Eitruð garðvinna
Ég framdi fjöldamorð í gærkvöldi.
Þegar við komum frá útlöndum var víðirinn í garðinum iðandi af lús. Það sást af löngu færi og þegar grannt var skoðað var hægt að telja tugi lúsa á sumum laufblöðum.
Keypti því eitur (Permasect) og spreybrúsa í Garðheimum. Blandaði eitrið við vatn í hlutföllunum 4ml á móti 10l af vatni og sprautaði vel yfir trén. Nágranni lánaði mér stærri kút eftir að ég var nýbyrjaður og þetta tók því ekki langan tíma. Ég var ekki beint vel búinn, ekkert fyrir augum eða vitum, reyndi að halda mig vindmeginn en fékk stundum smá úða framan í mig. Var samt með hanska og blandaði eitrið úti. Efnið er víst meinlaust fyrir manneskjur en ég skellti mér samt í góða sturtu að verki loknu.
Sá eina lifandi lús í gærkvöldi á greininni sem ég skoðaði, allt annað var dautt. Verst er að þó maður sé búinn að drepa lúsina sitja leifarnar eftir á laufinu, engin prýði af því en þó skárra að hafa leifar heldur en fjörugar pöddur.
Ef það rignir ekki í dag verð ég að slá þegar ég kem heim.
Ég ætlaði að taka myndir áður en ég byrjaði en gleymdi því. Eflaust var það fyrir bestu.