Örvitinn

Strætóferð daginn eftir

Inga María í strætóÉg, Gyða og Inga María fórum í bæinn í hádeginu til að sækja bílana. Jeppinn var niðri í bæ og bíllinn hennar Gyðu við vinnuna mína.

Við völdum ekki beint rétta veðrið fyrir bæjarferð en Inga María skemmti sér vel í strætó. Kíktum í Eymundsson niðrí bæ, keyptum afmælisgjöf og glugguðum í tímarit.

Kolla var hjá Sölku Töru, vinkonu sinni. Ætlaði með fjölskyldu hennar í smá ferð úr bænum en þau hættu við ferðina vegna veðurs.

Ég fór í pool með vinnunni í gærkvöldi. Gyða sótti mig svo um hálf átta og við kíktum á Tapas barinn. Óskaplega gaman að borða þar, en þau mættu banna reykingarnar, til hvers að bíða eftir lögum til að gera jafn sjálfsagðan hlut og að koma í veg fyrir að manneskjan á næsta borði reyki ofan í mig meðan ég er að njóta matarins? Eftir matinn kíktum við á Rósenberg þar sem við sátum í dálítinn tíma og hlustuðum á ágætis tónlist, fengum okkur bjór og kokteila - þó lítið hafi verið í boði af slíku þar. Menn geta verið fínir söngvarar og tónlistarmenn þó þeir séu stundum ekkert sérlega fyndnir, ég hafði sérlega gaman að því sem spilað var úr The Wall og Mother fannst mér afskaplega vel flutt.

Við fórum heim þegar barnapían (Áróra) hringdi og sagðist vilja fara að sofa.

dagbók