Dagurinn: leikskólaútskrift og balletsýning
Í morgun fór ég með Ingu Maríu á leikskólann, en þar var haldin útskriftarathöfn. Inga María var semsagt að útskrifast úr vísdómsstarfinu. Krakkarnir sungu fyrir okkur og viti menn, það heyrðist í þeim. Afar skemmtilegt. Eftir útskrift var boðið upp á kaffi og veitingar, ég fékk mér vatn og skinkuhorn. Tók sárafáar myndir. Inga María er samt ekki hætt á leikskóla, en vísdómsstarfinu er semsagt lokið.
Í kvöld var dansskólinn hennar Kollu með sýningu í Borgarleikhúsinu. Kollu finnst óskaplega gaman að sýna að finnst ekkert mál að vera á sviði. Ég rembdist við að ná myndum af Kollu en það gekk ekkert sérstaklega vel, það voru svo margar stelpur á sviðinu og erfitt að ná henni einni.
Þó maður sé fyrst og fremst mættur til að sjá sitt barn var gaman að sýningunni og ekki laust við að ég sé farinn að kunna betur að meta danssýningar eftir að Kolla byrjaði í ballet :-)
Tók samt helling af myndum á sýningunni, flestar komu illa út en nokkrar heppnuðust ágætlega.