Örvitinn

Skýrslan

Stóru stelpurnar koma heim í kvöld (í kringum miðnætti). Sé til hvort ég vaki eftir þeim. Æi, það er reyndar ekki eins og ég sé vanur að fara snemma í bælið þannig að ég vaki eftir þeim ef fluginu seinkar ekki.

Eldaði afganginn af fisknum í gærkvöldi, steikti hann í raspi og hafði franskar og kokteilsósu með. Kolla borðaði ágætlega en Inga María snerti varla fiskinn. Mér þótti þetta ansi gott.

Það hlýtur að teljast ákaflega kaldhæðnislegt að ég skuli elda fisk tvisvar meðan Gyða og Áróra Ósk eru í útlöndum því vanalega er ekki fiskur í boði á okkar heimili nema ég sé ekki heima!

Fékk nýjan harðan disk í tölvuna í gær, uppfærði í 120GB. Þessi keyrir lílka í Ultra DMA og það munar um það. Sem betur fer tókst að afrita allt af gamla disknum þannig að ég þarf ekki að vesenast við að setja upp forritin sem ég nota. Aftur á móti lenti ég í vandræðum með minnið í vélinni. Vélin bláskjáaði í gær og þegar hún ræsti aftur sá vélin bara 512MB (af 1GB). Ég ýtti við minniskubbum og þá sá vélin allt minnið. Þetta gerðist svo aftur í gærkvöldi og enn aftur í morgun. Spurning hvort þetta tengist því að minniskubbar eru ekki eins, sá gamli er 266DDR og sá nýji 333DDR. Ég held reyndar að þeir séu báðir að keyra á 133 þannig að þetta eigi ekki að skipta neinu máli, minniskubburinn ætti að vera traustari ef eitthvað er þegar hann er undirklukkaður.

Mikið óskaplega leiðist mér svona tölvuvesen.

dagbók