Örvitinn

Barnablessun og bærinn

Kolla og Inga María með blöðrur í bænumByrjuðum daginn í hádegismat á Arnarnesi. Klukkan eitt fórum við í barnablessun í Fíladelfíu. Sara og John eru á landinu og buðu til blessunar Nóa Björns sem er hálfs árs. Hvítasunnumenn skíra ekki börn heldur blessa þau. Athöfnin var haldin í sal á neðri hæð Fíladelfíu hússins (fyrir neðan hátíðarsalinn semagt) og svo var boðið upp á kökur og kaffi.

Eitt kom mér í opna skjöldu. Þessi barnablessun var miklu "hófsamari" en þær skírnarathafnir sem ég hef verið viðstaddur, bæði í heimahúsum og kirkju. Hafliði Kristinsson stjórnaði blessuninni og hélt smá tölu þar sem hann ræddi við foreldrana um skyldur þeirra, svo var stutt bæn og þá var það komið. Síðar í boðinu voru sungnir trúarsöngvar sem voru töluvert hressari en þessir sálmar sem yfirleitt eru í hefðbundnu athöfnunum. Ekki það að ég hafi ekki fengið nettan hroll við að hlusta á trúarsöngvana - en ég get skilið þetta betur en hundleiðinlega og alvarlega sálma sem eru sungnir yfir hálfdauðum kirkjusal.

Þetta fékk mig til að hugsa, er bókstafstrúarfólkið virkilega hófsamara en frjálslynda Þjóðkirkjufólkið að einhverju leiti? Ég veit ekki, þetta er dálítið forvitnilegt. Vissulega er trúarhitinn á samkomum þeirra meiri, annað eins hefur maður séð og bókstafstrúin er náttúrulega ótrúleg (grænsápan er það líka) - en í þessu tilviki var athöfnin létt og frjálsleg, ekki stíf og heilög eins og maður hefur oft upplifað.

Við kíktum í bæinn rúmlega þrjú og vorum þar í tæpa tvo tíma. Mættum Jesús á Hverfisgötnni, hann var dálítið grár. Sáum svo sem ekki margt, stelpurnar höfðu gaman af Sollu stirðu á stóra sviðinu en ætli stigagaurinn fyrir framan Hornið hafi ekki verið skemmtilegastur. Pabbi skellti fimm hundruð krónum í hattinn hans, hann átti það skilið. Í bænum bar það helst til tíðinda að við rákumst á Sigurbjörn frænda minn og unnustu/kærustu/vinkonu (ég veit ekkert, hef aldrei hitt hana áður) hans. Frumlegar skreytingar vöktu athygli okkar, búið var að hengja upp brúður hér og þar sem litu út eins og barn hangandi í gasblöðru, þokkalega óhugnalegt. Við keyptum gasblöðrur handa stelpunum, í stað þess að borga þúsund krónur fyrir blöðruna í sölubás röltum við í 10/11 og borguðum 600 krónur fyrir stykkið.

Ég tók nokkrar myndir í bænum.

dagbók kristni