Örvitinn

Okur

Ég var að kaupa veggfestingu fyrir flatskjá í Hagkaup Smáralind.

Á síðunni sem ég vísa á í síðustu málsgrein kostar festingin sautján pund. Miðað við gengið 124 gerir það um 2100.- kr

Hvað haldið þið að þessi festing hafi kostað hjá Hagkaup?

6.990.-

Djöfuls okur.

kvabb
Athugasemdir

Lárus Viðar - 07/11/07 19:14 #

Ætli hugsunin sé ekki sú að fyrst þú hefur efni á flatskjá þá er auka fimmþúsund kall fyrir festinguna lítið mál. ;)

Matti - 07/11/07 19:57 #

Þessi flatskjár kostar 50þ (við fengum hann á 42þ) - er semsagt bara einfaldur 20" skjár í svefnherbergið. Festingin er dálítið dýr í því ljósi.

LegoPanda - 07/11/07 21:35 #

Hagkaup hikar ekki við að okra á fötum og skóm heldur - og þeir komast upp með það vegna þess að flestir tengja Hagkaup við vörur á góðu verði :(

Borgar - 07/11/07 21:39 #

Ertu raunverulega, í fúlustu alvöru, að kvarta undan því að veggfestingin fyrir flatskjáinn í svefnherberginu þínu hafi verið of dýr?

Með því að kaupa þetta á 7000 kall, ert þú að segja við Hagkaup: "já, ég er tilbúinn til þess að borga 7000 kr fyrir þetta." Ég veit ekki hvernig þeir eiga að túlka þetta öðruvísi.

Btw, Á þessari síðu sem þú vísar á á eftir að leggja á þetta VAT + sendingarkostnað (innan Bretlands) = £31.56. Það gera 3914 kr íslenskar (miðað við 124 gengið).

Reyndar borgar þú ekki VAT út úr Englandi, en sendingarkostnaðurinn fer upp á móti. Þá er ótalinn VSK (af vöru og sendingarkostnaði), ásamt þeim tollum, vöru- eða aðflutningsgjöldum, og tollskýrsluþóknunum sem ofan á það koma. Enginn 7000 kall, en mun nær honum en 2100 kallinum.

Aukaspurning fyrir tvö stig: Eru menn sama starfi og þú í Bretlandi með sambærileg laun og þú færð hér?

Ég vinn ekki fyrir Hagkaup. :-)

Kalli - 07/11/07 21:42 #

Heh... þetta er ekkert. Ég var að skoða Nikon linsur á Ormsson vefnum áðan. Blóðnasirnar eru að sjatna.

Matti - 07/11/07 21:56 #

Ertu raunverulega, í fúlustu alvöru, að kvarta undan því að veggfestingin fyrir flatskjáinn í svefnherberginu þínu hafi verið of dýr?

Uh, já! Flatskjárinn er hræódýr eins og ég sagði í fyrra kommenti. 20", ekki breiðskjár, ekki HD.

Sjöþúsundkróna festingin eru tvær járnplötur með nokkrum götum og ekkert rosalega merkilegum beygjum. Ég vann við að beygja járnplötur nokkur sumur og get dæmt um það :-)

Ég held að forritarar hafi nokkuð svipaðar tekjur í Bretlandi en get ekki sagt að ég hafi kynnt mér þetta.

Hélt það væri sanngjarnt að miða við Bretland frekar en t.d. Bandaríkin þar sem ég hélt ekki að Bretland væri mjög ódýrt land. Hefði miðað við önnur evrópulönd ef ég væri ekki latur við að lesa á öðrum tungumálum en ensku og íslensku.

Með því að kaupa þetta á 7000 kall, ert þú að segja við Hagkaup: "já, ég er tilbúinn til þess að borga 7000 kr fyrir þetta." Ég veit ekki hvernig þeir eiga að túlka þetta öðruvísi.

Það er hárrétt hjá þér. Ég fékk þjónustu starfsmanns og sagði honum fyrir hvernig tæki þetta væri. Hann rétti mér þennan kassa. Þegar ég kom að afreiðslukassa dauðbrá mér, ég játa það. En tækið þarf að fara upp á vegg, annað er ekki í boði.

Með því að blogga um þetta bendi ég svo á að þetta getur varla talist eðlileg álagning.

