Á fætur fyrir fimm, ærulaus!
Ég sofnaði við að svæfa Ingu Maríu í gærkvöldi (hver svæfir hvern?) og ákvað að skella mér beint í bælið þegar Gyða kom og potaði í mig, annars hefði ég eflaust vakað fram undir mogun.
Vaknaði því hress og kátur án vekjaraklukku klukkan fimm í morgun. Skellti mér á netið og kaus Magna í Rockstar í endalausri lykkju, nú borgaði vélritunarnámið í Verzló sig heldur betur! Af hverju kaus ég? Jú, vegna þess að ég hef gaman að þáttunum.
Var eitthvað að spá í að fara að leggja mig klukkan sex en fannst það tilgangslaust, enda búinn að sofa í átta tíma.
Sá í Fréttablaðinu að Árni Johnsen hefur fengið æruna aftur. What the fuck. Síbrotamaður er loks gripinn eftir að hafa hnuplað milljónaverðmætum á löngum tíma. Hann skammast sín ekkert fyrir brotin, eiginlega þvert á móti, honum finnst hann eiga þetta allt skilið fyrir þrotlausa vinnu sem hann átti ekki að sinna, hann var bara að borga sjálfum sér ógreidd laun. Man einhver eftir því að Árni hafi sagt að hann hafi gert eitthvað rangt? Fjandakornið, þetta er bull. Í mínum huga er Árni þjófur og fordómapúki. Ef hann kemst aftur á þing er eitthvað stórkostleg að þessari þjóð (eitthvað meira en þegar liggur fyrir).
Eyja - 30/08/06 09:53 #
Ég hjó eftir því að Ólafur Ragnar er í útlöndum og þ.a.l. handhafar forsetavalds í fjarveru hans, sem alveg óvart eru flokkssystkin Árna, sem sáu um að gefa honum æruna aftur. Einhvern veginn grunar mig að tímasetningin sé ekki tilviljun. En mikið langar mig að vita hverjar þessar sérstöku aðstæður eru sem gera það að verkum að ÁJ getur fengið ærutetrið sitt þrátt fyrir að fimm ár séu ekki liðin. Ætli hann hafi hótað að spila fyrir þau?
Matti - 30/08/06 14:02 #
Samkvæmt þessum pistli á Orði götunnar virðist ákvörðunarvaldið í þessum máli hvort eð er liggja hjá ráðherra en ekki forseta. Veit ekki hve mikið er að marka þetta hjá þeim, ekki voru þeir sannspáir um framgang málsins.
Ekki sé ég heldur hverjar þessar sérstöku aðstæður gætu verið, aðrar en þær að nú styttist í kosningar og Árni þarf að huga að framboði.
Ég trúi því ekki að það gerist !
Kristján Atli - 30/08/06 17:53 #
Er þetta ekki ósköp borðleggjandi? Hann hefur sennilega fundið fyrir vaxandi stuðningi við framboð sitt og hefur því hringt í vin sinn Björn og beðið um greiða. Greiðinn hefur nú verið inntur af hendi og Árni mun hljóta kosningu á þing innan skamms.
Meikar það ekki fullkomið sens að kjósa yfir sig mann sem hefur rænt og ruplað frá almenningi og ekki eitt einasta sinn beðist afsökunar? Ég man eftir helgarviðtalinu við hann sem birtist í DV fyrir þremur árum, þar sem forsíðuna prýddi mynd af honum með sorgarsvip undir stórri fyrirsögn: "BUGAÐUR"
Á þeim tíma fannst mér fyrirsögnin "BÖSTAÐUR" eiga betur við og mér finnst það ennþá. Hann hefur aldrei gert neitt annað en að vorkenna sjálfum sér fyrir að hafa nást, auk þess sem hann var duglegur að nýta sér vistina á Kvíabryggju til að vekja athygli á sjálfum sér.
Það sama gildir hér og í Bandaríkjunum og víðar. Fólk sem kýs Árna Johnsen yfir sig á ekkert betra en Árna Johnsen skilið.