Örvitinn

Þórir Guðmundsson er ekki trúverðugur

Þórir Guðmundsson ritstjóri vísis er ekki trúverðugur.

Um helgina setti ég inn athugasemd við þessa færslu. Athugasemdina skrifaði ég undir fullu nafni, hún var málefnaleg og tengdist efni færslunnar. Þórir er búinn að fjarlægja athugasemdina.

Skömmu áður hafði eiginkona Þóris, Adda Steina, verkefnastjóri samkirkju- og upplýsingamála Þjóðkirkjunnar, eytt athugasemd minni við þessa færslu. Þá athugasemd skrifaði ég einnig undir fullu nafni, athugasemdin var málefnaleg og fjallaði um efni færslunnar. Ég sendi Öddu Steinu tölvupóst og spurði út í ástæðu þess að hún eyddi athugasemdinni en hún kýs að svara ekki. Trúverðugleiki Þjóðkirkjunnar hefur reyndar aldrei verið mikill.

Ég skora á þau að rökstyðja þessa ritskoðun. Ekki geta þau haldið því fram að athugasemdirnar hafi verið ómálefnalegar eða innihaldið dylgjur. Ekki geta þau heldur rökstutt að ég hafi verið að fjalla um eitthvað sem ekki tengist skrifum þeirra. Staðreyndin er að þetta er hrein og klár ritskoðun.

Ég myndi skilja þetta ef ég hefði verið að drulla yfir fólk, skrifað athugasemdir sem ekki tengjast færslunni eða verið að spamma, en svo var alls ekki. Ég hef verið að velta þessu mikið fyrir mér, er hugsanlega að ég hafi óvart sagt eitthvað óviðeigandi eða sé alveg ómeðvitaður um það þegar ég er dónalegur. Nei, staðreyndin er sú að þessar athugasemdir voru fullkomlega eðlilegar.

Vísisbloggið er dautt í fæðingu.

vefmál
Athugasemdir

Jón Magnús - 05/03/07 17:25 #

Mér sýnist að þú sért ekki til - hugsanlega ósýnilegur. Ertu búinn að láta athuga þetta? ;)

Matti - 05/03/07 23:00 #

Reyndar er annar möguleiki í stöðunni. Hugsanlega þarf að samþykkja allar athugasemdir, þrátt fyrir að enga vísbendingar séu um slíkt þegar maður setur athugasemdina inn. Þannig gæti mér virst athugasemdir mínar hafa farið í loftið, en raunin sé að þær bíði samþykktar. En reyndar er búið að loka fyrir athugasemdir við færsluna hjá Öddu Steinu, þannig að sú skýring er ósennileg í því tilviki.

Slíkt væri afskaplega klaufalegt, en það er ekki hægt að útiloka þann möguleika.

Svo er ég ekki ósýnilegur - bara óæskilegur :-)

Þórir Guðmundsson - 12/03/07 18:04 #

Sæll Matti, heldur þykir mér þú tilætlunarsamur að búast við tafarlausum svörum við færslu sem send er inn á laugardegi og er birt og svarað á mánudegi. Og birta svo skammir um mig í framhaldinu. Þér hefur ekki dottið í hug að ég væri í sumarbústað án aðgangs að tölvu, eða skotist milli landshorna um helgina eða jafnvel, sem er það sem gerðist, farið í langþráða vikuferð til Ítalíu? Ég gerði mér reyndar sérstakt far um að svara þér á mánudeginum - í frekar óvistlegu nethorni spilasalar í ítölsku Ölpunum - og gerði það bara af því að ég hafði ekki séð færsluna þína hér á þessari síðu þennan sama dag. Ef ég hefði séð hana hefði mér ekki dottið í hug að svara þér. Svarið er reyndar á blogg.visir.is/thorir. En þar sem þér er mikið í mun að þín upphaflegu ummæli hafi verið kurteis og málefnaleg þá skal ég lýsa því yfir hér að það voru þau. Og ég vona að svarið hafi verið það líka. Það væri svo sem líka dæmi um kurteisi að biðjast forláts á þessari færslu sem ég er að svara núna - en ég er ekkert að fara sérstaklega fram á það. Því ræður þú sjálfur. Bestu kveðjur, Þórir

Matti - 12/03/07 18:27 #

Að sjálfsögðu biðst ég afsökunar á því að hafa þig fyrir rangri sök.

Raunin er sú að ég sá athugasemd mína fara á vefinn þinn en næst þegar ég kíkti á færsluna var athugasemdin horfin. Ég varð ekki var við nein merki þess að athugasemd mín biði samþykkis en útiloka ekki að það hafi bara farið framhjá mér þó ég hafi séð slík skilaboð á ótal öðrum bloggsíðum.

Pirringur minn kom til vegna þess að það sama hafði gerst hjá eiginkonu þinni, Öddu Steinu. Þ.e.a.s. ég horfði á athugasemd fara á síðuna, sá ekki merki þess að hún biði samþykkis en næst þegar ég leit inn var athugasemdin horfin og búið að loka fyrir frekari athugasemdir. Einnig hafði Egill Helgason verið að eyða athugasemdum mínum á vísissíðu sinni og þjóðkirkjupresturinn Örn Bárður lék sama leikinn.

