Örvitinn

Veitingastaðurinn Madonna

Ég get ekki mælt með veitingastaðnum Madonna á Rauðarárstíg. Alls ekki.

Við skelltum okkur semsagt út í kvöld, vorum ekki búin að ákveða stað þegar við ókum í bæinn en fengum þá flugu í höfuðið að kíkja á Madonnu. Við vorum snemma á ferðinni og vorum mætt korteri fyrir sjö.

Ég pantaði mér spagettí með kjötsósu (bolognese), Gyða fékk sér sjávarréttapizzu og við pöntuðum hálfmána handa stelpunum. Yfirleitt er ég ekkert rosalega hrifinn af þessum ódýru ítölsku stöðum í Reykjavík. Maður fær ágætis pasta og pizzur, en ekkert miklu merkilegra en ég elda sjálfur. Oftast er maturinn samt töluvert merkilegri en sá sem boðið var upp á í kvöld.

Spagettí með kjötsósu var hörmung. Þegar ég fer út að borða á veitingastað geri ég þá lágmarkskröfu að spagettí sé rétt eldað. Ég hef ekki séð ofsoðið spagettí síðan við keyptum spagettí í IKEA og IKEA eru ekki að setja neina standarda í matseld hér á landi. Spagettí í réttinum mínum var töluvert ofsoðið. Maður á ekki að þurfa að panta spagettí al dente, þannig á það einfaldlega að vera. Sósan var tilþrifalítil, svosem ágætlega krydduð en það var eitthvað tómatsósubragð sem pirraði mig. Ekki var boðið upp á ferskan parmesan ost og enginn piparkvörn var á borðinu. Til að bæta gráu ofan á svart var skammturinn frekar lítill.

Pizzan hennar Gyðu var sæmileg. Reyndar var alltof mikill túnfiskur á henni, það hefði mátt skera hann niður um svona helming (sem Gyða gerði sjálf, hún týndi slatta af túnfisknum af). Ég fékk mér eina sneið og túnfiskurinn var alltof þurr.

Hálfmáninn var að mínu mati alltof saltur. Skinkan sýndist mér vera af ódýrustu sort og auk þess var full mikið af henni! Hálfmáninn var ansi stór, þannig að hann dugði stelpunum vel.

Inga María týndi tréflís úr pizzusneið sem hún fékk hjá mömmu sinni og ég tók eitthvað svipað, sem þó gæti hugsanlega hafa verið krydd, úr skinkunni úr hálfmánanum. En flísin sem Inga María fann var ekki úr neinu kryddi.

Við pöntuðum gos sem var afhent í 250ml flöskum, slíkur fjársjóður kostar 290.- kr stykkið, sem er töluvert dýrara heldur en á mörgum miklu betri stöðum. Verð á pastaréttum og pizzum er svosem hefðbundið miðað við þessa tegund veitingastaða en réttir dagsins eru verðlagðir eins og staðurinn sé í allt öðrum klassa en hann er. Ég hefði verið til í að prófa eitthvað af þeim ef þeir hefðu verið a.m.k. þúsund krónum ódýrari.

Þjónustan var svosem ágæt. Reyndar vantaði hnífapör og servíettur á borðið en því var reddað eftir að matur var borinn fram. Ekki var bætt á vatn nema beðið væri um það, þá fékk ég litla könnu. Þjónn sýndi flís úr mat lítinn sem engan áhuga.

Við stoppuðum ekki lengi og vorum komin út tæpum klukkutíma eftir að við mættum.

veitingahús
Athugasemdir

Jonni - 05/11/06 15:50 #

Til að bæta gráu ofan á svart var skammturinn frekar lítill.

Minnir mig á Woody Allen:

There's an old joke... two elderly women are at a Catskill mountain resort, and one of 'em says, "Boy, the food at this place is really terrible." The other one says, "Yeah, I know; and such small portions." Well, that's essentially how I feel about life — full of loneliness, and misery, and suffering, and unhappiness — and it's all over much too quickly.

Btw. þú verður að passa myndirnar sem birtast hérna hægra megin. Ég er að sturlast úr löngun í humar.

Matti - 05/11/06 16:06 #

Ég var einmitt að hugsa um þennan Woody Allen frasa þegar ég skrifaði setninguna :-)

Varðandi humarinn, þá á ég um þrjú kíló af fallegum humar úti í bílskúr. Þarf að hafa humarveislu fyrir fjölskylduna bráðlega.