Barnaland
Eins og ég minntist á í fyrradag hef ég dálítið verið að rökræða á Barnalandi í kjölfar miðlagreinar á Vantrú. Ég skráði mig til að koma með innlegg í umræðuna um greinina, en við höfum fengið rúmlega fimmtán hundruð heimsóknir á Vantrú frá Barnalandi síðustu þrjá daga.
Ég hef enga ástæðu til að básúnast yfir barnalandi eins og sumir, ég hef ekki verið að lenda í neinum persónuárásum, a.m.k. ekki neinum til að gera veður útaf, bara þetta hefðbundna um þröngsýni og ferkantaðan þankagang. Þessar umræður hafa verið alveg þokkalegar á netmælikvarða. "Trollin" leynast víða en mér sýnist þau ekkert algengari þarna en annars staðar.
Útfærslan á spjallinu á barnalandi er nokkuð áhugaverð. Spjallið er í tré og umræður geta orðið afar teygðar. Stundum er erfitt að sjá svör en ég fæ tilkynningar í pósti og reyni þá að skima yfir umræðurnar og finna svörin - hef reyndar misst af sumu við fyrsta lestur. Ég sakna þess að ekki er hægt að nota neitt html, finnst lágmark að bjóða upp á html vísanir, feitletrun og blockquote. Það er flottur fítus að hægt er að veita snarsvar þar sem athugasemd færist beint í tréð.
Þarna skrifa nær allir undir dulnefni. Ég skráði mig undir fullu nafni, hef ekki ástæðu til að leynast þarna :-) Það getur stundum verið dálítið þreytandi að rökræða við fólk sem ekki skrifar undir nafni því nafnleysið veitir fólki ákveðið frelsi en maður má ekki láta það flækjast of mikið fyrir sér.
Flestir á barnalandi sýnist mér ansi opnir fyrir hindurvitnum en þó eru nokkrir einstaklingar sem hafa tekið þátt í umræðunni frekar skeptískir. Ekki get ég dæmt um það hvort hlutfallið á þessu spjalli er eitthvað öðruvísi en hjá öðrum hópum.
Ég hef látið aðra umræður alveg eiga sig, ætla nú ekki að fara að tjá mig of mikið á þessum vettvangi. Eitt hefur þó þetta spjall mitt síðustu daga haft í för með sér. Vísunin á vantrúargreinina hefur hangið ansi lengi á forsíðunni. Það gæti verið tilviljun!