Það var semsagt engin leið fyrir mig að sjá annað en að þið hefðu eytt athugasemdunum og taktu eftir að þessi færsla er skrifuð um tveimur sólarhringum eftir að ég sendi inn athugasemdirnar.

Ég var því orðinn langþreyttur á ritskoðun og biðst enn og aftur velvirðingar á væna þig um skort á trúverðugleika.

Matti - 12/03/07 19:39 #

Adda Steina skrifar bloggfærslu og kallar þessi skrif mín rætin og einelti.

Í ljósi fyrri athugasemdar minnar spyr ég, hvernig átti ég að vita að a) athugasemdir mínar biðu samþykkis í ljósi þessa að ég horfði á þær fara á síðu þeirra en svo hverfa án þess að sjá skilaboð um að athugasemd biði samþykkis og b) að þau væru í útlöndum? Ég fékk reyndar "out of office" seinna sama dag og ég skrifaði þessa bloggfærslu og setti þá inn athugasemd nr. 2 við þessa færslu.

Matti - 12/03/07 20:31 #

Á síðu sinni segir Adda Steina:

Síðastliðið sumar fór ég í 2ja vikna frí til Ítalíu og komst lítið í netpóst á meðan. Þegar ég kom til baka hafði téður Matthías sent mér bréf og þar sem hann fékk ekki svar um hæl var hann búinn að blogga um að ég ignoreraði hann. Hann var ekki búinn að senda ítrekun á bréfið eða tilgreina að hann væri í tímaþröng, greinilega ekki búinn að hringja á skrifstofuna og komast að því að ég væri í fríi, bara búinn að blogga um meintar skoðanir mínar.

Ég kannast ekki við þetta, finn engan tölvupóst frá mér til Öddu Steinu á síðasta ári og enga bloggfærslu á þessari síðu þar sem ég minnist á hana. Er bæði búinn að googla ýmsar útgáfur af nafni hennar og fletta í gegnum allar bloggfærslur mínar frá síðasta sumri.

Matti - 12/03/07 22:15 #

Jæja, ég fann þetta loks, google virðist ekki hafa indexað þessa færslu og ég notaði ekki "Adda Steina" í tölvupóstinum þannig að ég fann ekki bréfið með gmail.

Ég sendi henni og Dr. Pétur Pétursyni tölvupóst þann 9. maí - þann 22. maí bloggað ég um þetta og önnur tilvik þar sem tölvupósti mínum var ekki svarað (takið eftir því hvernig þetta rímar við athugasemdadæmið núna). Þannig 26. maí svarar Adda Steina póstinum. Þess má geta að svarið var það að þau ætluðu að leyna þessum upplýsingum áfram, ég hefði misst af hádegisfundinum í Neskirkju þar sem þær hefðu verið kynntar.

Þorkell - 13/03/07 15:13 #

Hefði ekki verið eðlilegra að skrifa Öddu Steinu bréf og spyrja hana hvenær umrædd samskipti fóru fram áður en þú skellir fram ásökunum hér Matti? Mér finnst allt þetta ferli lýsa óvönduðum vinnubrögðum.

Þú átt þó hrós fyrir að viðurkenna klaufaskapinn og slæmt minni.

Matti - 13/03/07 15:16 #

Hefði ekki verið eðlilegra að skrifa Öddu Steinu bréf og spyrja hana hvenær umrædd samskipti fóru fram

Ég gerði nákvæmlega það Þorkell.

...áður en þú skellir fram ásökunum hér Matti?

Hvaða ásökun? Ég vitna í hana, segist ekki kannast við þetta. Finn þetta svo eftir stífa leit og sendi henni tölvupóst þar sem ég benti henni á að ég hefði fundið þetta. Hér er allt uppi á borðinu.

Hvað er þú annars að ibba gogg?

Þorkell - 13/03/07 18:59 #

Ég er bara að benda þér á að betri er krókur en kelda. Það eru einfaldlega fagleg vinnubrögð að kanna mál til þrauta áður en maður gælir við það opinberlega að fólk fari með rangt mál.

En ég skal glaður hætta að kommenta hjá þér ef það fer í taugarnar á þér Matti minn.

Matti - 13/03/07 20:31 #

Þorkell, ég tók athugasemdina þína út í einn og hálfan tíma (meðan ég borðaði kvöldmat og svæfði stelpurnar). Hvernig fannst þér upplifunin að sjá athugasemdina þína hverfa?

Þorkell - 15/03/07 17:50 #

Það pirraði mig nú ekki mikið. Fannst það bara skondið að þú skuldir fjarlægja hana eftir allt það sem á undan er gengið.

Matti - 15/03/07 17:51 #

Jæja, ég var að vona að þér þætti það dálítið skítt :-)