Er Krulli kverúlant nasisti?
Ef Krulli kverúlant fjallaði um sjálfan sig væri hann eflaust búinn að komast að þeirri niðurstöðu að hann væri argasti nasisti.
Af hverju þarf öll umræða að vera svona heimskuleg? Af hverju má enginn gagnrýna neitt án þess að kverúlantar þessa lands snúi út úr umræðunni? Er til of mikils mælst að þeir taki sér nokkrar mínútur til þess að reyna að skilja gagnrýnina?
Það var enginn að fara fram á það að bókin um tíu litla negrastráka yrði bönnuð. Foreldrar þeldökkra og blandaðra barna vilja skiljanlega ekki að þessi bók sé á leikskólum því hún elur á fordómum gegn þeldökkum. Þessi gagnrýni er ekki flókin og það er ekkert öfgakennt við hana.
En Krulli kverúlant gasprar og setur sig á háan hest. Maðurinn er helvítis hálfviti ekki sniðugur.
Ég gæti tekið annað dæmi um mótmæli gegn helgidagalöggjöf sem Krulli kverúlant sneri upp í að Talibanar væru að mótmæla frídögum - en það er önnur umræða og skiptir ekki máli hér.
Eggert - 26/10/07 06:26 #
Kannski er það vegna þess ég á engin blönduð börn (7,9,13), en ég er eiginlega sammála Kr.Kv.
Mér finnst 'negrastrákur' ekki neitt hræðilega niðrandi, ég kann mörg verri orð. Ég hugsa jafnvel að almennilegar fóstrur (sem eru jú til) geti alveg notað þessa sögu til þess að vekja umhugsun leikskólabarna um kynþáttafordóma.
Þetta mætti hins vegar vel túlka sem einhvers konar nostalgíu hjá mér - jafnvel dulda kynþáttafordóma.
Matti - 26/10/07 07:55 #
Auðvitað má deila um það hve niðrandi orðið 'negrastrákur' er. Vissulega má deila um það hve fordómafullar teikningar bókarinnar eru.
En ég hef fulla samúð með foreldrum þeldökkra barna, ég get reynt að setja mig í þeirra spor og skil því af hverju þau vilja ekki að bókin sé höfð í leikskólum. Þessi bók getur mjög auðveldlega alið á fordómum - þó það sé ekkert öruggt.
Krulli kverúlant getur ekki sett sig í spor þeirra sem mótmæla einhverju. Hann þarf alltaf að setja upp gagnrýni byggða á misskilningi og heimsku.
Pétur Björgvin - 26/10/07 12:04 #
Svo er það málið með hina pólitísku rétthugsun að hún er ekki algild. Var í Rúmeníu á dögunum og hitti mann af ætt Sinti. Þar sem ég er vanur að tala um Sinti og Roma en ekki Sígauna talaði ég á þann hátt við hann þar til hann sagði: Voðalega er þetta þreytandi, ,,come on man" ég er bara Sígauni, nenni ekki þessu Sinti Roma kjaftæði. Jamm og hananú. Og hvað átt ég að segja. Heyrðu kæri vinur, þú ert ekki nógu pólitískt rétthugsandi maður, þú mátt ekki tala um sjálfan þig sem Sígauna, þú ert Sinti ??? Semsagt hér erum við aftur stödd í þessari eilífu umræðu: það sem gildir fyrir suma gildir ekki fyrir hina, þó það sem gildi fyrir hina gildi líka fyrir suma, nema ...
Erna - 26/10/07 14:40 #
Það skiptir ekki máli hvort til eru einhver algild hugtök pólitískrar rétthugsunar. Það sem skiptir máli er að maður noti hugtök sem sýna að maður tali af virðingu um viðkomandi. það er ekki hugtakið sjálft sem slíkt sem skiptir máli heldur það að maður noti viðeigandi hugtök. Og pólitísk rétthugsun er tæki sem maður getur notað þegar maður vill hafa aðgát í nærveru sálar. Viðmælandinn er kannski ekki endilega viðkvæmur, en maður getur ekki vitað það fyrirfram og því rétt að fara varlega. Á sama hátt er í lagi að sleppa því að hafa þessar bækur frammi þar sem möguleiki sé á að þær geti sært eða vakið fordóma.
Már - 28/10/07 10:24 #
Ég er á þeirri skoðun að það skipti ekki máli hvaða orð maður notar, heldur hvernig maður notar þau. Það er hægt að breyta hvaða orði sem er í móðgun. Svona hugtakaflótti eins og maður sér t.d. hjá fóstrum (ahem, afsakið, ég meina "leikskólakennurum") leysir að mínu mati engan vanda ef virðingarleysið (eða fordómarnir) eru enn við lýði í samfélaginu.
Ég hef oft lesið "Litla svarta Sambó" fyrir strákinn minn, og okkur þykir hún hin ágætasta lesning. Að vísu sleppi ég alltaf lýsingarorðinu "svarti" framan af nöfnum allra persónanna, því þannig flæðir textinn betur og ég losna undan því að svara spurningunni "Pabbi, af hverju ertu alltaf að segja 'svarti'?"
