Stiklur
Ég er dálítið lúinn.
Í gærkvöldi fór ég með Gyðu á vorfagnað skrifstofu fjármála og upplýsinga Landspítalans. Ég ákvað að vera á bíl og lét því eitt rauðvínsglas með matnum duga.
Dagskráin í dag var nokkuð þétt. Við byrjuðum á Arnarnesi þar sem við sóttum stelpurnar og fengum hádegismat. Fórum þvínæst í Smáralind og keyptum fótboltaskó handa Kollu, hún týndi íþróttapokanum sínum í skólanum í vikunni. Því næst fórum við i opið hús í leikskólanum. Inga María sýndi okkur það sem hún hefur verið að gera. Þetta er í síðasta skipti sem við mætum á opið hús í leikskólanum, tíminn flýgur.
Ég og Kolla fórum á undan hinum, því Kolla átti að mæta í Fífuna klukkan hálf tvö. Þar var hún að spila fótbolta í dag. Skemmti sér vel og gekk alveg ágætlega. Ég tók nokkrar myndir, rembdist satt að segja við það því það er hrikaleg lýsing inni í Fífunni. Myndin til hliðar er tekin á iso3200 (reyndar fyrir mistök). Fullkomlega nýtilegt í vefupplausn og myndi eflaust prentast ágætlega. Ég er ansi ánægður með myndirnar [1, 2] af kr guttunum.
Ég fór í innibolta klukkan fimm. Það var líka alveg ágætt, átta mættir. Ég gat samt ekki rassgat.
Mamma var í mat hjá okkur í kvöld, hún og Gyða komu við í búð eftir fótboltann hjá Kollu og keyptu kryddaðar kjúklingalundir og kjúklingaleggi sem ég grillaði í sólinni á svölunum. Opnaði eina bjórinn minn af því tilefni.
Ætlaði að taka Liverpool leik dagins upp, stillti vídeótækið á upptöku og var með allt á hreinu. Nema hvað, dagskrá Fréttablaðsins í dag var röng, Liverpool leikurinn var ekkert aðal leikur dagsins og ég á því leik Wigan og West Ham á spólu.