið í þetta skipti. Það voru ekki við sem úthýstum presti úr leikskóla, við skrifuðum ekki skýrsluna - komum þar hvergi nærri, við lögðum ekki fram nýtt frumvarp um menntamál (það gerði sanntrúaður kaþólskur ráðherra í kristilegum flokki) en við sendum frá okkur ályktun um málið fyrir tæpu ári og við sendum ekki bréf til skóla varðandi frí og fermingar (ráðuneyti kaþólikkans aftur).

Við komum satt að segja ekki nálægt þessu.

Tja, fyrir utan að við létum fjölmiðla vita af leikskólamálinu - ættingi minn er foreldri leikskólabarns og fékk fréttirnar á foreldrafundi í leikskóla í Seljahverfi. Annars höfum við ekkert gert varðandi leikskólaprest í marga mánuði.

Mikið væri gott ef allt þetta lið sem sakar okkur um öfga liti í eigin barm og sæi að það hefur óskaplega mikla fordóma gagnvart okkur og tjáir sig iðulega án þess að hafa hugmynd um staðreyndir málsins, gerir okkur oft upp skoðanir og öfga sem við könnumst ekki við. "Ég er nú ekki trúmaður en þessir öfgamenn í Vantrú eru ekkert betri en Gunnar í Krossinum" er einhver heimskulegasti frasi sem ég hef ítrekað séð. Sama fólk lítur á Ríkiskirkjuna, þessa þá sömu og stundar kristniboð í leikskólum og grunnskólum, sem hógvært félag! Ríkiskirkjan stundar massíft trúboð og er því hógvær, við mótmælum og erum öfgafólk sem boðar trúleysi. Þetta gengur náttúrulega ekki upp.

Svo vísa íhaldssömustu karlar landsins á þessa pistla með glott á vör, hafa fundið skoðanabræður sem rökstyðja mál sitt jafn illa og þeir - enda eru rök eitthvað fyrir öfgafólk.

Hér er við hæfi að vísa á pistil um öfgafulla trúleysingja.

dylgjublogg