Örvitinn

"Hugurinn ber þig hálfa leið"

Ég þarf að fara að íhuga það alvarlega að búa til undirflokk fyrir sjónvarpsauglýsingar á þessari síðu.

Sjónvarpsauglýsing Icelandair, "hugurinn ber þig hálfa leið" sem er í keyrslu um þessar mundir, er einhver allra besta auglýsing sem ég hef séð. Ég hef reyndar ekki hugmynd um það hvort hún virkar samkvæmt mælitækjum markaðsfræðinnar, en ég veit að hún virkar á mig. (Er þetta ekki annars örugglega Icelandair? Ég er nefnilega ekki viss :-) )

Auglýsingin er góð vegna þess að þetta er svo satt. Maður liggur í sófanum með bumbuna út í loftið og lætur sig dreyma um eitthvað þessu líkt. Dagdraumar mínir gerast reyndar frekar í liðbúðum Liverpool en íslenska landsliðsins, en annars er þetta nákvæmlega svona, maður er kannski að puða á æfingatæki í ræktinni og skyndilega er hugurinn búinn að bera mann í annan heim þar sem maður náði langt í boltanum og er á leiðinni að fara að spila fótboltaleik með átrúnaðargoðunum. Ég sé sjálfan mig í þessari auglýsingu, alltaf fastur í dagdraumum.

En svo verð ég að taka það fram að auglýsing Orkuveitunnar er verri í hvert sinn sem ég sé hana, "svona viljum við hafa það....". Jesús.

menning
Athugasemdir

Kristján Atli - 12/06/06 18:45 #

Þetta er svo satt. Stundum geta auglýsingar verið svo ofurgóðar, af því að þær höfða til einhvers sem býr í okkur öllum. Þessi tiltekna auglýsing talar til allra íslenskra knattspyrnuunnenda sem heita ekki Eiður Smári, sem gerir hana stórskemmtilega.

Hitt er svo annað mál hvort hún skilar árangri. Ég var nefnilega viss um að hún væri að auglýsa Iceland Express, en sé að þú heldur að þetta sé Icelandair, þannig að nú veit ég ekki heldur.

Já, og Orkuveitu-auglýsingin var allt of löng í fyrsta skipti sem ég sá hana. Og allt of viðbjóðsleg, en það er önnur umræða. Nú þegar hún er spiluð í hálfleik á hverjum leik á HM er ég að verða gráhærður ...