Örvitinn

Kolla sjö ára

Kolla sjö áraKolla er sjö ára í dag. Bekkurinn hennar var hér á milli tólf og tvö, tuttugu krakkar, strákar og stelpur.

Það var eiginlega agalegt. Tveir piltar í hópnum réðu ekkert við sig og gengu fram af mér með látum og dónaskap. En jæja, svona er þetta. Klukkan þrjú mæta ættingjar og vinir.

Klukkan fimm sest ég svo fyrir sjónvarpið og horfi á fótboltaleik, kannski ég fái mér einn bjór.

Við gáfum risastóra playmó-dýragarð sem var einmitt það sem hún vonaðist eftir. Hann var ekki ódýr en Kolla átti skilið að fá hann!

fjölskyldan
Athugasemdir

Eyja - 06/01/07 19:25 #

Til hamingju með hana. Við lentum í þessu sama í október þegar miðdóttirin varð 8 ára. Buðum öllum bekknum og nokkrir strákar höguðu sér þannig að við vorum öll gapandi (þ.e. við foreldrarnir og unglingarnir þrír sem voru að hjálpa til). Ótrúlegt alveg.

Matti - 07/01/07 13:47 #

Þetta var alveg ótrúlegt. Það voru tuttugu börn á svæðinu en þessir tveir voru með meiri læti en restin af hópnum.

Þegar börnin settust við matarborðið byrjuðu þeir að brjóta plastglös og henda í aðra. Ég stóð yfir þeim og skammaði þá en þeir héldu áfram, virðingarleysið var algjört. Það endaði með því að við rákum þá frá borðinu, þeir fengu ekki að borða kökur og pizzur með hinum krökkunum.

Ég stoppaði þá einu sinni í stiganum og lét þá setjast niður, sagði þeim að ég myndi hringja í foreldrana og láta sækja þá ef þeir hættu ekki. Þá róuðust þeir í smá stund en síðar héldu þeir áfram, voru að lemja aðra krakka og hentu svo sprittkertum í stofunni!

Það versta við þetta er að restin af bekknum var í fínu lagi. Við vorum að ræða um að næst yrði bara stelpunum boðið, en mér finnst það afar leiðinlegt gagnvart hinum strákunum sem ekkert hafa unnið til saka.

Við höfum haldið barnaafmæli með leikskóla- og skólafélögum í mörg ár en aldrei kynnst öðru eins. Oft hafa verið læti og stundum höfum við þurft að stoppa einhverja í galsanum, en ekkert þessu líkt.

Einar - 07/01/07 22:16 #

Gastu nefnt þetta við foreldra strákanna eftir afmælið? Sumir krakkar sleppa sér þegar foreldrar eru ekki viðstaddir, og því vita þeir aldrei í raun hvernig krakkarnir þeirra geta verið í annarra manna húsum.

Matti - 08/01/07 09:51 #

Gyða vissi ekki hvað hún átti að segja þegar mæður þeirra mættu!

Eyja - 08/01/07 12:08 #

Þetta hljómar ótrúlega svipað því sem gerðist hjá okkur. Einn strákurinn var alveg snarbrjálaður og tókst að æsa 2-3 aðra upp með sér. Þeir eyðilögðu afmælissönginn með því að garga af öllum lífs- og sálarkröftum, hentu pizzusneiðum niður af svölunum (þrátt fyrir ítrekuð fyrirmæli um að hætta því) og krítuðu skemmtilega frasa eins og "helvítis hóra" á pallinn beint fyrir framan nefið á okkur (af því tilefni þurfti ég að fara að útskýra merkingu orðsins "hóra" fyrir 8 ára dóttur minni en því orði hafði hún ekki vanist á sínu heimili). Svo slógust þeir út í eitt.

Við sögðum ekkert við foreldrana beint en ég hringdi í kennarann og lýsti þessu fyrir henni. Hún talaði svo við foreldrana. Okkur líst ekki heldur á að bjóða strákunum aftur...slæmt þar sem besti vinur dótturinnar er strákur úr bekknum.