Þegar guttinn verður orðinn nægilega gamall til að lesa bókina sjálfur, þá verður hann nægilega gamall til að skilja skýringuna: "Þetta er gömul bók og þegar hún var skrifuð þá var mjög fátt fólk með brúna húð á íslandi, að fólki þótti brún húð svo skrýtin að þeim fannst nauðsynlegt að tala um hana í sífellu."
Mér þykir afar áhugavert að skoða hvernig gömul hallærisleg bók um tíu litla stráka með brúna húð, getur fengið annað gildi í samtímanum.
Ég mundi hafa miklu meiri áhyggjur af t.d. sögunni um Dimmalimm, og öllum ævintýrunum um heimska bóndastráka sem leysa þraut og fá í verðlaun íðilfagra prinsessu sér til eignar.
Ég og krakkarnir mínir munum þurfa að spjalla ítarlega saman um afkáraleika og úreltan boðskap þeirra bókmennta. En það kemur ekki til greina í mínum huga að sterílisera heimilið af þessum menningararfi - heldur mun ég nota hann markvisst sem uppeldistæki.
Matti - 28/10/07 10:52 #
En það kemur ekki til greina í mínum huga að sterílisera heimilið af þessum menningararfi
Muntu lesa tíu litla negrastráka og sleppa því að lesa negraforskeytið ;-) Jafnvel halda höndum yfir ýktustu parta teikninganna.
Ég hef einmitt líka lesið bækur (um Stúf) og sleppt negraforskeytinu vegna þess að mér fannst óþarfi að dætur mínar færu að nota það orð, negrakóngur varð einfaldlega kóngur. Ég hef lesið Grimmsævintýri fyrir stelpurnar og notað tækifærið til að ræða við þær um siðfræði og kvenréttindi.
Getur þú skilið afstöðu foreldra þeldökkra barna? Ég skil hana vegna þess að mínar dætur umgangast þeldökk börn.
Sjálfum þætti mér bókin óþægileg ef hún héti Tíu litlir trúleysingjar og málaði jafn afkáranlega mynd af trúleysingjum. Samt er ekkert særandi við orðið trúleysingi.
Mér finnst umræða um bókabrennur útúrsnúningur og til þess gerð að gera lítið úr málflutningi þeirra sem hafa áhyggjur af kynþáttafordómum.
Hér er ágætt sjónarhorn hjá Baldri og svo veltir Óli Gneisti því fyrir sér hvort orðið sé niðrandi eður ei og hvaða boðskapur fyrir börn sé eiginlega í þessari sögu.
Gunnar J Briem - 28/10/07 13:54 #
Suðurhafseyjakóngurinn var í Tralla, ekki í Stúfi. Rétt er að benda á að áróðurinn í Tralla er ekki einhlítur - Tralli kemur úr norðri með hala á afturendanum, en kóngsdóttirin hefur engan hala.
:-)
Já, það er sjálfsagt og eðlilegt að gagnrýna svona bækur, jafnvel gagnrýna útgáfu slíkra bóka, og eins og þú bendir á er það útúrsnúningur að taka slíkri gagnrýni sem ósk um boð og bönn, bókabrennur og þess háttar fasisma.
Már - 28/10/07 14:03 #
Muntu lesa tíu litla negrastráka og sleppa því að lesa negraforskeytið
Hehehe... ég var einmitt að velta þessu fyrir mér áðan.
En, nei ég held að ég mundi bara lesa hana eins og hún er. Ef ég læsi hana nokkurn tíman. Persónulega finnst mér hún ekkert sérstaklega merkilegt lesefni.
Ég held að í huga barnanna (á mínu heimili a.m.k.) máli hún einfaldlega mynd af tíu kjánalegum strákum. Nú eru ár og dagur síðan ég sá bókina síðast, en mig minnir að hún hafi ekki beinlínis dregið upp eitthvert orsakasamhengi milli hörundslitar drengjanna og óhappanna sem henda þá. Mig grunar að heildarafstaða samfélagsins hafi séð um að skapa þá tengingu í hugum barna í gamla daga.
Börnin mín alast upp á upplýstu og fordómalausu heimili, í samfélagi sem reynir að vera upplýst og tillitssamt, og eru á leikskóla þar sem rétt tæplega 50% barnanna eru af erlendu bergi brotin, þannig að mig grunar að þau muni seint lesa beina kynþáttahyggju úr bókum á borð við Stúf, Sambó eða bókinni um negrastrákana.
ATH. samt að ég hef aldrei talað um bókabrennur eða neitt slíkt. Mér finnst þetta bara mjög áhugaverð (og þörf!!) umræða.
Arnold - 29/10/07 10:23 #
Er ekki Egill bara samkvæmur sjálfum sér, þetta er hluti af menningu okkar eins og kristnin og því má ekki gagnrýna þetta eða halda þessu frá börnunum, þau verða jú að þekkja rætur sínar. Egill er nefnilega þannig innréttaður að það má endilega gagnrýna annara skoðanir, bara ekki hans. Endilega gagnrýna trúarbrögð því þau hafa gott af því eins og hann benti á í skopmyndamálinu í Danmörku. En þegar kemur að hans trú þá breytist í honum hljóðið.
Matti - 30/10/07 09:23 #
Mæli með þessari grein Gauta B. sem Halldór Elías vísaði á. Ég held að þessi grein loki málinu - a.m.k. sé ég ekki hverju er hægt að bæta við skrifa Gauta.