Örvitinn

Góðir grannar

Þegar við komum heim til okkar á laugardag eftir barnaafmæli í Hafnafirði urðum við vitni að heldur leiðinlegri uppákomu.

Nágrannar okkar eiga tvö lítil börn sem voru að leika sér í miðjunni ásamt frænku sinni sem er örlítið eldri. Tvö eldri börnin voru að róla en litla stelpa rölti í kring. Strákurinn í rólunni var farinn að sveiflast ansi geist og skyndilega rakst hann á litlu stelpuna sem meiddi sig augljóslega en þó ekki alvarlega.

Foreldrar barnanna voru stödd fyrir framan húsið, tæpa fimm metra frá atburðinum. Hver haldið þið að viðbrögð þeirra hafi verið? Haldið þið að þau hafi stokkið til og athugað með stúlkuna - kannski skammað strákinn aðeins í leiðinni?

Neibb, viðbrögðin voru að öskra þannig að glumdi í hverfinu "helvítis hálfvitinn þinn" auk nokkurra vel valinna orða. Strákurinn er svona fjögurra ára og atvikið var óhapp. En litla stelpan, sem er í mesta lagi tveggja ára, fékk enga athygli, hún sat bara og grét ein við róluna - krakkarnir reyndu að hugga hana. Við vorum mikið að spá í að fara að hugga barnið en kunnum ekki við það fyrir framan foreldrana. Ég veit, stundum er maður óskaplega mikil rola.

Sem betur fer var þetta ekki alvarlegt, en fjandakornið, hvað er eiginlega að svona liði?

dagbók
Athugasemdir

Kristín - 11/04/06 13:30 #

Og hvernig verða þessi börn þegar þau vaxa úr grasi?

Matti - 11/04/06 18:37 #

Ég vil eiginlega ekki hugsa þá hugsun til enda, vonan bara það besta :-|