Ég get ekki skilið þessa athugasemd öðruvísi en að það hljóti að vera rosalega bruðl að vera með sjónvarp (flatskjá) í svefnherberginu - finnst fólki það virkilega?

Baldur McQueen - 08/11/07 00:19 #

Ef gera á samanburð á Breta og Íslendingi hvað þetta varðar, er sendingakostnaður ekki sanngjarn þáttur (sérstaklega ekki þegar dýrasti sendingarmátinn er valinn til samanburðar).
Matti lét ekki senda sér gripinn.

Svo má leiðrétta þann lífsseiga miskilning að Íslendingar séu heilt yfir á hærri launum en þegnar annarra ríkja. Í Bretlandi fær yfirritaður t.d. hærri laun fyrir skemmri vinnuviku (35 klst).
Eru þá önnur fríðindi og kostir ótaldir :-)

Eftir stendur að ég get rölt í næstu PC World, keypt gripinn fyrir Matta og sent til Íslands fyrir £6.18 (miðað við 1.06 kg). Sem sagt; þegar PC World og breski pósturinn hafa fengið sitt og járnið er KOMIÐ alla leið til Íslands, er heildarkostnaður um £26 (3.224 ISK).

Nú geri ég ráð fyrir að Hagkaup versli við ódýrari aðila en PC World - og varla láta þeir senda sér vörurnar eitt stykki í einu? Vangaveltur Matta eiga því ágætlega við í þessu tilfelli. Hvað gerist á Íslandi sem hækkar verðið um rúm 100%?

Sævar Helgi - 08/11/07 01:41 #

Þetta er ansi dýrt fyrir svona lítið tæki. Venjuleg veggfesting fyrir 15-20 tommu tæki kostaði 2.990 kr hjá okkur í Ormsson þegar hún var síðast til. Venjulega kostar veggfesting fyrir 23 til 37 tommu skjái frá 6.990 upp í 9.900. Dýrustu veggfestingarnar eins og armar, fyrir stærstu og þyngstu tækin, kosta að jafnaði um 20.000 kr. Þær festingar verða jú að vera massífar.

Borgar - 08/11/07 10:29 #

Ég er sammála því að þetta er of dýrt og er svosem ekkert að ætla mér alls ekki að fara að verja álagningu hérlendis. Mér finnst Hagkaup venjulega ekki með verð í samræmi við gæði.

Mér finnst það allt í lagi að hafa sjónvarp í svefnherberginu. Mig langaði samt að benda á að þetta er pínu lúxusvandamál. Ég játa það fúslega að ég er að gera ráð fyrir því að þú hafir sett eitt í stofuna fyrst. Það er rangt af mér, það eru auðvitað fordómar sem ég hef af því að stofan er fyrsti staðurinn sem ég setti sjónvarp á.

Hugsaðu þér nú ef ég fussaði yfir því hvað væri dýrt að láta umfelga jeppann. Það fyrsta sem þú segðir er ekki "vó, dekkjaverkstæði okra á jeppaeigendum" heldur spyrðu frekar hvað ég sé að væla, fyrst ég hef efni á því að reka jeppa; af hverju ekki fá sé ódýrari bíl?

Það er kannski þess vegna sem mér finnst þú standa á vondum stað. Ekki af því að það sé ekki verið að svína á þér (sem það er), heldur kannski frekar vegna þess að það er erfitt að hafa samúð með þér. :-)

Aukaspurninguna má umorða svona: Hver er launamunur á starfsmanninum sem rétti þér kassann, og starfsmanninum sem réttir þér kassann í Bretlandi. Þetta er s.s. ekkert endilega einföld formúla, kannski mætti lækka allt verð hér um 30% ef laun væru líka lækkuð um 30%. Við værum þá komnir í sömu verð og og Svíar... eða eitthvað?

Ég held að Bretland sé nær okkur en BNA, og jú ég hefði sennilega tekið svipað dæmi en útreikningurinn á mismuninum finnst mér vafasamur. Það er líka óþarflega flókið að bera þetta saman við enskt dæmi þegar þú getur fundið ódýrari græjur í Elkó eða Ormsson.

Þetta hefur annars vakið mig mjög til umhugsunar um þessi mál. Sem er gott.

Matti - 08/11/07 10:37 #

Sjónvarpsstofusjónvarpið* er sjö eða átta ára 29" Sony WEGA trinitron túbusjónvarp. Það virkar ágætlega en ég verð að játa að stundum langar mig dálítið í stóran flatskjá, tími því bara ekki :-) Þetta var reyndar gott og frekar dýrt tæki þegar ég keypti það, en þá var ég líka búinn að gefast upp á nýlegu Sonic tæki sem ég keypti í Bónusradíó áður en sú búð hætti.

Ég er reyndar ekki að biðja um samúð, þetta er bara væl í mér. Ég meina, sjónvarpið er komið upp á vegg í svefnherberginu. Nú þarf ég bara að tengja það við eitthvað svo við hjónin getum horft á síðasta sjónvarpsþátt kvöldsins í rúminu fyrir svefninn.

Varðandi verðið - auðvitað hefði ég átt að snúa við og skila tækinu þegar ég heyrði verðið á kassa. Þá hefði ég aftur á móti þurft að fara að leita að festingu út um allan bæ og ég nenni því ekki.

Ég hef semsagt alveg efni á þessu en fjandakornið, ég verð stundum að fá að væla örlítið :-)

*Í stofunni á miðhæðinni er lítið sjónvarp frá 1990. Sjónvarpsstofan er á neðstu hæð. Þetta hljómar kannski til að auka enn á fáránleika sögunnar, en við borguðum minna fyrir hæðirnar þrjár í raðhúsinu okkar árið 2001 en fólk borgar fyrir 90fm íbúð í dag.

Sævar Helgi - 08/11/07 12:19 #

Þetta er alveg rétt sem Borgar segir. Launamunur er umtalsverður á Íslandi og Bretlandi. Ég fór eitt sinn inn í verslun í Bandaríkjunum sem seldi sjónvörp og spjallaði þar við afgreiðslumann. Hann spurði mig út í launin mín og ég komst að því að ég hafði talsvert hærri laun en hann að jafnaði. Þetta var fjölskyldumaður og ég skildi ekkert í því hvernig hann gæti lifað á þessum launum. Á móti kemur að hann var á prósentum en hann sagði mér að það gerðist nánast aldrei að prósenturnar hækkuðu launin það að þau færu upp fyrir mín.

Þegar fólk skoðar verð hérlendis verður það líka að hafa þetta í huga. Til að fyrirtæki reki sig verður að vera ákveðin lágmarksálagning á vörum og ég get lofað ykkur að hún er hærri en 15%. Ég er sjálfur í innflutningi og sé alveg hver álagningin er í Bandaríkjunum. Hún er stundum minni en 15% og það gengur alveg í þjóðfélagi sem er 1000 fjölmennara en við. Íslenskt fyrirtæki færi á hausinn ef það ætlaði sér að lifa á 15% álagningu. Ef ég sel einn stjörnusjónauka, þá þarf fyrirtæki í Bandaríkjunum að selja 1000 sjónauka. Ólíku saman að jafna.

Svo er ríkið auðvitað engin engill. Ríkið hækkar verð á sjónvarpstækjum um 60% og svo þarftu auðvitað að borga skatt fyrir að eiga tækið þitt.

Smá rant. Mig langar líka stundum að væla.

Erna - 08/11/07 14:20 #

Já, svona fyrst ég er nýflutt til Bretlands verð ég að leggja orð í púkk. Mér sýnist við fyrstu viðkynni laun hér ver töluvert lægri en á Íslandi, alla vegana fyrir faglært fólk og alveg örugglega fyrir ófaglært. Hér telst það til dæmis vera "competitive" laun að vera með 300 þúsund á mánuði ef maður er með háskólapróf, jafnvel þó maður búi á dýrum stað..... Og nú er ég ekki að tala um okkur vísindamennina. Við vinnum af svo mikilli hugsjón að það þarf varla að borga okkur laun. Svo bíður maður alltaf bara eftir skemmtanaskattinum fyrir okkur sem finnst gaman að vinnunni okkar... hehe

Sirrý - 08/11/07 16:45 #

Kostar bara 3900 kr í sjónvarpsmiðstöðinni http://www.sm.is/index.php?sida=flokkur&flokkur=0608 En ég er sammála þér Matti finnst þetta dýrt.

Matti - 19/11/07 16:06 #

Athugasemd Baldurs hafði lent í ruslsíu (ip tala á svörtum lista) og ég tók ekki eftir því fyrr en núna - hef alveg gleymt að kíkja á spamlistann á minni síðu undanfarið. Biðst velvirðingar á þessu.